„Margt spennandi fram undan“

Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) og Árni Heimir …
Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) og Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur og listrænn ráðgjafi SÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er mjög stolt af komandi starfsári og hlakka til, enda margt spennandi fram undan. Við erum með óvenjumargar stjörnur í hópi einleikara og einsöngvara og bjóðum upp á fjölbreytta dagskrá. Hápunktur starfsársins verður síðan þriggja vikna tónleikaferð hljómsveitarinnar til Japans í nóvember. Það er því af nógu að taka,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ).

„Eitt af því sem markar sérstöðu okkar á alþjóðavísu er hvað efnisskráin okkar er ótrúlega fjölbreytt. Sinfóníuhljómsveit Íslands er þjóðarhljómsveit og við viljum að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, allt frá þungarokki til barokks með viðkomu í samtímatónlist og allt þar á milli. Okkar markmið er að ná til sem flestra og jafnframt gera allt í hæstu gæðum,“ segir Arna Kristín. 

Að vanda er árið samsett af föstum áskriftarvikum og árlegum liðum utan áskriftar á borð við Myrka músíkdaga og bíótónleika. „Að vissu leyti verður starfsárið hverju sinni til með lífrænum hætti. Við eigum í samtali við Yan Pascal Tortelier, aðalhljómsveitarstjóra okkar, sem hefur ákveðnar áherslur í sínu verkefnavali, Osmo Vänskä og Vladimir Ashkenazy hafa sínar óskir og síðan þurfum við að raða dagskránni að öðru leyti saman þannig að árið myndi góða heild og endurspegli breidd í verkefnavali. Við þurfum síðan að finna til réttu sérfræðingana til að taka að sér öll þessi mjög svo ólíku verkefni,“ segir Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur og listrænn ráðgjafi SÍ.

Skipulagningin langhlaup

„Það er alltaf ákveðið langhlaup að skipuleggja tónleikaárið, því það geta liðið nokkur ár frá því línur voru lagðar þar til hlutirnir verða að veruleika. Sem dæmi má nefna að fyrir um þremur árum var mörkuð sú stefna að auka hlut kvenna í hópi hljómsveitarstjóra og tónskálda sem við erum að sjá raungerast í dag,“ segir Arna Kristín.

„Það er okkar hlutverk að spegla samtímann og í dag getum við gengið út frá því að konur í samtímatónlist hafi tækifæri og menntun til jafns við karla. En í gegnum söguna hafa tækifærin verið svo ójöfn að myndast hefur skekkja. Konur fengu ekki að mennta sig og verk þeirra sem þó sömdu voru þögguð niður og glötuðust í tímans rás. Þannig eru furðumargar áheyrilegar sinfóníur eftir konur á 19. öld sem hafa legið í þagnargildi svo að segja frá því þær urðu til, en gaman er að draga fram í dagsljósið,“ segir Árni Heimir og tekur fram að eitt af því sem huga þurfi að í verkefnavali sé að kynna áhugaverða og stundum gleymda hluti úr fortíðinni.

„Um leið og eftirspurnin eftir konum í hópi hljómsveitarstjóra og tónskálda eykst bregðast umboðsskrifstofur við og auka hlut þeirra. Við getum þannig knúið fram þessa breytingu með því hvernig við setjum fram okkar kröfur til umboðsmanna og hljómsveitarstjóra. Í dag er hljómsveitarstjórum ekki stætt á öðru en að bjóða á sinni efnisskrá verk eftir konu,“ segir Árni Heimir.

„Þessi breyting er líka að verða í nágrannalöndum okkar sem við viljum bera okkur saman við. Þetta er skýr stefna og við erum að uppskera núna og munum uppskera enn frekar í framtíðinni,“ segir Arna Kristín.

„Við sjáum fyrir okkur að eftir tvö ár verði verk eftir konu á öllum efnisskrám hljómsveitarinnar. Við erum þannig að búa til nýtt norm. Við gerum þetta ekki af kvöð,“ segir Árni Heimir. „Heldur af innri ástríðu og þörf. Einsleit listræn mynd er ekki áhugaverð. Við viljum dýnamík. Við viljum sjá hlutina frá ólíku sjónarhorni, fá mismunandi liti og ólíkan hljóm. Kynin eru ólík og því mikilvægt að skapa rými fyrir þau bæði. Þannig verður efnisskráin áhugaverðari,“ segir Arna Kristín.

Þakklát fyrir reynsluna

Eins og fyrr sagði heldur Sinfóníuhljómsveitin til Japans í nóvember, en þar kemur sveitin fram á 12 tónleikum með píanóleikaranum Nobuyuki Tsujii. „Þetta er fyrsta tónleikaferðin sem við förum í eftir hrun sem samanstendur af fleiri en einum tónleikum, en það eru fleiri í bígerð, sem er afar spennandi. Þessi ferð á sér mjög langan aðdraganda. Það er magnað að loks skuli vera komið að þessu,“ segir Arna Kristín og rifjar upp að SÍ hafi þurft að aflýsa fyrirhugaðri tónleikaferð sinni til Japans fyrir áratug, þ.e. í miðju bankahruni haustið 2008, stuttu fyrir brottför.

