Mamma Meghan í ömmutímum

Mæðgurnar Doria Ragland og Meghan hertogaynja eru nánar.
Mæðgurnar Doria Ragland og Meghan hertogaynja eru nánar. OLI SCARFF

Móðir Meghan hertogaynju, Doria Ragland, er sögð vera að undirbúa sig undir ömmuhlutverkið með því að læra hvernig eigi að sjá um ungbarn. Tveir sérfræðingar í Los Angeles eru að kenna Ragland allt sem fyrsta flokks barnfóstrur þurfa að kunna. 

Haft er eftir heimildarmanni Daily Star að Meghan vilji forðast að ráða aukastarfsfólk þegar fjölskylda þeirra Harry stækkar. Að fá Ragland til þess að hjálpa er því góð lausn. Meghan og móðir hennar hafa alltaf verið nánar og hafa þegar borist fréttir þess efnis að Ragland ætli sér að flytja til Englands til þess að geta verið nær dóttur sinni og fjölskyldu hennar. 

Kennararnir tveir eru sagðir kenna Ragland heima til þess að koma í veg fyrir óumbeðna athygli. Kennararnir hafa kennt henni ráðgjöf varðandi brjóstagjöf, hvernig eigi að hugsa um ungbarn og skyndihjálp. Í tímunum er einnig farið yfir hvernig eigi að koma reglu á svefninn seinna meir, hvernig eigi að venja barn af brjósti auk þess hvernig eigi að hjálpa hinni nýju móður að ná sér eftir barnsburð. 

Ekki er vitað til þess að Meghan sé nú þegar barnshafandi en einhverjir vilja meina að blái kjóllinn sem Meghan klæddist á fimmtudaginn hafi bent til þess að litla fjölskyldan væri að stækka. 

Meghan í bláa kjólnum á fimmtudaginn.
Meghan í bláa kjólnum á fimmtudaginn. AFP
mbl.is