Vinasambandið við Jackson eðlilegt

Macaulay Culkin.
Macaulay Culkin.

Barnastjarnan fyrrverandi Macaulay Culkin sagði að ekkert hafi verið eðlilegra en að vera góður vinur tónlistarmannsins Michael Jackson. Þetta ræddi hann í hlaðvarpsþættinum Inside of You er ET greinir frá. 

Segir hann Jackson hafa haft samband við sig þegar hann skaust hratt upp á stjörnuhimininn eftir vinsældir Home Alone-myndanna. Taldi hann Jackson hafa tengt við það sem hann var að upplifa. 

„Að lokum er það næstum því auðvelt að segja að það hafi verið skrítið eða eitthvað en það var það ekki af því það var eðlilegt. Þegar allt kemur til alls þá vorum við vinir,“ sagði Culkin um samband sitt og Jackson sem var ákærður fyrir að misnota börn. 

Culkin sagði Jackson hafa verið engum líkan þegar þáttastjórnandinn minntist á aldurmuninn en Jackson var 22 árum eldri en Culkin sem var bara barn þegar vináttan hófst. 

„Enginn annar í kaþólska skólanum mínum hafði einu sinni hugmynd um hvað ég var að ganga í gegnum og hann var vinaleg manneskja sem hafði gengið í gegnum það sama og vildi vera viss um að ég væri ekki einn,“ sagði Culkin um vin sinn og sagði samband þeirra hafa verið eðlilegt vinasamband. 

Culkin og Jackson voru það góðir vinir að Jackson gerði Culkin að guðföður barna sinna. 

Michael Jackson.
Michael Jackson. AFP
mbl.is