Michelle gefur Meghan góð ráð

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna.
Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna. AFP

Miklar breytingar eru fram undan í lífi Meghan Markle, hertogaynjunnar af Sussex og eiginkonu Harry Bretaprins, og hefur Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, veitt henni gagnleg ráð til að takast á við áreitið sem fylgir því að vera opinber persóna.

„Ég gat ómögulega séð fyrir að líf mitt yrði svona og það sama á líklega við um Meghan,“ segir Michelle í viðtali við janúarútgáfu breska tímaritsins Good Housekeeping.

„Pressan sem þú finnur fyrir, frá sjálfri þér og öðrum, getur stundum borið mann ofurliði. Mitt helsta ráð er að gefa sér tíma fyrir sjálfa sig og ekki gera eitthvað í fljótfærni,“ segir Michelle.

Þá lýsir hún fyrstu mánuðum eftir að hún flutti í Hvíta húsið eftir að eiginmaður hennar tók við embætti forseta Bandaríkjanna í ársbyrjun 2009. Hún hafi fyrst og fremst hugsað um dætur sínar og séð til þess að þeim farnaðist vel í nýjum aðstæðum, áður en hún fór að einbeita sér að sínum hugðarefnum.

Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex.
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex. AFP

Haryy og Meghan eiga von á sínu fyrsta barni í vor og ef Meghan tekur ráðleggingum fyrrverandi forsetafrúarinnar mun hún einbeita sér að móðurhlutverkinu fyrst um sinn.

Michelle ráðleggur Meghan einnig að finna sér farveg sem veitir henni hamingju í erindagjörðum sínum fyrir bresku konungsfjölskylduna. Meghan virðist ætla að fara þann veg en hún hefur oft greint frá áhuga sínum á matargerð og nýverið kom hún að útgáfu matreiðslubókar sem gerð er í samstarfi við konur sem lifðu af eldsvoðann í Grenfell-turni 2017.

Obama-hjónin eru alls ekki ókunnug bresku konungsfjölskyldunni og ljóst er að Michelle er spennt að hitta nýja erfingjann. Það er hins vegar spurning hvort hann, eða hún, nái að stela senunni líkt og Georg prins gerði þegar hann tók á móti forsetahjónunum á sloppnum um árið. 

View this post on Instagram

Barack and I are thrilled to congratulate The Duke and Duchess of Cambridge on their newest arrival! We hope to meet him soon for a Kensington Palace pajama party. I’ll wear my robe!

A post shared by Michelle Obama (@michelleobama) on Apr 23, 2018 at 2:19pm PDT

mbl.is

Bloggað um fréttina