Brúðkaupsgestir streyma að

Brúðkaupsgestirnir eru farnir að streyma að.
Brúðkaupsgestirnir eru farnir að streyma að. AFP

Brúðkaupsgestir eru teknir að streyma að Windsor-kastala vegna brúðkaups prinsessunnar Eugenie og Jack Brooksbank.

Búist er við um 850 gestum, þar á meðal söngvaranum Robbie Williams og eiginkonu hans Ayda Field, söngkonunni Ellie Goulding og fyrirsætunni Cara Delevingne.

Þar að auki munu um 1.200 gestir úr röðum almennings sem voru valdir í atkvæðagreiðslu fylgjast með beinni útsendingu frá athöfninni á kastalasvæðinu. Þúsundir til viðbótar munu fylgjast með fyrir utan kastalann. Margir mættu á svæðið á þriðjudaginn til að tryggja sér gott pláss, að sögn BBC.

Lögreglumenn vakta svæðið í kringum Windsor-kastala.
Lögreglumenn vakta svæðið í kringum Windsor-kastala. AFP

Brúðkaupið verður sýnt í beinni útsendingu á bresku sjónvarpsstöðinni ITV og hófst útsendingin klukkan 9.25 að staðartíma, eða klukkan 8.25 að íslenskum tíma. Hún verður hluti af þriggja tíma útsendingu þáttarins This Morning í tilefni af brúðkaupinu.

Lögreglumaður stendur vörð fyrir utan kapellu heilags Georgs.
Lögreglumaður stendur vörð fyrir utan kapellu heilags Georgs. AFP

Beckham og Clooney mæta

Eguenie prinsessa, sem er ömmubarn Elísabetar Englandsdrottningar, er dóttir hertogans af York og Söru Ferguson.

Eugenie og Brooksbank munu ganga upp að altarinu í kapellu heilags Georgs þar sem Harry Bretaprins og Meghan Markle giftu sig í maí og hefst athöfnin klukkan 10 að íslenskum tíma.

Eugenie og Jack Brooksbank í janúar síðastliðnum.
Eugenie og Jack Brooksbank í janúar síðastliðnum. AFP

Á meðal fleiri gesta sem eru væntanlegir í brúðkaupið eru fyrirsætan Cindy Crawford, David og Victoria Beckham, söngvarinn James Blunt og þau George og Amal Clooney.
mbl.is