Vilhjálmur prins mismælti sig

Vilhjálmur kynnti sér japanska matarmenningu ásamt breskum grunnskólanemum.
Vilhjálmur kynnti sér japanska matarmenningu ásamt breskum grunnskólanemum. AFP

Vilhjálmur Bretaprins ruglaði saman kínverskum og japönskum mat á viðburði sem hann sótti í gær. Verið var að opna japanskt menningarsetur í nágrenni Buckingham-hallar og þangað var Vilhjálmur kominn til að spjalla við breska grunnskólanema sem mættir voru til opnunarinnar. Nemarnir voru m.a. að æfa sig í því að nota matarprjóna í stað hnífapara eins og sést á myndskeiði sem Itv-sjónvarpsstöðin hefur birt.

„Hafið þið borðað mikið af kínverskum mat?“ spurði Vilhjálmur börnin. Þögn fylgdi í kjölfarið. „Afsakið, japönskum mat. Hafið þið borðað mikið af japönskum mat?“

Meðal þeirra sem fylgdust með var varaforsætisráðherra Japans, Taro Aso.

Þykir Vilhjálmur með þessum ruglingi sínum minna landa sína á afa sinn, Filippus prins, sem var þekktur fyrir mismæli. Vilhjálmur er hins vegar ekki þekktur fyrir slíkt. Hann heillaði þó alla upp úr skónum með heimsókn sinni í menningarmiðstöðina og sagðist elska sushi.

mbl.is