Vitranir opinberaðar

Úr kvikmyndinni Styx.
Úr kvikmyndinni Styx.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst 27. september og hefur nú verið opinberað hvaða kvikmyndir verða sýndar í keppnisflokkinum Vitranir.

Í Vitrunum tefla nýir leikstjórar fram fyrstu eða annarri kvikmynd sinni og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann.

Kvikmyndir þessar „ögra viðteknum hefðum í kvikmyndagerð og leiða kvikmyndalistina á nýjar og spennandi slóðir“, segir á vef RIFF og í flokknum eru sýndar fyrsta eða önnur kvikmynd leikstjóra.

Myndirnar eru eftirfarandi:

Con el viento

Mónica er 47 ára dansari sem býr í Buenos Aires í Argentínu. Hún fær símtal frá Spáni um að faðir hennar liggi banaleguna. Mónica snýr aftur á æskuslóðir eftir 20 ára fjarveru, til þorpsins Burgos á Spáni en pabbi hennar er þegar látinn þegar hún kemur og móðir hennar búin að ákveða að selja æskuheimilið. Hún biður Mónicu um að vera með sér um hríð og hjálpa til og Mónica finnur frið í því sem hún kann best, þ.e. að dansa.

Þetta er fyrsta kvikmynd spænska leikstjórans Meritxell Colell Aparicio.

Un couteau dans le coeur

Frönsk kvikmynd eftir Yann Gonzalez sem keppti um aðalverðlaunin á Cannes í vor. Hún gerist við sérstakar aðstæður þar sem við tökur á klámmynd fyrir samkynhneigða eiga sér stað morð á fólki úr tökuliði myndarinnar.

„Mögnuð lesbísk ástarsaga á sér stað í þessum neðanjarðarheimi homma þar sem á litríkan hátt er lýst blossandi kynþrá á milli þess sem raðmorðinginn finnur sér fórnarlamb,“ segir um myndina í tilkynningu.

Pearl

Kvikmynd eftir franska leikstjórann Elsu Amiel sem segir af konu sem keppir í líkamsrækt. Kvikmyndin er sögð veita innsýn í heim sem flestum er hulinn, heim fæðubótarefna, stera og lyfja.

„Falleg myndatakan heillaði áhorfendur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum og þótt aðalpersónan sé gagnkynhneigð fer samband hennar við kvenþjálfarann sinn yfir strikið. Báðar eru þær orðnar fangar líkama sinna og mörkin milli karl- og kvenkyns ekki ljós,“ segir í tilkynningu.

Phoenix

Kvikmynd eftir norska leikstjórann Camillu Henriksen. Í henni segir af unglingsstúlku, Jill, sem þarf að hugsa um yngri bróður sinn og andlega veika móður. Þegar faðir hennar mætir óvænt í afmælið hennar opnast fyrir henni möguleiki á öðruvísi lífi.

Mafak

Kvikmynd eftir palestínska leikstjórann Bassam Jarbawi. Í myndinni segir af Ziad sem afplánað hefur 15 ára fangelsisdóm og er að reyna að fóta sig utan fangelsismúranna sem gengur heldur brösulega. „Þetta er merkileg mynd í hringiðu átaka Palestínu- og Ísraelsmanna,“ segir í tilkynningu.

Styx

Kvikmynd eftir austurríska leikstjórann Wolfgang Fischer sem fjallar um konu sem siglir skútu sinni um Atlantshafið og lendir í stormi. Þegar lygnir rekur hana að fiskibáti fullum af flóttamönnum og hefst hún handa við að leysa vanda sinn og þeirra.

Summer Survivors

Kvikmynd eftir litháíska leikstjórann Marija Kavtaradzeog sem fjallar um ungan sálfræðing sem myndar ófagleg og náin tengsl við tvo sjúklinga. Myndinni er lýst sem bráðfyndinni og skemmtilegri vegamynd þar sem hún segir af ferðalagi sálfræðings og sjúklinga á heilsuhæli.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »