Við munum öll deyja

„Griðastaður er spennandi uppfærsla frá ungum höfundi með ferska rödd og leikstjóra sem gaman verður að fylgjast með í framhaldinu,“ segir Silja Björk Huldudóttir í leikdómi um Griðastað eftir Matthías Tryggva Haraldsson í leikstjórn höfundar og gefur uppfærslunni fjórar stjörnur. Leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Silja bendir í dómi sínum á að óvenjumörg leikrit þetta leikárið taki útgangspunkt í endalokunum þar sem lífið er ýmist skoðað út frá dauðanum eða dauðinn út frá lífinu. „Með breyttri samfélagsgerð hefur dauðinn að stórum hluta horfið úr hinu daglega lífi og einangrast að mestu við heilbrigðis- og umönnunarstofnanir. Um leið og dauðinn verður fjarlægur og lítið ræddur er ákveðin hætta á því að hann verði fyrir vikið ógnvænlegri. En frá því við fæðumst eigum við aðeins eitt sameiginlegt og það er vissan um að við munum öll deyja. Þess vegna er svo nauðsynlegt að geta rætt það sem bíður okkar allra.

Dauðleikinn er áberandi í einleiknum Griðastaðureftir Matthías Tryggva Haraldsson sem tekinn var til sýningar í Tjarnarbíói um liðna helgi. Verkið, í leikstjórn höfundar, var útskriftarverkefni Matthíasar Tryggva frá sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands í vor sem leið, en fór þá framhjá rýni. Stjórnendur Tjarnarbíós eiga því þakkir skildar fyrir að veita Griðastaðframhaldslíf á fjölum sínum enda á verkið fullt erindi við almenning.

Leikurinn fjallar um Lárus sem finnur sér griðastað í húsakynnum sænska húsgagnarisans IKEA þegar móðir hans deyr eftir langvinn veikindi. Í hans huga er IKEA griðastaður, því þar er dauðleikinn eins uppstilltur og uppstillt baðherbergi. Umgjörð sýningarinnar vísar með skemmtilegum hætti í fagurfræði IKEA. Hvítum Billy-hillum er raðað skáhallt eftir sviðinu, sem gefa góða tilfinningu fyrir gríðarlegum vegalengdum innan verslunarinnar, og gráum Nockeby-sófa er haganlega komið fyrir á sviðinu. Í sófanum leynist aðeins einn gulur koddi sem í samspili við bláan fatnað Lárusar kallast á við sænsku fánalitina og einkennisliti IKEA. Speglar og tímaglös eru áberandi í leikmyndinni sem minna okkur ekki aðeins á dauðleikann heldur einnig á þá birtingarmynd sem við kjósum að draga upp af okkur sjálfum gagnvart öðrum og þá brotakenndu sjálfsmynd sem aðalpersónan glímir við.

Því það er ekki aðeins dauðleikinn sem svífur yfir vötnum í einleik Mattthíasar Tryggva heldur nær hann með meistaralegum og hárbeittum hætti að fanga tilvistarkrísu Vesturlandabúans sem knúin er áfram af endalausu samviskubiti yfir eigin vistspori. Samviskubit sem kallar á neyslu „fairtrade“ eða sanngirnisvottaðs súkkulaðis, notkun svansmerktra vara, rafmagnsbíl, minni kjötneyslu og flokkun rusls. Á sama tíma erum við drifin áfram af neysluhyggju sem meðal annars birtist í fjöldaframleiddum vörum sem við viljum helst kaupa með sem mestum afslætti. Eina leiðin til að losna undan samviskubitinu er að kaupa ekkert og minnka þar með sóunina. Innst inni vitum við sennilega flest að dótið sem við keppumst við að eignast veitir okkur ekki lífsfyllingu í reynd. Í uppfærslunni er tómleiki Lárusar hins vegar undirstrikaður með tómum hillum. Á sama tíma vekur verkið áhorfendur til umhugsunar um hvað við ætlum að skilja eftir okkur hér á jörðinni þegar við kveðjum.

Þrátt fyrir þungan undirtón matreiðir Matthías Tryggvi innihaldið með vænum skammti af húmor þannig að sýningin sveiflast milli hins harmræma og kómíska. Textinn er marglaga og býður upp á draumkenndar senur þar sem tilfinningum aðalpersónunnar er miðlað með táknrænum hætti.

Leikstjórinn hefði ekki getað valið sér betri leikara í hlutverk Lárusar en Jörund Ragnarsson sem nær að fanga blæbrigði persónunnar. Lítið hefur sést til Jörundar á íslensku leiksviði síðan hann lauk framhaldsnámi vestanhafs fyrir tveimur árum sem er synd því hann hefur einstaklega góða sviðsnærveru þar sem allt sem hann gerir og segir verður satt. Þegar áhorfendur gengu í salinn var Jörundur, í hlutverki Lárusar, að yfirfara sviðsmyndina tautandi ávarp með sjálfum sér sem hann hugðist flytja viðstöddum. Smám saman varð tautið skýrara og hann rann inn í frásögnina með fullkomlega eðlilegum hætti. Textameðferð Jörundar og kómísk tímasetning sem og tempó- og styrkleikabreytingar voru svo vel útfærðar að unun var að fylgjast með. Það væri óskandi að leikhúsgestir fengju að sjá meira til Jörundar á næstunni,“ segir meðal annars í leikdómum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.  

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson