Leggur áherslu á valdamiklar stelpur

Álfheiður Marta Kjartansdóttir leikstýrði myndbandinu við lagið Eina sem ég …
Álfheiður Marta Kjartansdóttir leikstýrði myndbandinu við lagið Eina sem ég vil. Ljósmynd/Aðsend

Nýlega kom út myndband við lagið Eina sem ég vil með ClubDub og Aroni Can. Álfheiður Marta Kjartansdóttir leikstýrði myndbandinu og ákvað að láta aðalhetjuna stunda mótorkross og kendo, íþróttir sem hún vissi ekkert um. 

Bergþór, umboðsmaður ClubDub, hafði samband við Álfheiði og bað hana um að leikstýra myndbandinu en Álfheiður segir að þau séu ágætisvinir auk þess sem hann hefði séð myndbandið við lagið Hlaupa hratt sem Álfheiður gerði fyrir Rari Boys.

„Hugmyndin að myndbandinu kom úr textanum, en hann er frekar „straight forward“. Mig langaði ekki að gera myndband með sætum stelpum að dansa í kringum syngjandi stráka, svo úr varð þessi hugmynd um að sú eina sem þeir vilja væri ein tiltekin stelpa sem vefur þeim öllum um fingur sér.

Það er svo ótrúlega skemmtilegt að gera tónlistarmyndbönd af því maður getur gert bókstaflega hvað sem er. Ég ákvað að láta hetjuna okkar vera hálfgert „femme fatale“ sem stundar mótorkross og kendo, bæði sport sem ég veit alls ekki neitt um, svo við þurftum að kalla til fagmenn í hvoru tveggja. Það kemur svo í ljós að það er nánast bara einn maður sem stundar kendo á Íslandi og það er Sölvi Tryggvason, fjölmiðla- og kvikmyndagerðarmaður. Hann kenndi okkur allt um íþróttina og endaði á því að vera stunt-maður fyrir Liv, leikkonuna okkar í senunni.“

Lagið er unnið og flutt af karlmönnum en Álfheiður segir erfitt að segja til um hvort kyn sitt hafi haft áhrif á vinnuna. „Ég er mjög hrifin af því að sýna valdamiklar stelpur í því sem ég geri og það skilar sér líklegast í útkomunni. En hvað vinnuna varðar þá fann ég aldrei fyrir því að það breytti neinu, ég upplifði algjört traust frá strákunum og ferlið var auðvelt og skemmtilegt.“

Segja má að Álfheiður hafi farið bakdyraleiðina að leikstjórnarstarfinu en hún fékk nýlega starf sem leikstjóri hjá Sagafilm án þess að hafa lokið námi í kvikmyndaleikstjórn. „Sagafilm hefur bara verið minn skóli. Ég byrjaði sem starfsnemi í framleiðslu þar fyrir tæpur þremur árum og tók mér í kjölfarið hlé frá BA-náminu mínu. Ég tek einn og einn áfanga í kvikmynda- og viðskiptafræði en ég hef lært langmest af samstarfsmönnum mínum og því að vera á setti. Ég byrjaði að leikstýra utan vinnutíma fyrir tæpu ári, en þá náði ég að lauma mér inn sem leikstjóri í myndbandi fyrir Reykjavíkurdætur sem ég átti upphaflega að framleiða.“ 

„Erlendir auglýsinga- og myndbandaleikstjórar á borð við Petru F. Collins og Nadiu Lee Cohen eru mér innblástur,“ segir Álfheiður þegar hún er spurð um kvenkynsfyrirmyndir í kvikmyndagerð enda karlmenn fyrirferðarmeiri í bransanum. „En almennt lít ég upp til allra þeirra kvenna sem vinna í kvikmyndagerð á Íslandi. Þetta eru seigar og sterkar konur sem hafa oft þurft að berjast fyrir sínu plássi.“

Framtíðin er enn óráðin hjá Álfheiði sem er bara í núinu. „Ég nýt mín í botn í tónlistarmyndböndum og auglýsingum eins og stendur, en við sjáum bara hvert lífið leiðir mig.“



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant