Sorg, eftirsjá og ævintýri

„Nýja platan okkar Nótt eftir nótt er með lögum um …
„Nýja platan okkar Nótt eftir nótt er með lögum um eftirsjá, nornir, skugga og það sem gerist í skjóli næturs." Ljósmynd/Verði Ljós

Annasamt ár er að baki hjá óttabylgjusveitinni Kælunni miklu. Ný plata er að koma út og eitt frægasta lag Kælunnar, „Kalt“, er upphafslag kvikmyndarinnar Lof mér að falla sem hefur fengið mikið lof gagnrýnanda. Eitt lag á nýju plötunni er samið ásamt Barða Jóhannssyni í Bang Gang, og svo bauð Robert Smith, forsprakki The Cure, þeim að spila á risastónleikum sem hann skipulagði í London í sumar. 

Nýja platan, Nótt eftir nótt, var tilkynnt fyrr í vikunni og kemur út  9. nóvember hjá erlenda útgáfufyrirtækinu Artoffact Records. 

Spjölluðu við Robert Smith í eftirpartíi

„Árið hófst  á tónleikaferðalagi um Evrópu með frábærri hljómsveit frá Californiu, Drab Majesty.“ segir Sólveig Matthildur Kristjáns­dótt­ir ein af þrem­ur meðlim­um Kæl­unn­ar miklu en ásamt henni skipa sveitina þær Lauf­ey Soffía Þórs­dótt­ir og Mar­grét Rósa Dóru og Harrys­dótt­ir. „Svo í vor spiluðum við á tónleikum í Svíþjóð, á tónlistarhátíðunum Roadburn í Hollandi og BOL í Moscow. Í sumar var okkur boðið að spila á Meltdown Festival í London. Hátíðin er haldin árlega og á hverju ári er fengin ný manneskja til að vera listrænn stjórnandi hátíðarinnar og velja hljómsveitirnar.  Í fyrra var það MIA en í ár var það Robert Smith úr hljómsveitinni The Cure.“

The Cure er goðsagnakennd ensk rokkhljómsveit sem byrjaði að gefa út tónlist seint á áttunda áratugnum og er bæði kenndi við nýbylgjusenuna og svo gotnesku pönksenu níunda áratugarins og má segja að hinn úfinhærði og klessuvaralitaði Robert Smith sé guðfaðir goth- og óttabylgjunnar. En telja þær að Kælan mikla tilheyri goth-senunni að ákveðnu leyti? 

Ætluðu ekki að tilheyra goth-senunni

„Já, algjörlega. Við ætluðum samt aldrei að tilheyra goth-senunni, Það er í raun eins og áhorfendur velji hvernig tónlist maður spilar.“  Sveitin samþykkti auðvitað tilboð frá Robert Smith og spilaði á undan Placebo í South Bank Centre í London. „ Nokkrum vikum seinna var okkur svo boðið að spila í Hyde Park á 40 ára afmæli The Cure. Við spiluðum ásamt Goldfrapp, Slowdive og fleiri hljómsveitum sem við lítum upp til.  Það var frábært!“  Spurð að því hvernig það hafi verið að hitta Robert Smith segir Sólveig þær hafa hitt hann í eftirpartíi eftir tónleikana. „Það var geggjað. Spjölluðum aðeins við hann og þökkuðum fyrir okkur. Það var ótrúlega verðlaunandi að taka þátt í þessu og hitta hann.“
Er þessi plata að fara aðeins nýja stefnu frá þeirri fyrri?

„Við erum alltaf að þroskast og þannig þroskast tónlistin okkar líka,“ svarar Sólveig.  „Við höfum aldrei ákveðið að fylgja einhverri stefnu, eða hvernig tónlistin okkar á að vera, við spilum bara tónlsitina sem við viljum spila en þessi plata er auðvitað ekki sama plata og hinar plöturnar okkar. Við höfum nýlega verið að læra að nota tölvur í tónlist og þannig höfum við náð að bæta við fleiri hljóðgervlum og leikið okkur meira að hljóðum og unnið betur í uppbyggingu tónlistarinnar.“ 

Ljósmynd/Verði Ljós

Tóku upp lag með Barða í Bang Gang

Þess má geta að Sólveig Matthildur hefur einnig fengið mikið lof fyrir sólóferil sinn en plata hennar Unexplained Miseries And The Acceptance Of Sorrow fékk Kraumsverðlaunin á síðasta ári. Laufey Soffía er svo líka meðlimur í sveitinni dularfullu Madonna & Child. 

 Athygli vekur að eitt lag á nýju plötu Kælunnar miklu er samið ásamt Barða Jóhannessyni tónlistarmanni. Hvernig kom það samstarf til? „Við höfðum eitthvað verið í sambandi og við ákváðum að hittast og gera tónlist saman! Við hittum svo Barða í stúdíóinu hans og spiluðum saman, prófuðum hljóðgervlana hans, spiluðum bassalínur, gerðum texta og Barði tók upp, spilaði á gítari og setti lagið saman. Lagið heitir Nótt eftir nótt og við erum mjög ánægðar með það.“

Skapa heim úr tónlistinni sem hlustendur geta stigið inn í um stund

Ljósmyndin á kápunni  á Nótt er eftir Hafstein Viðar Ársælsson sem kallar sig Verði ljós. En hver er sagan á bak við hana? „Við höfum allar verið mikið andvaka á næturnar og fundið fyrir heimþrá. Síðustu ár, sérstaklega síðustu mánuði þar sem við höfum mikið verið að ferðast og búið erlendis. Svo nýja platan okkar Nótt eftir nótt er með lögum um eftirsjá, nornir, skugga og það sem gerist í skjóli nætur. Martraðir og drauma og staðinn á milli svefns og vöku í bland við sorg, eftirsjá og ævintýri. Það má segja að við höfum unnið við að búa til heim úr tónlistinni okkar sem hlustendur geta stigið inn í um stund."

Útgáfutónleikar vegna plötunnar verða í desember eða janúar á Íslandi þegar vínylplata lítur dagsins ljós. „Svo er margt á döfinni. hinn 20. september förum við á sautján daga tónleikaferðalag um Evrópu með tónlistarmanninum King Dude og seinna í haust erum við með nokkur gigg bókuð hér og þar. Í febrúar munum við svo fara á útgáfu-tónleikaferðalag um Evrópu í rúman mánuð. Á næsta ári erum við líka með fleiri bókaða tónleika hér og þar og komnar inn á tónlistahátíðir um sumarið og haustið en það verður tilkynnt síðar.“

Unnt er að forpanta plötuna Nótt eftir nótt hér: 

www.kaelanmikla.bandcamp.com

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt í innri baráttu og veist varla í hvorn fótinn þú átt að stíga. Haltu fast við áform þín og láttu skoðanir annarra ekki hafa áhrif á þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt í innri baráttu og veist varla í hvorn fótinn þú átt að stíga. Haltu fast við áform þín og láttu skoðanir annarra ekki hafa áhrif á þig.