„Ég heiti Logi og mér er sagt að ég sé meðvirkur“

Logi Bergmann.
Logi Bergmann.

„Jú, og þegar ég hugsa um það, er það kannski ekki eðlileg hegðun að rífa síma af fólki af því það raðar öppunum ekki nógu skynsamlega. Stilla síma þess á call waiting, af því að þannig gerir allt eðilegt fólk,“ skrifar Logi Bergmann í pistli sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Pistilinn í heild má lesa hér fyrir neðan:

„Fyrir ekki svo löngu benti vinur minn mér á að það sem ég hef hingað til talið krúttlega hjálpsemi væri í raun meðvirkni. Gott ef hann notaði ekki líka orðið afskiptasemi.

Til dæmis þegar ég kenni fólki hvernig það eigi að fá sér kaffi. Ekki láta renna of lengi úr vélinni því þá verður það of þunnt og manni verður bara illt í maganum. Ég meina: Allir vita að það er fátt meira pirrandi en þunnt kaffi.

Eða þegar ég leiðrétti fólk, sérstaklega þágufallssjúklinga, algjörlega óvart. Það er í alvöru gert af góðum hug. Þá horfir þessi vinur minn á mig eins og ég hafi gert eitthvað rangt. Sem er óskiljanlegt. Maður segir ekki mörgum langar. Ég er í raun að gera fólki greiða.

Ég er bara þannig gaur.

Ég hef einfaldlega þörf fyrir að leiðrétta og laga hluti. Og hvenær hætti það að vera kostur? Ég skil ekkert.

Reyndar hefur mér tekist að notfæra mér þetta. Einn vinur minn er álíka þrjóskur og ég er hjálpsamur. Ég veðjaði við hann að hann myndi ekki taka neinum framförum í golfi rigningarsumarið mikla. Svo benti ég honum á það sem hann þyrfti að laga. Í þrjósku sinni gerði hann náttúrlega ekkert í því, þannig að nú á ég þennan fína bjórkassa.

En svo fór vinur minn, þessi sem sem ég nefndi fyrst, að tala um að þetta væri meðvirkni og ég fór að verða pínu órólegur. Á ég bara að horfa á fólk raða hlutum óreglulega? Láta eins og ekkert sé þegar fólk drekkur rauðvín úr hvítvínsglasi?

Ég á í alvöru mjög erfitt með það.

Ég hef alltaf skilið meðvirkni sem svo að maður sé virkur með einhverju. Ég er það bara alls ekki. Ég er einmitt að reyna að laga fólk sem veit ekki betur. Þegar ég bendi honum á þetta þá fæ ég einhvern fyrirlestur úr tólf spora kerfinu. Og hvernig á ég að svara því? Ég veit ekkert um það enda fáránlega farsæll drykkjumaður.

Reyndar, þegar ég hugsa um það, get ég verið pínu óþolandi. Eins og þegar ég er nýbúinn að taka til í bílskúrnum mínum, þá blossar upp einhver þörf hjá mér fyrir að segja nágranna mínum að það sé drasl í skúrnum hjá honum. Ég veit að hann gerir sér grein fyrir því. Ég bara ræð ekki við það. Og svo sannfæri ég mig um að þetta sé allt gert af góðum hug.

Ég held í alvöru að gamli nágranni minn hafi kannski flutt af því að ég hélt svo marga fyrirlestra um hvaða rugl það væri að vera alltaf að fá allan þennan gluggapóst og hvort hann gerði sér ekki grein fyrir því hvað hann borgaði í seðilgjöld á ári. Eftir á að hyggja var það örugglega dálítið óþolandi.

Jú, og þegar ég hugsa um það, er það kannski ekki eðlileg hegðun að rífa síma af fólki af því það raðar öppunum ekki nógu skynsamlega. Stilla síma þess á call waiting, af því að þannig gerir allt eðilegt fólk. Já og geta ekki sofnað af því að konan mín er ekki búin að uppfæra stýrikerfið í símanum sínum.

Jújú. Sennilega er ég pínu meðvirkur. En þið megið ekki gleyma að þetta er allt gert af góðum hug.“

mbl.is