„Skáldsögur mínar dulbúin ljóð“

Danski rithöfundurinn Josefine Klougart stofnaði 2013 bókaforlagið Gladiator. Markmið útgáfunnar …
Danski rithöfundurinn Josefine Klougart stofnaði 2013 bókaforlagið Gladiator. Markmið útgáfunnar var, að sögn Klougart, að skapa starfsaðstæður þar sem betri tími gæfist til samræðna um bækurnar og ítarlegri ritstjórnarvinnu. mbl.is/Hari

„Íslandsferðin var dásamleg þar sem mér og kærasta mínum gafst tækifæri til að skoða okkur um í Þórsmörk og Landmannalaugum. Ég verð þó að viðurkenna að göngurnar voru dálítið erfiðar með kúluna út í loftið,“ segir danski rithöfundurinn Josefine Klougart, en hún var komin sjö mánuði á leið þegar hún heimsótti Íslands fyrr í haust til að kynna bók sína Hæðir og lægðir sem kom út í íslenskri þýðingu Katrínar Bjarkar Kristinsdóttur. 

Bókin kom upphaflega út í Danmörku 2010 og var frumraun höfundar sem útskrifaðist úr Rithöfundaskólanum í Kaupmannahöfn stuttu fyrir útgáfu. Áður hafði Klougart lesið lista- og bókmenntasögu í Háskólanum í Árhúsum. Frumraun hennar var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, sem og þriðja skáldsaga hennar sem nefnist Én af os sover og út kom 2012. Þar með varð Klougart yngsti höfundurinn sem tilnefndur hefur verið til verðlaunanna í tvígang, en hún er fædd 1985. Auk fyrrgreindra bóka hefur Klougart sent frá sér skáldsögurnar Hallerne(2011), Om mørke (2013) og New Forest (2016) og ljóðabækurnar Den vind man manglede (2010) og Regn(2016).

Lestur eykur samkennd

„Ég hef aðeins einu sinni heimsótt Ísland áður, en alltaf átt íslenska hesta. Með þeim hætti má segja að Ísland hafi lengi leikið stórt hlutverk í tilveru minni. Ég hef lengi heillast af Íslandi, ekki síst náttúrunni sökum þess hversu stórbrotin hún er. Í Danmörku er náttúran svo blíð og fábrotin að auðvelt er að gleyma henni. Það er ógerningur að gleyma náttúrunni á Íslandi. Hún minnir sífellt á sig og hversu háð við erum náttúrunni,“ segir Klougart og bendir á að í hennar augum séu bókmenntir jafnt og aðrar listir leið til opna hugann og komast í tæri við aðrar tilfinningar en þær sem einkenna hversdaginn.

„Mín reynsla er sú að þegar lesendur öðlast aukið tilfinningalegt næmi eykst samkennd þeirra samtímis, ekki aðeins gagnvart öðrum manneskjum í öðrum löndum og á öðrum tímaskeiðum, heldur einnig gagnvart náttúrunni. Þegar ég skrifa er mér mjög hugleikið hvernig beita megi náttúrulegum formum í textanum. Sem dæmi er Hæðir og lægðir byggð upp af löngum setningum sem fullar eru af sprotum og minna þannig á greinar sem skjóta nýjum öngum. Í öllum bóka minna er hægt að finna lífræn form innblásin af náttúrunni sem lúta ekki endilega hefðbundnum skáldsagnalögmálum,“ segir Klougart í samtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag. 

Skynræn upplifun lesturs

Spurð hvort háskólanám hennar og nám við Rithöfundaskólann hafi mótað hana sem höfund svarar Klougart því játandi. „Kennsluaðferðir kennara þessara tveggja skóla eru mjög ólíkar. Í háskólanum naut ég þess að lesa mikinn fjölda góðra bókmennta, en samtímis var ég gagnrýnin á kennslu- og prófaaðferðir. Mér fannst skorta skilning á því að fagurbókmenntir eru listform sem opna fyrir skynjun lesenda sem talar ekki aðeins til rökræna hluta vitundarinnar heldur jafnsterkt til tilfinninga og skynrænnar upplifunar. Mér finnast ákveðin svik felast í því að taka ekki tillit til þessa flókna samspils og einblína þess í stað aðeins á hið rökræna og vitsmunalega,“ segir Klougart og bendir á að menntunin í Rithöfundaskólanum sé mun praktískari.

„Þar lásum við verk hvert annars í handriti og ræddum upplifanir okkar. Mér fannst það miklu skynsamlegri og gjöfulli nálgun á textana, þar sem við vorum ekki að ræða verkin einvörðungu á einhverju abstrakt og fræðilegu plani líkt og mér fannst brenna við í háskólanum. Við þurftum samt ávallt að færa rök fyrir túlkun okkar á verkunum og vera þar mjög konkret, sem mér finnst kostur.“

Opna augun fyrir fegurðinni

Eftir því sem ég hef kynnt mér þá notar þú eigið líf og upplifanir talsvert í bókum þínum. Hvað veldur?

„Skáldsögur mínar eru ekki sjálfævisögulegar, en þeir sem þekkja mig eða hafa lesið sér til um bakgrunn minn munu samstundis sjá hvernig ég nýti umhverfi mitt frá ólíkum æviskeiðum markvisst í verkum mínum. Ástæðan fyrir því er að mér finnst lykilatriði að nota konkreta hluti í textum mínum. Mér finnst ég þurfa að þekkja landslagið af eigin raun til að geta látið það lifna við í bókum mínum,“ segir Klougart og tekur fram að þær aðrar bækur sem hún les og samræður um bókmenntir hafi áhrif á hana sem höfund og það hvernig hún hugsar um texta.

Veistu hvað það er sem lesendur sækja í verk þín?

„Ég held að þeir lesendur sem njóta þess að lesa bækur mínar séu að leita að leið til að opna meðvitundina og auka tilfinninganæmið í stað þess að vera upptekin af því að skilja texta mína á greinandi skynsemisnótum einvörðungu. Ég hvet lesendur til að opna augu sín fyrir fegurðinni sem felst bæði í tungumálinu sjálfu og þeim lýsingum sem skapa má með orðunum. Auk þess held ég að margir lesenda minna heillist af ljóðrænunni í textum mínum. Ég veit að margir forðast það að lesa ljóð af ótta við að skilja ekki formið og kjósa fremur að lesa skáldsögur. Í reynd mætti segja að skáldsögur mínar séu dulbúin ljóð,“ segir Klougart kímin.

„Stundum hafa lesendur á orði við mig að þeim finnist bækur mínar svo tyrfnar. Svo koma þessir sömu lesendur nokkrum mánuðum seinna og segja mér að þeir hafi komist að því að textanir voru alls ekkert erfiðir heldur voru þeir að leita að einhverju sem ekki er fyrir hendi í bókum mínum. Lesendur glæpasagna venjast því að reyna að leita svara við því hvert sé plottið, hverjar séu aðalpersónur, hvað gerist og hvers vegna. Ef lesendur eru uppteknir af því að geta svarað þessum spurningum í bókum mínum þá mun þeim yfirsjást það sem er kjarni verksins – sem er allt það sem gerist þegar ekkert virðist vera að gerast. Þá er ég að tala um allt það sem gerist í tungumálinu, samtölum og lýsingum á náttúrunni og manneskjum. Bækur mínar verða erfiðar í lestri ef lesendur eru aðeins uppteknir af framvindu og plotti.“

Skapandi umhverfi

Þú nefndir áðan að textar gætu tengt lesendur við náttúruna og annað fólk. Lítur þú á sjálfa þig sem pólitískan höfund?

„Já, ekki spurning. Ég er sannfærð um að mörg þeirra vandamála sem við glímum við í samtímanum er snúa t.d. að loftlagsvandanum eru afleiðing af því að manneskjan hefur glatað tengslum sínum við náttúruna. Mörg okkar hafa gleymt því að við erum ekki aðeins háð náttúrunni heldur beinlínis hluti af henni. Geta okkar til að hugsa abstrakt getur auðveldlega leitt til þess að við teljum okkur hafa rétt til að beisla náttúruna og nýta að vild, en slík notkun er ekki án fórnarkostnaðar. Það krefst næmis af manneskjuni að finna leið til þess að lifa í sátt við náttúruna án þess að eyðileggja hana.“

Að hverju ertu að vinna í augnablikinu?

„Ég er með bók í vinnslu, sem ég hafði gert mér vonir um að ná að klára áður en sonur minn kemur í heiminn. Ég efast hins vegar stórlega um að ég nái því þó ég keppist við að skrifa,“ segir Klougart og tekur fram að hún vonist til þess að sonur hennar eigi auðvelt með að sofa þegar hann komi í heiminn svo hún fái stund inn á milli til að skrifa. „Ég er alltaf smeyk við að segja of mikið um innihald þeirra bóka sem ég er að vinna að af ótta við að orka viðfangsefnisins hverfi. Ég vil því lítið annað segja en að þetta er skáldsaga.“

Fyrstu þjár bækur þínar komu út á vegum útgáfunnar Rosinante sem er hluti af Gyldendal, en frá 2013 hafa bækur þínar komið út hjá forlaginu Forlaget Gladiator sem þú varst einn meðstofnenda að ári áður. Af hverju valdir þú að stofna þína eigin bókaútgáfu?

