Veit pínulítið um óskaplega margt

Spéfuglinn Jimmy Carr.
Spéfuglinn Jimmy Carr. Ljósmynd/Aðsend

Enski grínistinn Jimmy Carr snýr aftur til Íslands og treður upp í Hofi á laugardaginn, 26. janúar, og í Háskólabíói í tvígang degi síðar, kl. 19.30 og 22.30. Carr mun þar flytja nýjustu uppistandssýningu sína, The Best Of, Ultimate, Gold, Greatest Hits. Carr er einn þekktasti og vinsælasti grínisti Bretlands og margverðlaunaður sem slíkur. Hann er einnig vinsæll sjónvarpsmaður, hefur tekið þátt í og stýrt sjónvarpsþáttum til fjölda ára í heimalandinu og þá m.a. í breska ríkissjónvarpinu.

Carr er þessa dagana á flakki um heiminn með sýninguna og Ísland er einn viðkomustaður af fjölmörgum á því ferðalagi. Sýningin samanstendur af bestu bröndurunum á ferli Carr, ferli sem spannar um tuttugu ár, í bland við nýja. Þeir sem farið hafa á uppistand með Carr eða séð hann í ham í sjónvarpi eða á netinu vita að þeir eiga von á góðu gríni og það oftar en ekki af svartara taginu. Ekki fyrir viðkvæma, eins og stundum er sagt.

Afþakkaði hákarl og kinnar

Carr er einkar vingjarnlegur við blaðamann sem slær á þráðinn til hans kl. 9 að morgni. Grínistinn segist hafa nægan tíma. „Þú mátt spyrja mig að hverju sem er, hvað viltu vita?“ spyr Carr. Blaðamaður tekur grínistann á orðinu og spyr hvað hann hafi fengið sér í morgunverð. „Ég byrjaði á sellerísafa sem einhver sagði mér að myndi gera mér gott og fékk mér svo grænan safa á eftir. Ég drekk safa á morgnana,“ svarar Carr.

– Ertu á safakúr?

„Nei, ég fæ mér örugglega hamborgara í hádegismat þannig að það er ekkert vit í þessu! Ég stunda svakalega heilsusamlegt líferni þangað til ég geri það ekki,“ svarar Carr af sinni alkunnu hnyttni. Hann segist vera á flakki milli landa og hafa tilhneigingu til að borða einfaldlega það sem er í boði hverju sinni. „Síðast þegar ég var á Íslandi reyndi fólk að troða ofan í mig úldnum hákarli og kinnum af einhvers konar fiski. Ég meina það, Ísland, ég er nú ekki algjör fábjáni!“ segir Carr.

– En var þér boðið að smakka sviðið andlitið á kind?

„Ég er ekki grænmetisæta en mér finnst fullmikið að borða andlitið á einhverju dýri,“ segir Carr og fær örstuttan fyrirlestur um fullnýtingu sauðfjár á Íslandi. „Við notum líka alla kindina en þetta ógeðslega notum við í dálítið sem við köllum pylsur. Þá þarf maður ekkert að hugsa um þetta, það er búið að hakka allt saman þannig að maður sér það ekki. Bein, fætur og rassgöt.“

Kannast við hann af skjánum

Carr ber Íslendingum vel söguna, þrátt fyrir hákarlinn og allan óþverrann sem reynt hefur verið að koma ofan í hann, segir þjóðina einkar vingjarnlega. Hún hafi tekið honum opnum örmum í þau skipti sem hann hefur komið hingað með sín gamanmál. „Ég hef átt góðar stundir á Íslandi, brugðið mér í bæinn á kvöldin og fengið mér drykk,“ segir hann.

– Kannaðist fólk við þig í þessum bæjarferðum?

„Það verður æ algengara eftir því sem ég kem oftar. Með tilkomu Netflix og YouTube hefur grínistum tekist að ná til miklu stærri hóps, grínið er orðið hnattrænt og fólk ræður því núna hvað það horfir á. Það kannast ef til vill við mig úr þáttum á borð við 8 Out of 10 Cats, Countdown eða The Big Fat Quiz of the Year,“ svarar Carr.

– Eldri lesendur blaðsins kannast mögulega ekki við þig þannig að ég spyr einfaldlega, fyrir þá: Hver er Jimmy Carr?

„Ég er breskur grínisti og í ykkar augum er ég sennilega mikill dóni. En þetta eru bara brandarar og mér finnst svo skrítið þegar fólk segir að eitthvað sé svo svakalega dónalegt að það hljóti að vera bara fyrir ungt fólk því sumt gamalt fólk er líka með sóðalegt skopskyn, það er ekki óalgengt. Við eigum það öll til að vera með fyrirframgefnar hugmyndir um náungann og ég man eftir hjónum á níræðisaldri sem komu á uppistand með mér og ég hugsaði með mér að þau myndu alls ekki kunna að meta grínið. En þau nutu þess sko heldur betur!“ segir Carr og bætir við að þeir sem hafi lifað af heila heimsstyrjöld hljóti nú að þola nokkra brandara. „En ég er sumsé breskur grínisti sem ferðast um heiminn, segir brandara og stýrir sjónvarpsþáttum. Þetta er ekki alvörustarf en mér gengur þó ágætlega í því.“

Vann hjá Shell

– Hefurðu verið með uppistand frá unga aldri?

