Allir stjórnmálamenn kona í stríði

Benedikt með LUX-verðlaunin á höfði sér.
Benedikt með LUX-verðlaunin á höfði sér. AFP

Benedikt Erlingsson, leikstjóri og annar tveggja handritshöfunda kvikmyndarinnar Kona fer í stríð sem hlaut í gær LUX-verðlaunin, kvikmyndaverðlaun Evrópuþingsins, var heldur lúinn þegar blaðamaður náði loksins í hann eftir ansi margar tilraunir. Engin furða því Benedikt var búinn að veita ein 20 viðtöl eða þar um bil í Strassborg í Frakklandi, þar sem hann var staddur og nýbúinn að taka við verðlaununum með tilheyrandi þakkar- og hvatningarræðu. Og 30 viðtöl daginn áður að auki, svo það komi nú líka fram.

Þingmenn Evrópuþingsins kjósa um LUX-verðlaunin og höfðu þeir úr þremur myndum að velja en hinar tvær voru kvikmyndin Styx og heimildarmyndin The Other Side of Everything eða Druga strana svega eins og hún heitir á frummálinu, serbnesku. Verðlaununum fylgir styrkur til dreifingaraðila kvikmyndarinnar og einnig styrkur til að texta myndina á fjölda tungumála.

Kona fer í stríð segir af miðaldra kórstjóra, Höllu, sem leikin er af Halldóru Geirharðsdóttur. Hún brennur af áhuga fyrir umhverfismálum og hefur sem aðgerðasinni sagt áliðnaðinum á Íslandi stríð á hendur og fremur ítrekað skemmdarverk. Þegar henni býðst að ættleiða barn ákveður hún að láta af þeim aðgerðum en hlutirnir þróast með öðrum hætti en hún á von á.

Benedikt stoltur með verðlaunagripinn í Strassborg.
Benedikt stoltur með verðlaunagripinn í Strassborg. AFP

„Voðalega ánægð“

LUX-verðlaunin eru sérstök fyrir það að stjórnmálamenn greiða atkvæði, þingmenn kjósa þá mynd sem þeim þykir best og segir Benedikt að honum hafi í raun verið boðið upp að altari löggjafarvalds Evrópu. Þingmenn hafi verið neyddir til að horfa á kvikmyndina og síðan kosið hana sem þá bestu.

– Það hlýtur að vera jákvætt fyrir þig að stjórnmálamenn hafi smekk fyrir myndinni, ekki satt?

„Jú, jú, við erum voðalega ánægð. Ég held að allir stjórnmálamenn upplifi sig sem svona „woman at war“, allir stjórnmálamenn eru einhvers konar kona í stríði.“

– Þegar þú hlaust Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs sagðistu vera orðinn Norðurlandameistari í kvikmyndagerð. Ertu þá orðinn Evrópumeistari núna?

„Ég er reyndar ekki tilnefndur beinlínis til Evrópuverðlaunanna sem eru annar hlutur en þar er Halldóra tilnefnd sem besta leikkona þannig að hún gæti orðið besta leikkona Evrópu,“ svarar Benedikt og á þar við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin sem verða afhent 15. desember í Sevilla á Spáni.

Benedikt segir að margar af þeim kvikmyndum sem hlotið hafa LUX-verðlaunin hafi verið tilnefndar til Óskarsverðlauna og jafnvel hlotið verðlaunin. „Þannig að þetta er svona stallur sem tekið er eftir og getur hjálpað okkur í þeim slag.“

– Ertu þá að fara að dusta rykið af plássinu á hillunni þar sem Óskarsstyttan mun standa?

„Hvaða pláss ertu að tala um?“ svarar Benedikt og hlær. Verðlaunastytturnar orðnar það margar að ekkert pláss er eftir á hillunni.

Það sem framtíðin mun snúast um

– Þú settir verðlaunagripinn að vanda á höfuðið á þér?

„Já, já, „

– Auka verðlaunin þér bjartsýni á framtíðina, að eitthvað verði gert í umhverfismálum?

„Já, algjörlega. Evrópuþingið og Evrópuþjóðir hafa virkilega fylkt sér um þessa baráttu enda ekki annað hægt, þetta er bara heimsendir í nánd og við verðum að bregðast við. Ríkisvaldið verður að gera það og við þurfum að vekja meiri meðvitund um þetta. Íslensk stjórnvöld eru komin að borðinu og hafa mjög metnaðarfulla áætlun en þetta er bara byrjunin. Það er hlutverk okkar, okkar blaðamanna og okkar sögumanna, að hjálpa okkur að hugsa um þetta og setja fókus á þessi mál. Þetta er það sem framtíðin mun snúast um, beint og óbeint,“ svarar Benedikt.

Hann segist vongóður. „Þetta er eins og með ástina og kærleikann. Kærleikurinn er ósigrandi, þolinmóður, þrautseigur og fókuserar alltaf á hið jákvæða. Og þar verðum við að vera í þessari baráttu.“

– Heldurðu að næsta kvikmynd þín verði um svipuð málefni?

„Nei, ég held ekki. Ég veit það ekki en hún verður öðruvísi. Hún verður fyrir neðan belti.“

Stikla úr Kona fer í stríð:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson