Íslendingur eldar besta matinn í London

Agnar (t.h.) og samstarfsfélagi hans, Raymond Blanc, hér á landi ...
Agnar (t.h.) og samstarfsfélagi hans, Raymond Blanc, hér á landi árið 2014. Mbl.is/Ómar

Besti maturinn í London fæst á veitingastaðnum Texture sem íslenski kokkurinn Agnar Sverrisson rekur og er yfirkokkur á, ef marka má Hardens-veitingahúsavísinn fyrir árið 2019. Hardens-veitingahúsavísirinn er gefinn út árlega og er afar virtur í Bretlandi.

„Þetta er einn elsti og virtasti veitingahúsavísir í Bretlandi. Hardens gefur á hverju ári út lista yfir bestu veitingastaðina. Þá eru tilteknir þeir staðir sem eru með besta þjónustu, besta mat o.s.frv. Við vorum svo heppin að vera valinn sá staður sem er með besta matinn í London í 2019 útgáfunni, sem er að vísu ekki komin út.“ 

Finnur strax fyrir áhrifunum

„Það sem er skemmtilegt við þetta að það eru ekki einhverjir þrír eða fjórir sem ákveða þetta heldur eru það, að ég held, einhver 9.000 manns sem skrifa í vísinn. Svo þetta eru kúnnarnir. Það er auðvitað enn betra. Þá veit maður að maður er að gera eitthvað rétt,“ segir Agnar.

Agnar segir alltaf vera „mjög gott að gera á staðnum,“ en segist þó strax vera farinn að finna fyrir áhrifunum af vali Hardens-útgáfunnar, en fréttayfirlýsing þar sem tilkynnt var um valið var gefin út fyrir nokkrum dögum. Þá má búast við því að áhrifin verði ennþá meiri þegar vísirinn verður gefinn út og staðnum veitt verðlaun formlega.

Segir ekki hægt að fá meiri viðurkenningu

Texture er fínn veitingastaður (e.fine dining) með afslappað andrúmsloft að Agnars sögn. „Það er ekkert sem heitir borðdúkar þarna.“.

Staðurinn státar af einni Michelin-stjörnu, en stjarna í veitingahúsavísi Michelin þykir einn mesti heiður sem hægt er að hljóta í veitingahúsabransanum.

Agnar segir þó „ekki vera hægt að fá meiri viðurkenningu“ en viðurkenningu kúnnanna, en eins og áður segir eru það þúsundir kúnna sem sjá um skrif og umsagnir í Hardens-vísinn.

View this post on Instagram

Texture is the highest-scoring restaurant for food in Harden's 2019 survey @texturerestaurant #aggisverisson @rochecom #news #survey @hardensbites #london #restaurants

A post shared by Hardens Restaurant Guides (@hardensbites) on Nov 7, 2018 at 3:02am PST
mbl.is