„Aðalástæða þess að við stofnuðum bókaútgáfu var að okkur langaði til að skapa starfsaðstæður þar sem betri tími gæfist til samræðna um bækurnar og ítarlegri ritstjórnarvinnu,“ segir Klougart og vísar þar til meðstofnendanna Hans Otto Jørgensen og Jakob Sandvad.

„Samtímis var það hugsjón okkar að félagið væri ekki aðeins forlag heldur líka samfélag þar sem almenningur gæti tekið þátt í samræðum um bókmenntir. Þannig snýr hluti rekstursins að hefðbundinni bókaútgáfu en annar stór hluti felst í svoköllum Gladiator-skóla þar sem við erum með höfundasmiðju og ritlistarkennslu fyrir nemendur á öllum aldri,“ segir Klougart og bendir á að nemendur vinni með allt frá söngtextum til hljóðvarps á námskeiðum. „Með þessum hætti hefur okkur tekist að skapa lifandi forlag þar sem allir höfundar okkar hafa möguleika á að ræða bókmenntir í skapandi umhverfi, leita innblásturs í samræðunum og þróa sig sem listamenn,“ segir Klougart sem sjálf sinnir bæði ritstjórnarstörfum og kennslu á vegum Gladiator.

Markmiðið ekki að skila arði

Rænir það ekki miklum tíma frá þínum eigin skrifum?

„Jú, vissulega. Á stundum eyði ég miklum tíma í kennslu og ritstjórnarstörf og þá næ ég ekki að skrifa mikið sjálf. En mér finnst ég fá mjög mikið út úr því starfi og samræðunum við aðra höfunda sem gagnast mér þegar ég tek mér tíma til að sinna eigin ritstörfum. Það er mjög einmanalegt starf að vinna sem rithöfundur, en mér finnst nauðsynlegt að eiga samneyti við annað fólk og þá er þetta góð leið. Ég trúi því að samfélag okkar hafi þörf fyrir bókmenntir og vil gera mitt til að gera bókmenntir að virkari þætti í lífi almennings. Ég er sannfærð um að ef okkur tækist að fá fólk til að opna sig með samsvarandi hætti og það opnar sig við lestur bóka þá væri hægt að finna mun betri lausnir við ýmsum þeim vandamálum sem herja á okkur. Með þeim hætti má segja að Gladiator sé pólitískt aktíf útgáfa,“ segir Klougart og bendir á að Gladiator hleypi senn af stokkunum kennsluverkefni sem ætlað er grunn- og framhaldsskólum til að örva lestur. „Í kennslugáttinni okkar verða verkefni og hugmyndir sem hjálpa nemendum og kennurum að ræða bækur með nýjum og skapandi hætti sem ekki hefur þekkst í skólum áður.“

Þú nefndir áðan mikilvægi aukinnar ritstjórnarvinnu. Slíkt kostar auðvitað pening. Hvernig fjármagnið þið rekstrarmódel ykkar?

„Skólarnir greiða fyrir kennsluna sem við veitum, sem við getum nýtt í ritstjórnarvinnuna. Jafnframt býðst fyrirtækjum sem hafa trú á nýjum norrænum bókmenntum að styrkja útgáfuna okkur,“ segir Klougart og bendir á að hver titill kosti um 50.000 danskar krónur (sem samsvarar tæpri milljón íslenska króna) í útgáfu. „Á síðasta ári gaf Gladiator út 32 titla. Í flestum tilvikum var um ný dönsk skáldverk að ræða, en einnig höfum við frá 2013 gefið út 36 bækur í ritröð sem helguð er endurútgáfu eldri verka sem einhverra hluta hafa fallið í gleymskunnar dá en eiga skilið að vera lesin og verða hluti af dönsku bókmenntakanónunni,“ segir Klougart og bendir á að konur séu áberandi í þeim höfundahópi. „Í ár byrjuðum við síðan að gefa einnig út þýdd verk.“

Að sögn Klougart hefur ritlistarkennsla Gladiator skilað útgáfunni miklum fjölda góðra handrita. „Sem dæmi má nefna að árlega eru Munch-Christensen-verðlaunin veitt í Danmörku til handa besta nýliðanum. Tilnefningar eru ávallt sex og í ár voru þrír höfundar á mála hjá Gladiator tilnefndir, þau Shosha Raymond, Johanne Kirstine Fall og Joakim Vilandt. Við erum afar stolt af því að sinna nýjum og ungum höfundum á sama tíma og mörg önnur forlög landsins skera niður í útgáfu nýrra höfunda sökum þess hversu erfitt getur reynst að markaðssetja og selja bækur þeirra. Að okkar mati er hins vegar bráðnauðsynlegt að rækta nýja höfunda, en það krefst auðvitað mikils að ritstýra frumraun höfundar,“ segir Klougart og undirstrikar að lokum að Gladiator sé ekki rekið með það að markmiði að skila eigendum arði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson