Loftur hefði ekki þurft að deyja

Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree.
Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir skipa hljómsveitina Sycamore Tree. Ljósmynd/Saga Sig

Ágústa Eva Erlendsdóttir og Gunni Hilmarsson í hljómsveitinni Sycamore Tress hafa sent frá sér lagði The Street. Lagið er tileinkað Lofti Gunnarssyni, mági Gunna, sem lést eftir að hafa búið á götunni í mörg ár. 

„Það á enginn að deyja á kaldri götunni. Aðstæður utangarðsfólks á Íslandi eru að mörgu leiti hörmulegar og brot á réttindum þeirra. Það fæðast allir jafnir og við sem samfélag eigum að aðstoða þá sem eru í neyð,“ segir Ágústa Eva og bætir við: 

„Það er auðvelt að líta framhjá þessum hópi samfélagsins, afskrifa hann og gleyma. Hann lætur aldrei í sér heyra, röltir þögull um bæinn og lætur lítið fyrir sér fara, biður ekki um neitt og á sér ekki málsvara sem öskrar hátt og getur þrýst á kerfið. Hann nýtur ekki virðingar og verður fyrir fordómum og skilningsleysi,“ segir hún. 

Flutningurinn og myndbandið er tekið upp í einni töku.

„Við vildum með þeim hætti ná eins hreinni tilfinningu og hægt er augnablikin sem það var flutt. Það er okkur mikil ánægja að veita Minningarsjóðnum og þessu mikilvæga málefni lið.“

Loftur Gunnarsson hefði átt afmæli í dag, 11. september, en lagið The Street fjallar um síðustu andartök lífs hans. 

Frá Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar:

Síðustu vikur hefur umræðan um stöðu utangarðsfólks verið nokkuð áberandi eftir að umboðsmaður Alþingis skilaði áliti um málið og einnig í kjölfar útgáfu skýrslu velferðarvaktarinnar þar sem góðar tillögur um að bæta aðstöðu utangarðsfólks voru kynntar.

    Að mati okkar, sem stöndum að Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar, er ákveðin staðreynd sem við höfum lengi verið meðvituð um, það mikilvægasta sem kemur fram í úttekt umboðsmanns Alþingis. Það er viðurkenningin á því að ríki og sveitarfélög eru einfaldlega að brjóta á rétti utangarðsfólks með því að sniðganga lögbundna þjónustu sem það hefur rétt á. Það er verið að brjóta almenn lög, stjórnarskrá og einnig er verið að brjóta á fjölþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum.

    Það er krafa okkar að vinna við að leiðrétta þetta hefjist nú þegar. Við vitum að það er ekki hægt að bjarga öllum sem lenda utangarðs. Hinsvegar eru mörg dæmi um einstaklinga sem hafa verið á götunni og nýtt sér úrræði sem í boði eru og komið sér aftur inn í samfélagið, hversdagshetjur sem hafa með dyggri aðstoð breytt lífi sínu. Hinir, sem ekki ná sér upp, eiga þá réttmætu og lagalegu kröfu að þeim séu skapaðar mannsæmandi aðstæður og aðbúnaður til að gera líf þeirra léttbærara.

    Dæmi eru um einstaklinga sem hafa sótt um og fengið samþykkta aðstoð með varanlegt húsnæði en samt beðið meira en áratug og bíða enn. Dæmi eru um dauðsföll á meðan beðið er eftir aðstoð.

    Verst er að sú hætta er raunverulega að fólk deyi á götunni vegna þess að öll rúmin voru upptekin þá nóttina því ekki komast allir að í neyðarnæturvist í gistiskýlum.

    Við erum ekki að biðja um neitt annað en að þessi þjóðfélagshópur fái lögbundna aðstoð. Við trúum því að við lifum í samfélagi þar sem við hugsum um okkar fólk.

    Okkur langar að taka það fram að starfsfólk Gistiskýlisins, Konukots og á fleiri stöðum er að vinna frábært starf við erfiðar aðstæður þar sem allt of litlum fjármunum er varið í þetta málefni.

    Loftur Gunnarsson svaf á götunni þegar ekki var pláss í Gistiskýlinu. Hann lést 32 ára gamall. Hann lést úr magasári sem auðvelt hefði verið að meðhöndla. Á þeim tíma sem hann lést var ekki auðvelt fyrir utangarðsfólk að verða sér úti um fordómalausa læknisaðstoð.

   

Fjöldi utangarðsfólks hefur tvöfaldast á síðustu fimm árum.

 

Minningarsjóðurinn hefur á frá stofnun hans 2012 keypt keypt margskonar hluti eins og fjölda rúma, sjónvörp, húsgögn, fatnað og margt fleira inn í hin ýmsu úrræði sem utangarðsfólk notar og starfar ötullega eftir markmiði sínu að bæta hag utangarðsfólks.

mbl.is