Verður ekki kynnir á Óskarsverðlaunahátíðinni

Kevin Hart.
Kevin Hart. AFP

Bandaríski grínistinn og leikarinn Kevin Hart hefur ákveðið að stíga til hliðar sem kynnir á Óskarsverðlaununum á næsta ári í kjölfar gríðarlegrar gagnrýni á skrif hans á Twitter.

Hart segist ekki vilja draga athyglina frá verðlaunahátíðinni og biðst afsökunar hafi hann sært einhvern.

Greint var frá því nú á þriðjudag að Hart yrði kynnir hátíðarinnar sem fer fram þann 24. febrúar á næsta ári. En í kjölfarið voru dregin fram í dagsljósið nokkurra ára gömul skrif hans á Twitter sem lýsa andúð á samkynhneigðum. Í einni Twitter-færslu frá árinu 2011 skrifaði hann: „Ef sonur minn kæmi heim og reyndi að leika sér með dúkkuhús dóttur minnar þá myndi ég brjóta það á höfðinu á honum og segja: Hættu, þetta er hommalegt.“

Í frétt Washington Post um málið segir að Hart hafi skrifað töluverðan fjölda færslna á Twitter í þessum anda og að einhverjum þeirra hafi verið eytt nú í vikunni. 

Þegar málið komst upp gaf Óskarsakademían Hart tvo kosti, að hans eigin sögn. Annaðhvort að biðjast afsökunar á ummælum sínum eða að hætta sem kynnir. „Ég valdi að sleppa því, að sleppa afsökunarbeiðninni,“segir hann um afstöðu sína til málsins í myndabandi á Instagram. Hann segir að tístin sem um ræðir séu frá árinu 2009 og 2010. 

Hart segir ástæðuna fyrir því að hann hafi ekki viljað biðjast afsökunar þá að hann hafi áður svarað fyrir skrifin. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þau hafi verið rifjuð upp. „Ég hef talað um þetta. Ég hef sagt hvað sé rangt og rétt. Ég hef sagt hver ég er núna og hver ég var þá. Ég hef gert það. Ég ætla ekki að halda áfram að rifja þetta upp þegar ég hef sjálfur haldið áfram með líf mitt og er á allt öðrum stað núna en ég var áður.“

Yngstu tístin sem rifjuð hafa verið upp sem þykja sýna andúð hans á samkynhneigðum eru frá árinu 2011.

Í frétt Washington Post segir að í viðtali við Rolling Stone árið 2015 hafi Hart verið spurður um brandara úr uppistandssýningum sínum sem voru hatursfullir í garð samkynhneigðra. Í viðtalinu, sem margir hafa nú vísað í Hart til varnar, er hann hins vegar ekki spurður um skrif sín á Twitter. „Við fæðum nettröllin og verðlaununum þau,“ segir hann í myndbandinu á Instagram. „Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að vera ég sjálfur. Ég ætla að standa á mínu.“

Hann lýkur færslum sínum á því að skrifa: „Ég veit hver ég er og það gera líka þeir sem standa mér næst.“

View this post on Instagram

I know who I am & so do the people closest to me. #LiveLoveLaugh

A post shared by Kevin Hart (@kevinhart4real) on Dec 6, 2018 at 7:31pm PST

Áður en Hart tilkynnti að hann ætlaði ekki að biðjast afsökunar, frekar myndi hann hætta við að vera kynnir hátíðarinnar, hafði hann reynt að verja sig, m.a. með þeim orðum að fólk ætti að hætta að leita að einhverju neikvæðu. „Ég er næstum því fertugur og ég er ástfanginn af þeim manni sem ég er að verða,“ sagði hann. Hann hefði breyst og þroskast frá því fyrir átta árum. „Ef þú vilt halda fólki á stað þar sem það þarf stöðugt að réttlæta sig og útskýra fortíð sína þá er ég ekki rétti maðurinn í það.“

Hart sagði í viðtalinu árið 2015 að hann væri hættur að segja brandara um samkynhneigða í uppistandi sínu. Ástæðan væri m.a. sú að fólk væri viðkvæmara nú en áður fyrir slíku. Ef Twitter-síða hans er skoðuð sést að hann hætti að skrifa slíka brandara þar árið 2011, um það leyti sem fyrsta kvikmynd hans sló í gegn. 

mbl.is