Hvar var giftingarhringurinn?

Fótboltakappinn Wayne Rooney og eiginkona hans Coleen.
Fótboltakappinn Wayne Rooney og eiginkona hans Coleen. Skjáskot Instagram / Coleen Roney

Enn og aftur er allt komið í hnút hjá hjónunum Wayne og Coleen Rooney. Eiginkona knattspyrnukappans sást kaupa blöðrur á Valentínusardaginn, líklega handa sonum þeirra, án giftingarhringsins en hjónin eru sögð afar óhamingjusöm. 

Drykkjulæti Wayne hafa orðið til þess að breskir miðlar fylgjast vel með hjónunum. Ekki er nema eitt og hálft ár síðan hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur í bíl með ókunnugri konu á meðan Coleen var ólétt af fjórða barni þeirra. Giftingarhringurinn fékk einnig að fjúka í kringum það mál. 

Heimildarmaður The Sun segir Wayne ekki hafa stórar áhyggjur af fjölmiðlafárinu í kringum hegðun hans. Hann er þó áhyggjufullur yfir því hversu annað fólk hefur auðveldlega áhrif á hana. 

„Hann væri eyðilagður ef hún færi frá honum en þau eru að takast á við svo mörg vandamál í sambandinu að honum yrði á sama tíma létt.“

Er andrúmloftið á heimilinu sagt hafa verið hræðilegt að undanförnu og reynir Wayne að komast út þegar hann getur. Það er hins vegar sagt gera Coleen enn óhamingjusamari. 

Í gær á Valentínusardaginn sagði heimildarmaður Daily Mail að hjónin hefðu hist daginn áður til þess að ræða málin. Coleen er sögð kenna Wayne um að kastljósi fjölmiðla sé aftur beint að fjölskyldunni. Móðir hennar er sögð hafa flogið til Bandaríkjanna til þess að styðja dóttur sína. 

mbl.is