„Nei, ég byrjaði á því þegar ég var 26 ára. Líf mitt var heldur hversdagslegt fram að því, ég kláraði háskólanám og fór svo að vinna fyrir stórt olíufyrirtæki, Shell. Um miðjan þrítugsaldurinn fór ég að velta fyrir mér hvern fjandann ég væri eiginlega að gera. Mig langaði ekkert til að lifa þessu lífi!“ svarar Carr, en hann nam félagsvísindi í háskóla. „Ég veit pínulítið um óskaplega margt,“ segir Carr um gagnsemi þeirra fræða og að þau komi sér eflaust vel fyrir grínista. „Ég er grínisti sem hentar vel fólki með athyglisbrest. Ég segi 300 brandara á tveimur klukkustundum og þeir tengjast ekkert hver öðrum, eru bara brandarar,“ bætir hann við.

Blaðamaður minnist þess að hafa hlegið svo mikið að uppistandi Carr að hann hreinlega verkjaði í magavöðvana og var með harðsperrur næsta dag. Carr tekur því fagnandi og bendir á að hlátur sé hollur og smitandi og að fólk sé um átta sinnum líklegra til að hlæja þegar það sé innan um annað fólk en ekki eitt með sjálfu sér. Því sé bráðsmitandi að fara á uppistand fyrir fullum sal. „Þetta er mikilvægur, félagslegur gjörningur, þú myndar tengsl við aðra og losar endorfín. Ég lít stundum á mig sem dópsala en þú ert þegar kominn með dópið í hendurnar, ég hjálpa þér bara að nota það.“

Allt fer í símann

– Þetta er mikill fjöldi brandara, hvernig koma þeir til þín? Lestu bækur, ferð í göngutúra eða hver er aðferðin?

„Nei, það sem er svo gott við tæknina er að áður fyrr þurfti ég alltaf að vera með penna og blað á mér en núna skrifa ég allt í iPhone-inn. Í hvert sinn sem mér dettur eitthvað í hug – og jafnvel þó það sé varla fyndið heldur bara sniðugt orðalag eða gott orð, eitthvað sem ég heyri aðra segja eða í fréttunum – þá punkta ég það hjá mér og þegar kemur að skrifunum lít ég yfir þessar þúsundir punkta og vinn úr þeim,“ svarar Carr. Hann segist einkum vinna út frá myrkari hliðum mannlegrar tilveru. „Þannig er mitt skopskyn og margir brandaranna snúast um að losa spennu,“ útskýrir Carr og líkir sér við hirðfífl sem megi segja eitt og annað sem aðrir megi ekki segja.

Hann er spurður að því hvort hann finni fyrir miklum mun milli þjóða, hvort ein þjóð hlæi meira að ákveðnum bröndurum en önnur og segist Carr lítið hafa orðið var við slíkt. Meira máli skipti á hvaða degi uppistandið fari fram, sunnudagur sé ekki eins og mánudagur hvað salinn varðar og svo framvegis.

Góður brandari betri

– Ætlarðu að segja brandara sérsniðna að Íslendingum í uppistandinu þínu um helgina?

„Já, örugglega, mér hlýtur að detta eitthvað í hug,“ segir Carr og blaðamaður laumar að honum íslenskum brandara og hvetur grínistann til að segja hann. Carr virðist lítast vel á þá hugmynd, þótt hann botni ekkert í brandaranum. Kannski kennir hann í brjósti um íslenska blaðamanninn sem heldur að hann sé fyndinn.

Carr er að klára uppistandsferð sína um heiminn, segist hafa heimsótt 20 lönd í fyrra og að hann muni heimsækja jafnmörg á þessu ári. „Ég er á leiðinni til Litháens og þaðan held ég til Sviss og svo til Íslands,“ segir hann og líkir sér við vinsæla rokksveit sem flakkar milli landa og flytur helstu smelli sína. Grínistinn er enda með „best of“ dagskrá, úrval brandara af ferlinum og fleiri til, sem fyrr segir.

En var ekki heilmikið mál að fara yfir allt brandarasafnið? „Jú, þetta eru fleiri klukkustundir af efni sem ég þurfti að vinna úr en það var gaman að fara yfir þetta, skoða góða brandara og átta sig á því að hægt væri að gera þá betri. Oft má bæta við brandarann, krydda hann með einhverjum hætti. Þetta er skemmtileg sýning og ég er virkilega stoltur af henni,“ segir Carr að lokum.

Hér má sjá Carr í stuði í einu af uppistöndum sínum:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson