Lífið var stutt en listin löng

Mark Hollis var fæddur árið 1955 og var því 64 …
Mark Hollis var fæddur árið 1955 og var því 64 ára gamall þegar hann lést. Ljósmynd/Skjáskot

Í vikunni lést breski tónlistarmaðurinn Mark Hollis, lagahöfundur og söngvari bresku hljómsveitarinnar Talk Talk, eftir veikindi. Á síðustu dögum hefur hver tónlistarmaðurinn á fætur öðrum minnst Hollis og hvernig tónlist Talk Talk hafði áhrif á hann. Chili-piparinn og orkuboltinn Flea minntist Hollis til dæmis á Instagram og sagði plötuna The Spirit of Eden (1988) hafa verið stoð í lífi sínu og tónlist sem hann leitaði endurtekið í til að næra sálina.

Raunar væri erfitt að finna ólíkari feril tveggja hljómsveita en hjá Talk Talk og Red Hot Chili Peppers. Poppsmellir á borð við  „Talk Talk“ og „It’s My Life“ frá fyrri hluta níunda áratugarins öfluðu Talk Talk vinsælda víða um heim án þess þó að verða að eiginlegum poppstjörnum. Nýrómantíkin var allsráðandi og sveitin með rödd Hollis í forgrunni smellpassaði í þann heim. Augljósa leiðin hefði eflaust verið að halda áfram að gera popp og freista þess að ná hátt á vinsældalistum með smellum í sama anda.

Árið 1986 gaf sveitin þó út plötuna The Colour of Spring sem gerði litlar tilraunir til annars en að fylgja tónlistarlegri sannfæringu. Can-legur taktur (löngu áður en það komst í tísku), barnakór og enginn augljós húkkur í fyrsta laginu „Happiness Is Easy“ gefur tóninn og smáskífan „Life’s What You Make It “ fylgir þeirri línu. Sem betur fer virðist stundum vera pláss, þótt allt of lítið sé, fyrir tónlist af þessu tagi á stóra sviðinu og platan náði töluverðum vinsældum.

Í viðtali í ítölskum sjónvarpsþætti, sem verður ekki lýst öðruvísi en drepfyndnu þó að það hafi ekki verið markmið þessa ágæta ítalska sjónvarpsfólks, talaði Hollis um að titillinn á plötunni vísaði til endurfæðingar og það var við hæfi því þannig fengu Hollis og félagar í Talk Talk, sem lengst af var tríó, svigrúm til að feta lengra í þessar áttir sem voru lítt kannaðar.

Viðtalið byrjar á mínútu 8:55.

The Spirit of Eden kom út árið 1988 og þar námu Hollis og félagar óumdeilanlega ný lönd, fyrsta lagið tekur tæpar þrjár mínútur bara að byrja og er meira en níu löturhægar mínútur alls. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig upplitið hefur verið á fulltrúum Parlophone þegar Hollis og félagar skiluðu plötunni af sér. Hvort það hafi skilað sér í lélegu markaðsstarfi skal ósagt látið en platan seldist í öllu falli illa og alls ekki jafn vel og The Colour Of Spring.

Engu að síður er platan falleg og er oft talin vera fyrsta eiginlega póst-rokk platan. Hollis talaði um að vera undir áhrifum frá Miles Davis, John Coltrane, Debussy og Bartok við gerð hennar. Augljóslega engin rokkklisja með brotna sjálfsmynd og sjálfseyðingarhvöt. Upptökuferlið var tilraunakennt þar sem allar hugmyndir voru prófaðar og sveitin nýtti lýsingu og ljósleysi raunar til að skapa rétta andrúmsloftið í upptökunum. Á skífunni er lagið „I Believe in You“ sem Hollis samdi til bróður síns sem glímdi við heróínfíkn. Barátta sem tapaðist. Plötunni var ekki fylgt eftir, fyrst og fremst vegna þess að Hollis sagðist eiginlega ekki vita hvernig ætti að flytja tónlistina á tónleikum. Ómögulegt væri að setja sig í hugarástandið sem kallaði sköpunina fram á tónleikum. 

Hugmyndir af þessu tagi fóru að verða meira áberandi hjá Hollis í viðtölum. Einhver dyggur aðdáandi hefur gert okkur hinum nördunum mikinn greiða þar sem hann er búinn að klippa saman hljóðbrot úr viðtölum sem hann fór í í tengslum við útgáfu á fimmtu og síðustu plötu Talk Talk, Laughing Stock frá árinu 1991. Þar má heyra hvernig nálgunin við upptökurnar var.

„Í fyrsta skipti sem eitthvað er spilað og það er eins gott og það getur orðið þá eru allar tilraunir til að spila það að nýju í eðli sínu endurgerð á einhverju sem í raun var betra.“ Spilamennskan átti að verða til á staðnum, „spontaneity og improvisation“ eru orðin sem Hollis notaði og spuni er bara ekki nægilega gott orð til að ná utan um merkingu þeirra í þessu samhengi. Það fangar í raun betur helsta gallann við spuna, þ.e. hvernig hættan sé að missa sjónar á upprunalega upplegginu.

Upptökur á Laughing Stock tóku um ár sem á þessum tíma var ævintýralega langur tími í hljóðveri en er skiljanlegt þegar þetta er uppleggið og helst svo í hendur við fullkomnunaráráttuna sem hefur tíðkast í breskum hljóðverum. Djass, klassík, hávaðarokk, ambient blandast saman á plötunni en heildin sem er oft mjög abstrakt er bundin saman af rödd Hollis. Um fimmtíu tónlistarmenn léku inn á upptökurnar, stundum í algjöru myrkri nema þegar kveikt var á strób-ljósunum, klukkur voru fjarlægðar af veggjum hljóðversins og megnið af upptökunum sem voru gerðar náðu aldrei inn á plötuna.

Það var ekkert verið að grínast með þetta og það er auðvitað fín lína þegar tónlistarmenn nálgast verk sín af slíkri alvöru. Pressan afgreiddi því verkið gjarnan sem tilgerðarlegt og ferill Talk Talk, sem nú var orðinn dúett skipaður Hollis og trommaranum Lee Harris, var kominn að enda og árið eftir útgáfuna hætti Hollis í tónlistarbransanum, að eigin sögn til að sinna uppeldi barna sinna. Með tímanum hefur arfleifð hljómsveitarinnar öðlast veglegan sess á meðal tónlistarunnenda sem kunna að meta það þegar nýjar víddir í tónsköpun opnast. Post-rokkið sem Hollis er gjarnan talinn, með réttu eða röngu, nánast hafa fundið upp hefur haft mikil áhrif á sumar af virtustu hljómsveitum samtímans. Sigur Rós og Radiohead eru augljósustu dæmin.


mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson