Emma Stone opinská í viðtali við Jennifer Lawrence

Emma Stone.
Emma Stone. AFP

Leikkonan Emma Stone var opinská í viðtali sem vinkona hennar og kollegi Jennifer Lawrence tók við hana. Lawrence tók viðtal við Stone í tilefni þess að Stone verður þrítug í nóvember næstkomandi.

Stone hefur leikið í fjölda kvikmynda síðustu 12 árin, en fyrsta kvikmyndin sem hún lék í var Superbad ásamt leikaranum Jonah Hill. Hún er þó betur þekktari fyrir hlutverk sitt í kvikmyndunum The Amazing Spider-Man og La La Land.

Þar sem þær eru vinkonur er viðtalið ekki með hefðbundnu sniði og ræða þær saman á hversdagslegu nótunum. Viðtalið gerðu þær fyrir tímaritið ELLE og bað Stone um að Lawrence tæki viðtalið. 

„Mér fannst þrítugsaldurinn mjög áhugaverður tími og það hefur mikið gerst á síðustu tíu árum, bæði jákvætt og ekki jákvætt. Það er skrítið hvað það að verða þrítugur kristallar lífið. Í stað þess að láta drauma mína frá því að ég var lítil rætast og vinna við það sem ég elska að gera, eignast vini og fara í gegnum allt það, þá er það núna bara; hvað langar mig raunverulega að gera sem fullorðinn einstaklingur?“ segir Stone.

Í viðtalinu talar Stone um kvíða, sem hefur fylgt henni allt frá því hún var barn. Hún segist alltaf hafa verið mjög tilfinningarík. Hún segist þó vera þakklát fyrir kvíðann sinn, sem hún segir að veiti sér orku. 

Þær ræddu einnig um barneignir. „Viðhorf mitt gagnvart barneignum hefur breyst eftir að ég varð eldri. Ég passaði aldrei neina krakka. Sem unglingur sagði ég alltaf „ég ætla aldrei að giftast. Ég ætla aldrei að eignast börn.“ Og síðan varð ég eldri og var bara mig langar til að gifta mig. Mig langar til að eignast börn,“ sagði Stone. 

mbl.is