Middleton opnar sig um þunglyndi

James Middleton ásamt systur sinni Pippu.
James Middleton ásamt systur sinni Pippu. AFP

James Middleton, litli bróðir Katrínar hertogaynju, greindi frá þunglyndi sem hann hefur glímt við í pistli á Daily Mail um helgina. Middleton segist hafa falið vanlíðan sína en leitaði sér loks hjálpar fyrir einu ári. Lýsir hann þunglyndinu sem krabbameini hugans. 

„Á daginn drattaðist ég á fætur og fór í vinnuna, stóð þar með líflaus augu á tölvuskjáinn minn, vonaði að klukkan myndi tifa svo ég gæti keyrt heim aftur. Lamandi deyfð heltók mig. Ég gat ekki svarað einföldustu skilaboðum svo ég opnaði ekki tölvupóstinn minn. 

Ég gat ekki átt í samskiptum, ekki einu sinni við þá sem ég elskaði mest: fjölskyldu mína og nána vini. 

Áhyggjuþrungin skilaboð urðu ákveðnari með hverjum deginum, samt var þeim ósvarað á meðan ég sökk smám saman dýpra í votlendi örvæntingar. 

Allir litir og tilfinningar höfðu skolast út úr mínum heimi og allt var grátt og einlitt,“ skrifar Middleton þegar hann lýsir 12 mánaða hnignun á sinni andlegu líðan og segir að stór hluti ársins 2017 hafi liðið hjá í þoku. 

Í desember árið 2017 sá hann að hann þyrfti hjálp og fékk hana. Í kjölfarið var Middleton greindur með athyglisbrest. Hann segir í pistlinum að hann sé lesblindur og hafi átt erfitt í skóla þegar hann var yngri sem endaði með því að hann hætti í skóla. Greiningin útskýrði þó margt fyrir honum enda gat hann engan veginn einbeitt sér í skóla. Athyglisbresturinn hafi einnig háð honum í atvinnulífinu. 

Hann ákvað að stíga fram þar sem nú skilur hann betur hvað hann er að takast á við og með hjálp fagfólks hefur hann tól til þess að takast á við vandann. Segist hann finna fyrir tilgangi. Það spilaði líka inn í að systir hans, Katrín hertogaynja, og eiginmaður hennar, Vilhjálmur Bretaprins, og bróðir hans, Harry Bretaprins, hafa einbeitt sér að því að vekja athygli á málum tengdum geðheilbrigði. 

James Middleton og Vilhjálmur Bretaprins.
James Middleton og Vilhjálmur Bretaprins. AFP
mbl.is