„Eins erfitt og þetta var á sínum tíma er ég í dag þakklát fyrir reynsluna, því við fundum áþreifanlega hvað tónlistin skiptir miklu máli og þá sérstaklega þegar samfélög verða fyrir áfalli,“ segir Arna Kristín og rifjar upp að í stað þess að SÍ léki allar sinfóníur Sibeliusar undir stjórn Petris Sakari fyrir japanska tónleikagesti spilaði SÍ fyrir Íslendinga sem flykktust á tónleika sveitarinnar fyrst í höfuðborginni og síðan víðs vegar um landið. „Sveitin lék í staðinn fyrir fólk sem þurfti tilfinnanlega á því að halda að geta horfið inn í annan heim og fengið andlega næringu þessa ömurlega daga í október 2008,“ segir Árni Heimir.

Stjórnandi í Japansferðinni er Vladimir Ashkenazy. „Okkur þykir mjög dýrmætt að geta haldið upp á samstarf hljómsveitarinnar við Ashkenazy í gegnum árin og haldið þannig upp á hans mikilvæga framlag til íslensks tónlistarlífs. „Áhrif hans verða seint ofmetin. Hann launaði Íslendingum ríkisborgararéttinn ríkulega og hefur í gegnum árin lagt sitt af mörkum við uppbyggingu íslensks menningarlífs. Til marks um það er Ashkenazy heiðursforseti Listahátíðar í Reykjavík og stjórnandi 9. sinfóníu Beethovens á opnunartónleikum Hörpu í maí 2011. Sú stund gleymist seint,“ segir Arna Kristín.

Eins og að umpotta blómi

Stjórnendur Sinfóníuhljómsveitarinnar leggja mikla áherslu á að hljómsveitin sé þjóðarhljómsveit sem þjóni öllum landsmönnum. „Við upplifum það á hverjum degi að Sinfóníuhljómsveit Íslands nýtur mikils meðbyrs í íslensku þjóðfélagi, ekki síst meðal áskrifenda og tónleikagesta. Það er ótrúlega gaman að starfa í þeim aðstæðum, en við erum líka meðvituð um að það er ekki sjálfgefið fyrir okkur sem menningarstofnun,“ segir Árni Heimir.

„Harpa er mikilvægt sameiningartákn og undirstrikar hversu miklu máli menningin skiptir og hefur skipt þessa þjóð á liðnum öldum. Söngurinn og sögurnar héldu lífinu í þjóðinni í gegnum aldirnar, án þess að ég sé að gera lítið úr fiskinum, kaffinu, kartöflunum og öðru,“ segir Arna Kristín.

Innt eftir því hvaða áhrif það hafi haft fyrir SÍ að flytja úr Háskólabíói í Hörpu fyrir nokkrum árum grípur Arna Kristín til myndlíkingar. „Þetta er svolítið eins og að umpotta blómi. Það hefur ótrúlega mikið að segja þegar jurtin fær meira pláss fyrir ræturnar í nýjum potti því þá fær plantan rými til að blómstra og dafna. Áður fyrr voru ákveðnar takmarkanir í starfsumgjörð hljómsveitarinnar sem hömluðu vexti hennar og listrænni framþróun, en Eldborg ýtir núna undir vöxt hjómsveitarinnar, enda með betri tónleikasölum Evrópu. Það er stórkostlegt fyrir okkur sem íslenska þjóð að eiga þá gersemi sem Sinfónían er,“ segir Arna Kristín.

Mikilvægur liður í starfi SÍ er fræðslustarf, en fjórðungur af starfsemi SÍ fellur undir þá skilgreiningu. „Það er gríðarlega mikilvægt starf, enda snýr það að því að hlúa að áheyrendum framtíðarinnar. Við tökum á móti 15 þúsund nemendum á öllum skólastigum árlega og förum í skólaheimsóknir. Okkur finnst mikilvægt að fræðslustarfið sé ekki aðeins í formi tónleika heldur gagnvirkt og þannig bjóðum við börnum og ungmennum til samstarfs þar sem þau fá tækifæri til að taka þátt í tónlistarflutningi með okkur,“ segir Arna Kristín og nefnir í því samhengi þann fjölda barna sem árlega kemur fram á jólatónleikum SÍ.

„Auk þess erum við í samstarfi við skólahljómsveitir á höfuðborgarsvæðinu og fáum t.d. unga einleikara til að flytja með okkur Leikfangasinfóníuna. Við erum mjög meðvituð um það hvað sinfóníuhljómsveit getur verið mikil vítamínsprauta inn í alls konar starf með ungu fólki í tónlist og reynum að nota það eins vel og við getum. Það er auðvitað verið að vinna frábært starf úti um allt á akrinum, en við getum boðið upp á ýmislegt, ekki síst í stærð og umfangi, sem engin önnur menningarstofnun hérlendis getur,“ segir Árni Heimir.

