Fyndnasta sýningin

„Það er ljóst að framtíðin er björt í íslensku leikhúsi ...
„Það er ljóst að framtíðin er björt í íslensku leikhúsi og gaman verður að sjá hvað leikhópurinn tekur sér næst fyrir hendur. Eitt er víst, að undirrituð ætlar ekki að missa af fleiri ungmennasýningum í Gaflaraleikhúsinu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sínum um Fyrsta skiptið sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Einu sinni verður allt fyrst. Það átti svo sannarlega við um leiksýninguna Fyrsta skiptið því þótt skömm sé frá því að segja var þetta fyrsta ungmennaleiksýningin sem rýnir sér hjá Gaflaraleikhúsinu,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í leikdómi sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Rýnir rifjar upp að listrænir stjórnendur Gaflaraleikhússins hafa á síðustu árum sinnt menningu ungmenna af miklum metnaði og fengið ungt fólk til að skrifa og leika í nýjum verkum. Nefnir hún í því samhengi Stefán rís eftir Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson sem Björk Jakobsdóttir leikstýrði 2016 og Unglinginn eftir sömu höfunda í leikstjórn Bjarkar, en sýningin var tilnefnd til Grímunnar 2014 sem barnasýning ársins auk þess sem höfundarnir voru tilnefndir í flokknum Sproti ársins.

„Í Fyrsta skiptinu hafa Arnór og Óli fengið Berglindi Öldu Ástþórsdóttur, Ingu Steinunni Henningsdóttur og Mikael Emil Kaaber til liðs við sig til að skoða hin mörgu fyrstu skipti unglingsáranna, hvort heldur það er fyrsta skotið, stefnumótið, sleikurinn, sambandið, samfarirnar eða sambandsslitin. Inn í þetta fléttast umræða um blæðingar, óraunhæfar útlitskröfur, skömm, of þrönga forhúð, sektarkennd yfir klámnotkun, píkuprump, typpastærð, minnimáttarkennd, greddu og sjálfsfróun. Höfundarnir byggja verkið að stórum hluta á eigin reynslu og sýna aðdáunarvert þor og einlægni í umfjöllun sinni um málefni sem mörgum finnst vandræðalegt og jafnvel óhugsandi að ræða.

Höfundahópurinn er gagnrýninn þegar kemur að kynfræðslu grunnskólans sem takmarkast við það eitt að fá já og nota smokkinn, sem er að þeirra mati jafn fáránlegt og ef stærðfræðikennari kenndi aðeins frádrátt og ætlaðist síðan til þess að nemendur lærðu sjálfir um allt hitt á netinu eða hjá vinum sínum. Goðsögnin um að fyrsta skiptið sé ávallt vont og því best að ljúka því af sem fyrst er sem betur fer vefengd. Ánægjulegt er að sjá að sýningin einskorðast ekki aðeins við reynsluheim gagnkynhneigðra. Iðulega er unnið gegn dæmigerðum steríótýpum kynjanna, en útfærsla hópsins á blæðingum einkenndist því miður af gamaldags mýtum um tilfinningalegan óstöðugleika kvenna. Hér hefði farið betur á því að ræða hormónasveiflur beggja kynja á kynþroskaskeiðinu, þessu vandasama skeiði þar sem einstaklingurinn er hvorki barn né fullorðinn og samt hvort tveggja í senn og því erfitt að fóta sig í tilverunni. Í ljósi þess að rætt er um nauðsyn þess að eiga góð tjáskipti áður en fólk fer að stunda kynlíf hefði einnig mátt minnast á kynferðisofbeldi í ljósi þess að fjórðungur unglinga hefur orðið fyrir slíku ofbeldi fyrir 18 ára aldur.

Handritsstjórn og leikstjórn er í höndum Bjarkar Jakobsdóttur, sem tekst að laða fram það besta í þessum hæfileikakrökkum, sem ekki aðeins skrifa heldur leika öll hlutverk sýningarinnar. Augljóst er að áralöng uppistandsreynsla leikstjórans nýtist leikhópnum vel þar sem húmorinn er nýttur til hins ýtrasta, en óhætt er að segja að Fyrsta skiptið er fyndnasta sýningin á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir. Hún hentar ekki aðeins unglingum dagsins í dag heldur talar til allra sem gengið hafa í gegnum kynþroskaskeiðið. Verkið samanstendur af mörgum stuttum senum, þar sem ein hugmynd leiðir yfirleitt af annarri og flæðið því gott. Sýningin er oft á tíðum fróðleg án þess nokkurn tímann að verða predikandi eða bera keim af fræðsluleikriti. Arnór, Berglind, Inga, Mikael og Óli stökkva leikandi létt á milli þess að vera þau sjálf og leika hin ýmsu hlutverk sem þjóna framvindunni. Öryggi þeirra á sviði birtist ekki síst í því að þegar tæknin klikkaði örlítið á frumsýningunni eða einhver mismælti sig spunnu þau sig léttilega framhjá hvers kyns vandræðagangi. Ólíkt ungmennunum sem til umfjöllunar voru í verkinu virtist ekkert geta sett flytjendurna úr jafnvægi, þar sem mistök voru greinilega engin ógn – sem er alltaf ótrúlega mikill léttir,“ segir meðal annars í leikdómnum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, laugardag. 

Silja hrósar allri umgjörð sýningarinnar og frammistöðu leikhópsins og lýkur dómi sínum á orðunum: „Það er ljóst að framtíðin er björt í íslensku leikhúsi og gaman verður að sjá hvað leikhópurinn tekur sér næst fyrir hendur. Eitt er víst, að undirrituð ætlar ekki að missa af fleiri ungmennasýningum í Gaflaraleikhúsinu.“