Fær að spila Fortnite við Steinda Jr.

Steindi Jr. er þekktur fyrir að vera góður í tölvuleiknum ...
Steindi Jr. er þekktur fyrir að vera góður í tölvuleiknum Fortnite. Ljósmynd/Kjartan Einarsson

Ungi Fortnite spilarinn Stefán Bjarki mun fá draum sinn uppfylltan bráðlega. Móðir hans Eva Dís Björgvinsdóttir birti mynd af syni sínum með handskrifað bréf til leikarans Steinda Jr., Steinþórs Hróars Steinþórssonar, á Facebook. Í bréfinu segir Stefán að það sé draumur hans að fá að spila Fortnite með Steinda Jr. og biður hann um að bæta sér á vinalistann í Fortnite svo þeir geti spilað saman. 

Eva Dís skrifaði með færslunni að þau mæðgin hafi reynt að hafa samband við Steinda í gegnum Facebook en það hafi ekki gengið. Þau hafi því ákveðið að setja inn opið bréf frá Stefáni Bjarka á Facebook.

Stefán Bjarki var einstaklega heppinn því Steindi var ekki lengi að sjá bréfið og biður móður hans um að senda sér skilaboð. Steindi varar þó Stefán Bjarka við, enda er hann Reykjavíkurmeistari í Fortnite. 

Steindi varar Stefán Bjarka við.
Steindi varar Stefán Bjarka við. skjáskot/Facebook
mbl.is