Búin að vera hjá sálfræðingi í mörg ár

Jennifer Aniston.
Jennifer Aniston. AFP

Jennifer Aniston hlær að þeim fréttum sem segja hana hafa farið til sálfræðings eftir sambandsslit hennar og Justin Theroux í febrúar. Í nýju viðtali segir leikkonan að hún hafi byrjað að fara til sálfræðings fyrir löngu. 

„Ég hef verið hjá sálfræðingi í mörg ár,“ sagði Aniston í viðtali við Extra um sögusagnir um líðan hennar eftir skilnaðinn. Aniston og Theroux tilkynntu um skilnað sinn í febrúar eftir tveggja ára hjónaband og sjö ára samband. 

Aniston virðist hafa það fínt þrátt fyrir skilnaðinn, ferillinn blómstrar og hún ekki sögð hafa of miklar áhyggjur af ástarlífinu. People greinir frá því að hún hafi klárað tökur með Adam Sandler í lok sumars og heimildarmaður sagt leikkonuna hafa átt gott sumar. „Hún hefur ekki áhyggjur af stefnumótalífinu. Hún er ánægð með að einbeita sér að vinnunni.“

Jennifer Aniston og Justin Theroux.
Jennifer Aniston og Justin Theroux. AFP
mbl.is