Hafa ekki talað saman í mörg ár

Patrick Dempsay og Ellen Pompeo hafa ekki verið í sambandi ...
Patrick Dempsay og Ellen Pompeo hafa ekki verið í sambandi síðan Dempsay hætti að leika í Grey's Anatomy. Samsett mynd

Leikkonan Ellen Pompeo greindi frá því í Facebook-þætti Jada Pinkett Smith að hún og fyrrverandi mótleikari hennar úr læknadramanu Grey's Anatomy, Patrick Dempsay, hefðu ekki talað saman í nokkur ár. Pompeo og Dempsay léku hjón í þáttunum þangað til árið 2015 en þau eru greinilega ekki jafnnáin í raunveruleikanum og þau voru í þáttunum. 

„Við höfum ekki talað saman síðan hann hætti í þáttunum,“ sagði Pompeo samkvæmt E! þegar hún var spurð hvort þau væru enn vinir. Hún tók það fram að hún væri ekki ósátt við hann, hann væri yndislegur leikari og þau hefðu búið til frábært sjónvarpsefni saman. 

„Venjulega þegar fólk hættir í þáttunum þarf það eiginlega að uppgötva sjálft sig upp á nýtt, hver það er án þáttarins, af því að þátturinn tekur svo mikið af lífi þeirra,“ sagði Pompeo. „Þú þarft þann tíma til þess að átta þig á hver þú ert án þáttanna. Svo við höfum ekki talað saman en Patrick á alltaf stað í hjarta mínu.“

Ellen Pompeo í hlutverki sínu í Grey's Anatomy.
Ellen Pompeo í hlutverki sínu í Grey's Anatomy.
mbl.is