Menningarverðmætum bjargað

Athygli vekur að óvenjumikið af íslenskum verkum verður flutt á komandi starfsári. „Það kemur til af því að þetta er mikið afmælisár þar sem fjögur tónskáld eiga stórafmæli,“ segir Árni Heimir og nefnir í því samhengi að Atli Heimir Sveinsson verður áttræður, Þorkell Sigurbjörnsson hefði orðið áttræður, Jón Ásgeirsson verður níræður og Jórunn Viðar hefði orðið hundrað.

„Við erum að fagna þeim öllum ásamt því að vera með tónleika á Myrkum músíkdögum þar sem flutt verður m.a. Metacosmos eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáldið okkar, og aðra tónleika næsta vor þar sem m.a. verða frumfluttar tvær nýjar sinfóníur. Í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands sýnum við Síðasta bæinn í dalnum sem Jórunn Viðar samdi tónlistina við, en með því samstarfi erum við að bjarga menningarverðmætum frá glötun,“ segir Árni Heimir og rifjar upp að Jórunn hafi á sínum tíma lagt mikla vinnu í samspil tónlistar og þess sem fyrir augu bæri. „Myndin var svo vinsæl og filman svo mikið spiluð að hún slitnaði margoft og var límd saman, en tónlistin var hljóðrituð aftur og þá fór ýmislegt úrskeiðis við samræminguna. Fyrir vikið var tónlistin ekki lengur í samræmi við myndina. Þórður Magnússon tónskáld hefur skrifað alla tónlistina upp eftir þeim gögnum sem Jórunn lét eftir sig þannig að hún passi við myndina. Þetta verður því í fyrsta sinn síðan á sjötta áratugnum sem rétt tónlist heyrist á réttum stað í myndinni,“ segir Árni Heimir.

Íslensk nútímatónlist vinsæl

Sá mikli fjöldi íslenskra verka sem heyrist á komandi starfsári er afrakstur þeirrar ræktar sem stjórnendur SÍ hafa lagt við íslensk tónskáld. „Við erum ótrúlega stolt af okkar íslensku tónskáldum og hlökkum mikið til að heyra Metacosmos eftir Önnu og fiðlukonsert Daníels Bjarnasonar. Þessi tvö verk hafa fengið gríðarlega góðar viðtökur erlendis,“ segir Arna Kristín.

„Verk þeirra eru meðal þeirra sem tekin verða upp í vetur fyrir þriðja og síðasta geisladiskinn með íslenskri tónlist sem Sinfóníuhljómsveitin vinnur í samvinnu við bandaríska útgáfufyrirtækið Sono Luminus,“ segir Árni Heimir, en fyrsti diskurinn, Recurrence undir stjórn Daníels Bjarnasonar, er kominn út og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2017 sem plata ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlistar.

„Ég er sannfærður um að útgáfa þessara þriggja diska verði mikill aflvaki og ýti enn frekar undir þann alþjóðlega áhuga sem verið hefur á íslenskum tónskáldum,“ segir Árni Heimir og tekur fram að það sé mikil gæfa að upptökurnar séu gerðar með SÍ. „Það er ákveðinn stimpill fyrir okkur að geta með þessum upptökum eignað okkur þessi verk,“ segir Árni Heimir.

„Að einhverju leyti má segja að Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi ræktað þetta hæfileikafólk, enda hafa þau tekið mörg sín fyrstu skref með okkur. Þegar þau vekja síðan þessa miklu alþjóðlegu athygli er mjög fallegt að athyglin nái aftur til okkar með flutningi hljómsveitarinnar á verkum þeirra. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér almennt grein fyrir því hversu langt þessi íslensku tónskáld hafa náð á alþjóðavísu,“ segir Arna Kristín og bendir á að tímanir séu breyttir. „Ég efast um að margir hafi haft trú á því fyrir nokkrum árum að íslensk nútímatónlist væri að fara að slá í gegn,“ segir Arna Kristín. „Þetta hefur gerst mjög hratt og með afgerandi hætti,“ segir Árni Heimir.

Tengja álfurnar tvær

Spurð hvort greina megi einhvern séríslenskan hljóm í verkum íslenskra samtímatónskálda svarar Árni Heimir því neitandi og bendir á að hvert tónskáld hafi sinn sérstaka og skýra stíl. „En með sama hætti og Ísland liggur á mótum tveggja fleka, landfræðilega séð, þá hefur tónlist t.d. Önnu og Daníels þá sérstöðu að tengja álfurnar tvær saman í tónlistarlegu tilliti,“ segir Arna Kristín. „Hljómsveitarverk þeirra eiga það líka sameiginlegt að þau eru mjög opin og næm fyrir stemningum og hinum fíngerðari upplifunum sem sinfóníuhljómsveit getur búið til með fjölbreyttum samsetningum hljóðfæra sinna og lita,“ segir Árni Heimir. 

Lengi gerð viðtalsins má lesa í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson