Lady Gaga biðst afsökunar

Lady Gaga segist hafa verið á vondum stað þegar hún ...
Lady Gaga segist hafa verið á vondum stað þegar hún vann með R. Kelly. AFP

Söng- og leikkonan Lady Gaga baðst í gær afsökunar fyrir lagið „Do What U Want (With My Body)“ sem hún gerði með R. Kelly árið 2013. Kelly hefur verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi og kemur afsökunin í kjölfar heimildarmyndarinnar „Survi­ving R. Kelly“ þar sem fórnarlömb tónlistarmannsins stíga fram. 

Gaga varð sjálf fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 19 ára og var hún ekki búin að vinna úr sínum vandamálum þegar hún vann með R. Kelly. Hún er hins vegar búin að því núna. 

„Sem fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis gerði ég bæði lagið og myndbandið á dimmum stað í lífi mínu. Ásetningur minn var að skapa eitthvað mjög óhlýðið og ögrandi af því ég var reið og hafði ekki enn komist yfir áfall sem kom fyrir í mínu eigin lífi,“ skrifaði Gaga á Instagram. 

Segir hún augljóst út frá heiti lagsins hversu brengluð hugsun hennar hafi verið. Hún geti ekki tekið til baka það sem hún hafi gert en hún segist geta breytt framtíðinni. Segist hún ætla að taka lagið út af streymisveitum. 

Tónlistarmaðurinn R. Kelly árið 2013.
Tónlistarmaðurinn R. Kelly árið 2013. AFP
Þennan texta setti Lady Gaga á Instagram.
Þennan texta setti Lady Gaga á Instagram. skjáskot/Instagram
mbl.is