Harry prins fékk skeggnudd og knús

Meghan fékk knús, alveg eins og prinsinn.
Meghan fékk knús, alveg eins og prinsinn. AFP

Allar öryggisreglur fuku út um gluggann þegar fimm ára drengur knúsaði Harry Bretaprins og bætti um betur þegar hann ákvað að nudda á honum skeggið.

Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan Markle, hófu 16 daga opinbera heimsókn sína um Eyjaálfu í gær. Heimsókn hjónanna hefur vakið mikla athygli, ekki síst fyrir þær sakir að hjónin tilkynntu í fyrradag að þau eigi von á sínu fyrsta barni í vor.

Harry og Meghan heimsóttu skóla í Nýja Suður-Wales, einu af fylkjum Ástralíu, og fengu þau hlýjar móttökur frá nemendum og starfsfólki skólans. Hjónin heilsuðu nemendum með handabandi en hinn fimm ára gamli Luke Wilson stal óneitanlega senunni þegar hann stóðst ekki mátið og knúsaði prinsinn og gaf honum smá skeggnudd í þokkabót.

Kennari Luke útskýrði að jólasveinninn væri í uppáhaldi hjá Luke og þess vegna hefði skeggið líklega vakið áhuga hans. Luke færði Meghan blóm og að sjálfsögðu fékk hún líka faðmlag. Myndskeið af knúsinu og skeggnuddinu má sjá hér:


Frétt BBC

Hertogahjónin af Sussex eru að njóta lífsins í Ástralíu.
Hertogahjónin af Sussex eru að njóta lífsins í Ástralíu. AFP
mbl.is