Von á glamúr á Grammy's í nótt

Rapparinn Kendrick Lamar, sem hlaut flestar tilnefningar í ár, hefur ...
Rapparinn Kendrick Lamar, sem hlaut flestar tilnefningar í ár, hefur þegar unnið til tólf Grammy-verðlauna. AFP

Tónlistin verður í hávegum höfð í nótt þegar Grammy-verðlaunahátíðin fer fram í 61. skipti. Hátíðahöldin munu fara fram í Staples-Center höllinni í Los Angeles, eins og á árunum 2004-2017, en í fyrra fór hátíðin fram í Madison Square Garden í New York. Kynnir kvöldsins er engin önnur en Alicia Keys. 

Þrátt fyrir að stjörnufans og glamúr einkenni hátíðina er það auðvitað tónlistin sem mestu máli skiptir, en tónlistaratriðin á hátíðinni eru jafnan hin glæsilegustu. Segir poppmiðillinn UPROXX frá því á síðu sinni að stórstjörnur á borð við Diönu Ross, Cardi B og Travis Scott muni stíga á svið í kvöld. Þá munu aðrar sameina krafta sína í atriðum sínum en sem dæmi munu rapparinn Post Malon og rokksveitin Red Hot Chili Peppers stíga saman á stokk. Slíkt hið sama ætla poppstirnin Shawn Mendes og Miley Cyrus að gera.

Gott er að vera með góða upphandleggsvöðva þegar maður vinnur ...
Gott er að vera með góða upphandleggsvöðva þegar maður vinnur til Grammy-verðlauna. Það sýndi Beyoncé sem vann til fimm slíkra árið 2004. MIKE BLAKE

Bandarískar poppstjörnur aðsópsmiklar

Tilnefningar til verðlaunanna voru kynntar snemma í desember en rapparinn Kendrick Lamar fékk flestar tilnefningar, átta talsins. Á hæla hans kemur kanadíski tónlistarmaðurinn Drake og þar á eftir Brandi Carlile með sex tilnefningar. Veitt verða verðlaun í 84 flokkum. 

Fjöldamargar amerískar stórstjörnur eiga á arinhillunni stafla af Grammy-verðlaunagripum en sem dæmi á Kanye West 21 stykki, og vinur hans Jay-Z annað eins safn. Þá á eiginkona Jay-Z, Beyoncé, einu meira en eiginmaðurinn, 22 stykki. Maðurinn sem á flest Grammy-verðlaun er þó ekki bandarísk poppstjarna, heldur er það ungversk-breski hljómsveitarstjórinn Gerg Solti, sem um áratugabil stýrði sinfóníuhljómsveit Chicago. Honum höfðu verið veitt 31 Grammy-verðlaun þegar hann lést árið 1997.

Útsending frá hátíðahöldunum hefst klukkan eitt í nótt og verður sýnt beint frá hátíðinni á RÚV.

mbl.is