Fólk út um allan heim fylgist með

Tara Sóley Mobee tekur þátt í Söngvakeppninni 2019.
Tara Sóley Mobee tekur þátt í Söngvakeppninni 2019.

Tara Sóley Mobee flytur lagið Betri án þín á seinna undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar 2019 laugardaginn 16. febrúar. Lagahöfundarnir Andri Þór Jónsson og Eyþór Úlfar Þórisson fengu Töru til að syngja lagið en Töru dreymdi um að það þegar hún var yngri að taka þátt. 

Af hverju Eurovision?

„Þegar ég var lítil var Eurovision hálfgerður hátíðardagur og ég gat ekki beðið eftir að verða eldri svo ég gæti tekið þátt. Svo þegar maður verður eldri þá einhvern veginn gleymast þessir barnæskudraumar smá. Nokkuð viss um að þetta hafi verið fimmtudagur þegar þeir sendu svo á mig lagið og ég var frekar fljót að rifja upp drauminn og fiðrildin sem honum fylgdu.“

Hvernig hófst vinnan við lagið?

„Ég kom í raun inn í það ferli á lokanótunum, en Eyþór og Andri eru miklir lagsmíðameistarar og ég efast um að það hafi tekið langan tíma fyrir þá að skapa þetta lag. Í upptökum og svona var svo alltaf bara mega mikil stemmning og það er það í raun alltaf með þessum drengjum.“

Besta Eurovision-minningin?

„Fjölskyldupartýin þegar ég var yngri, án efa. Allir að horfa á sama tíma þó að við værum á víð og dreif um landið og svo allir að hringja á milli að giska á hvaða sæti Ísland yrði í og hver myndi vinna. Myndast þessi heild, ekki langt frá þeirri sem myndast á jólunum nema bara ótengd einhverri einni trú, heldur tónlist í staðinn.“

Hverju vonar þú að lagið skili til áhorfenda?

„Að lagið skili gleði og allsherjar peppi bara í landann! Að fólk geti haft gaman og notið sín.“

Uppáhalds-Eurovision-lagið?

„Þau eru svo mörg, erfitt að segja eitthvað eitt. Fer líka bara algjörlega eftir hvernig stuði maður er í. En eitt af mínum uppáhalds í augnablikinu er Ne partez pas sans moi með Celine Dion og svo Undo með Sönnu Nielsen.“

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir Söngvakeppnina?

„Mjög vel! Svo mikið af snillingum sem að koma að þessari keppni, allt toppfólk í sínu fagi! Erum spennt að sýna öllum!“

Hvað hefur komið þér mest a óvart i tengslum við Eurovision-ferlið?

„Allar Facebook-vinabeiðnirnar, nei segi svona. En það er svo mikið af fólki út um allan heim að fylgjast með þessari keppni og það er svo gaman að sjá fólk spá hver vinnur, gaman að sjá allar mismunandi skoðanirnar.“

Getur Ísland unnið Eurovision og hvar ætti að halda keppnina?

„Já klárlega, ég meina af hverju ekki? En keppnin yrði ábyggilega haldin í Kórnum eða einhverju álíka, svo get ég líka alltaf bara boðið öllum heim til mín.“

Tara Sóley Mobee.
Tara Sóley Mobee.
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fegurðarskyn þitt er sérstaklega næmt og því er þetta góður dagur til að njóta fegurðarinnar. Eitthvað óvænt gerist sem mun veita þér mikla ánægju.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fegurðarskyn þitt er sérstaklega næmt og því er þetta góður dagur til að njóta fegurðarinnar. Eitthvað óvænt gerist sem mun veita þér mikla ánægju.