„Mér leið eins og ég væri að drukkna“

Mandy Moore leið illa í hjónabandi með Ryan Adams.
Mandy Moore leið illa í hjónabandi með Ryan Adams. mbl.is/AFP

This is Us-stjarnan Mandy Moore mætti í hlaðvarpsþáttinn WTF á dögunum og ræddi hvernig henni leið í hjónabandinu með tónlistarmanninum Ryan Adams. Þátturinn var tekinn upp áður en Moore greindi frá andlegu ofbeldi af hálfu fyrrverandi eiginmanns síns ásamt öðrum konum í New York Times. 

Segir Moore í hlaðvarpsþættinum samkvæmt E! að henni hafi liðið illa í hjónabandinu. Hún ákvað að giftast Adams í kjölfar þess að móðir hennar fór frá eiginmanni sínum fyrir aðra konu.  

„Ég var að lifa lífinu mínu fyrir hann,“ segir Moore í þættinum og sagði orkuna í hjónabandinu hafa verið óheilbrigða „Mér leið eins og ég væri að drukkna. Þetta var svo óverjandi og fallvalt og ég var svo einmana. Ég var sorgmædd. Ég var einmana með honum.“

Moore vann minna þegar hún var gift tónlistarmanninum. „Ég tók að mér lítil verkefni. Það er ekki eins og ég hafi alveg hætt að vinna. Ég gerði hitt og þetta en það var mjög skýrt að þegar ég var að vinna fór allt í rugl heima,“ sagði Moore. Segist hún hafa verið ófær um að vinna vinnuna sína þar sem hún þurfti að einbeita sér að eiginmanni sínum sem vildi ekki leyfa henni að gera neitt annað. 

Ryan Adams.
Ryan Adams. mbl.is/AFP
mbl.is