Ævintýri í fegurð og kyrrð næturinnar

Kyrrð. Anna Margrét Björnsson og Laufey Jónsdóttir vildu skapa ævintýri …
Kyrrð. Anna Margrét Björnsson og Laufey Jónsdóttir vildu skapa ævintýri sem tali til barna. Ljósmynd/Saga Sig

Í bókinni Milli svefns og Vöku, eftir þær Önnu Margréti Björnsson og Laufeyju Jónsdóttur, segir frá Vöku, hugrakkri og glaðværri stúlku sem líður ekki vel þegar rökkvar, enda breytist allt þegar myrkrið tekur völdin. Eitt kvöld ber undarlegan gest að garði og dularfullir hlutir eiga sér stað.

Anna segir að þær Laufey hafi lengi rætt það að gaman væri að gera saman barnabók. „Hugmyndin að bókinni kviknaði þó ekki fyrr en ég var að segja henni frá því þegar yngri dóttir mín, Ása Georgía, sem var þá fjögurra ára, var að gera saklaus skammarstrik á heimilinu og sakaði svo einhvern ósýnilegan leynigest um að hafa gert þau. Þetta var svo sætt og skondið að okkur fannst þetta kjörið til að nota í sögu, og sú stutta hjálpaði Laufeyju með útlitið á þessum leynigesti, sagði henni nokkurn veginn hvernig hún sæi hann.“

Laufey: „Út frá lýsingum Ásu hófst karaktersköpunin. Ég held að ég hafi líklega teiknað um það bil hundrað mismunandi leynigesti, en þessi sigraði hjörtu okkar allra og stóðst ströngustu kröfur Ásu. Hann fékk að stíga inn í ljósið á meðan stórfjölskylda hans húkir enn uppi í myrkum skáp.

Vekur upp nostalgískar tilfinningar

Mig langaði að skapa myndheim sem væri örlítið óhuggulegur en dregur mann inn og vekur forvitni. Teikningarnar vísa, líkt og sagan, til þeirra barnabóka sem við ólumst upp með og því fannst mér tilvalið að vinna með gamla góða blekið sem vekur vonandi nostalgískar tilfinningar hjá fleirum en okkur Önnu. Kolsvart blekið hentar líka sögunni afar vel, það dregur fallega fram andstæðurnar dag og nótt og virkar vel í leik með mörkin milli drauma og veruleika.“

– Hvernig unnuð þið bókina, þ.e. hvort kom á undan, texti eða mynd?

Anna: „Í stað þess að ég skrifaði bara heilan texta og henti honum í Laufeyju til að teikna unnum við efnið mjög mikið saman. Ég skrifaði niður hugmyndir og Laufey teiknaði og stundum breyttust teikningarnar eða sagan. Á endanum var sagan tilbúin á undan teikningunum en það er nú ekki furða þar sem hver einasta teikning Laufeyjar er mjög nákvæmt listaverk sem tekur margar langar stundir að fullkomna.“

Laufey: „Það var mjög skemmtilegt ferli að geta kastað hugmyndunum svona fram og til baka. Það var oft sem upp komu áhugaverðar hugmyndir í skissuferlinu sjálfu og manni detta í hug ýmsar nýjar tengingar og vísanir þegar sagan lifnar við á blaðinu.“

Ævintýri. Vaka vingast við leynigestinn og þau lenda í ýmsum …
Ævintýri. Vaka vingast við leynigestinn og þau lenda í ýmsum ævintýrum að næturlagi. Teikning/Laufey Jónsdóttir

Lítið um sögur sem gera myrkrið fallegt 

Í kynningu á bókinni er hún sögð næturævintýri fyrir börn um að sigrast á myrkfælni, en Anna segir að aðalmarkmiðið með bókinni hafi verið að skapa fallega myndskreytt ævintýri sem tali til barna. „Hvað varðar myrkfælni þá fór ég að hugsa um hana við gerð þessarar sögu. Fyrr á tíð voru börn hrædd með alls konar sögum um grýlur og drauga og hulduverur í myrkrinu, en í dag held ég að mjög mörg börn séu myrkfælin þrátt fyrir að vera ekki hrædd með neinu slíku. Ég var sjálf mjög myrkfælin sem barn. Fullorðið fólk segir gjarnan við börnin: „Hvaða vitleysa“ eða „Það er ekkert til að vera hræddur við“. Nær lagi væri að skoða aðeins hvað við erum hrædd við. Í fyrsta lagi getur myrkur sannarlega verið ógnvænlegt, vegna þess einfaldlega að við sjáum ekki vel og augu og heili raða upp hlutum á annan hátt en í dagsbirtu. Í öðru lagi eru mörkin milli draums og vöku eða ímyndunarafls og raunveruleika dálitið loðin. Okkur langaði svolítið til að fanga þetta dularfulla sem kemur fyrir mannshugann, já eða barnshugann, milli svefns og vöku og titillinn er dreginn af því.Ég hef velt fyrir mér því sem Freud kallaði Das Unheimliche eða ókennileikinn, það sem vekur kvíða eða óhugnað vegna þess óþekkta. Þessi ókennileiki er viðfangsefni í fjölmörgum sögum fyrir börn allt frá Lewis Carroll til H.C Andersen og hefur svo verið notaður margoft í kvikmyndum og listsköpun samtímans, til dæmis notar leikstjórinn David Lynch þetta mikið.  Að horfast svo í augu við ótta sinn getur gert manni kleift að sigrast á honum."

Laufey: „Ég var myrkfælið barn og svaf lengi með ljósin kveikt því skuggalegt ímyndunarafl mitt tók völdin í myrkrinu. Það fyrsta sem loksins hjálpaði mér var þegar móðir mín byrjaði að skálda nýjar sögur inn í myrkrið, hún sagði mér frá góðum verum sem bjuggu í hverju horni herbergisins, lýsti þeim nákvæmlega í útliti og hvernig þær vernduðu mig. Þá fyrst tókst mér að sigra myrkrið. Það eru nægar sögur til sem lýsa því hversu hræðilegt myrkrið er en fáar skemmtilegar sögur sem gera myrkrið fallegt. Sagan okkar fjallar um hugrakka stúlku sem ræður eigin örlögum og treystir á gáfur sínar og útsjónarsemi til þess að leysa úr vandamálum. Ég lagði mikla áherslu á að fanga í teikningunum fegurð og kyrrð næturinnar, þar sem ævintýri gerast.“

– Þú nefnir leynigest dóttur þinnar Anna, kemur hann enn í heimsókn?

Anna: „Hann kemur einstaka sinnum í heimsókn en ég held að hún viti nú samt alveg að hann er ekki til í alvörunni, hvað sem það svo sem þýðir. Hún er enn sannfærð um tilvist jólasveina og útilokar alls ekki að tröll og álfar séu til. Um daginn sagði hún mér að leynigesturinn ætti fjölskyldu sem vildi endilega koma í heimsókn og hún var alsæl með það!“

Laufey: „Ég ætti kannski að dusta rykið af stórfjölskyldinni hans sem húkir uppi í skáp hjá mér!“

Milli svefns og vöku er bók um stelpu sem finnst …
Milli svefns og vöku er bók um stelpu sem finnst erfitt að fara að sofa þegar það er myrkur úti. Hugmyndina að verunni í bókinni á yngri dóttir Önnu, Ása Georgía, sem er núna sjö ára. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson