Kjarnakona verður til

Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverkum sínum …
Sigurður Þór Óskarsson og Salka Sól Eyfeld í hlutverkum sínum sem Birkir og Ronja í uppfærslu Þjóðleikhússins á Ronju ræningjadóttur. Ljósmynd/Olga Helgadóttir

„Í Ronju ræningjadóttur er öllu vopnabúri stóra sviðsins tjaldað til, sem sýnir virðingu hússins fyrir yngstu skjólstæðingum sínum. Mögulega hefði Þjóðleikhúsið mátt fylgja fordæmi söguhetjunnar og sýna meira hugrekki í efnistökum og nálgun en það er þó enginn efi að þar í salnum mun fjöldi barna skemmta sér, taka andköf af spennu og ískra af hlátri næstu mánuðina,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í lokaorðum leikdóms síns um Ronju ræningjadóttur í uppfærslu Þjóðleikhússins. 

„Þessi meginþráður sögunnar um Ronju, togstreita dóttur og föður og þróun sambandsins við Birki Borkason, er einstakur í höfundarverki Lindgren, í það minnsta í fantasíudeildinni. Hann er líka kannski það eina í þessum bókum sem er beinlínis á heimavelli leikhússins. Skoðun á samskiptum fólks. Þar skína líka túlkendur helstu hlutverka í uppfærslu Þjóðleikhússins að þessu sinni. Útgeislun og óstýrlátur kraftur Sölku Sólar Eyfeld þýðir að hún er eins og sköpuð í titilhlutverkið og samleikur þeirra Sigurðar Þórs Óskarssonar í hlutverki Birkis er fallega útfærður, hjarta sýningarinnar sem slær af krafti fyrir allra augum. Það gustar líka af Erni Árnasyni í hlutverki Matthíasar, en kemur nokkuð á óvart hvað hann sýnir okkur lítið af kjánanum og karlabarninu, sem gerir Matthías svo hlægilegan og ég hefði fyrirfram haldið að yrði grunntónn túlkunar þessa tiltekna leikara. Eins er lágstemmd hófstilling áhrifamikill grunntónn í fallegri túlkun Eddu Björgvinsdóttur á Skalla-Pésu (en af hverju ekki Skalla-Petra?). Vigdís Hrefna Pálsdóttir er síðan glæsileg sem Lovísa, hin mynduga rödd skynsemi og heilbrigðrar hlýju í óstýrlátum og hávaðasömum karlaheimi Matthíasarborgar. Því þetta er óneitanlega karlaheimur, þótt fáeinir ræningjar hafi undirgengist dramatúrgíska kynskiptaaðgerð, eins og tíðarandinn kallar sem betur fer á.

Leikhúsið blómstrar þegar það stillir persónulegum átökum og sálrænum þroskaferlum upp fyrir framan okkur. Það er hins vegar svo margt annað sem þarf að gera skil í þessari sögu sem leikhús á í brösum með: Landslag og veður. Yfirnáttúrulegar verur. Og svo auðvitað hinar ógurlegu náttúruhamfarir sem verkið hefst á. Bíótæknin getur þetta, en hvorki hún né leiksviðið hafa samt roð við ímyndunarafli lesandans. Hér er öllu tjaldað til af tækni stóra sviðsins: hringsviðið snýst, ljósaróbótarnir sömuleiðis, flugkerfið þeytir skógarnornum um loftin blá og hljóðkerfið í (fullmiklum) botni. Og já, Matthíasarborg klofnar með bauki og bramli í upphafi sýningarinnar. Fáir leikstjórar standa Selmu Björnsdóttur á sporði við að halda stuðboltanum á lofti og sýningin er keyrð áfram af miklum krafti og gleði, rækilega undirstrikað með stomp- og fimleikainnblásnum dönsum Birnu Björnsdóttur og Auðar B. Snorradóttur. Samt læddist að þessum áhorfanda sá grunur að með þessari viðteknu nálgun barnastórsýninga væri leikhúsið að heyja tapað stríð á vígvelli keppinautarins. Leikhús verður aldrei bíó. Ætli leiklausnir sem virkja ímyndunarafl áhorfandans myndu kannski virka betur en tilraunir til að koma í staðinn fyrir það? Gæti leikgerð sem setti samskipti aðalpersónanna framar í forgangsröðina, gæfi tilfinningum og drama meira pláss, náð sterkari tökum á okkur?“ segir meðal annars í leikdómi um Ronju ræningjadóttur sem birtist í Morgunblaðinu í gær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson