Berfætt og frjálsleg hertogahjón

Hertogahjónin af Sussex, Harry prins og Meghan Markle, halda áfram að heilla áströlsku þjóðina í opinberri heimsókn sinni um landið. Dagskráin í dag var á léttum nótum og nutu hjónin lífsins á Bondi-ströndinni, rétt fyrir utan Sydney.

Berfætt og frjálsleg til fara röltu hjónin um ströndina og heilsuðu upp á brimbrettakappa, fulltrúa samtakanna OneWave, sem vinna með fólki að því að bæta andlega heilsu og líðan með því að stunda alls kyns útiveru.

Sumarleg og sælleg hertogahjón á ströndinni í Sydney.
Sumarleg og sælleg hertogahjón á ströndinni í Sydney. AFP

Fjöldi fólks hefur fylgt hertogahjónunum eftir alla vikuna og á því var engin breyting í dag. „Fólk sem hitti drottninguna þegar hún kom hingað [árið 1954] talar um það enn þann dag í dag,“ segir Christopher Cundle, 26 ára, í samtali við AFP-fréttastofuna. Hann er nú í sömu sporum. „Þetta er eitt af því sem ég mun segja mínum barnabörnum frá einn daginn. Þetta var æðislegt.“

Um helmingur áströlsku þjóðarinnar er hins vegar á móti því að landið heyri undir breska konungsveldið og hefur meirihluti þjóðarinnar haldið áfram með sitt daglega líf þótt hertogahjónin séu í opinberri heimsókn. Þau eiga samt sem áður dyggan aðdáendahóp og ef til vill er spennan enn meiri þar sem von er á erfingja í vor.

„Mér finnst það algjörlega frábært að hún hafi náð að hitta Harry og orðið ástfangin af honum,“ segir hin 11 ára Mya um Meghan.

Hertogahjónin eiga eftir að dvelja í Eyjaálfu í um tíu daga í viðbót og er stefnan sett á Fraser-eyju á mánudag og þaðan halda hjónin til Fiji, Tonga og Nýja-Sjálands.  

Hvar eru Harry og Meghan?
Hvar eru Harry og Meghan? AFP
mbl.is