Skoðun dómara gæti skipt miklu

Hatari sigraði í Söngvakeppni sjónvarpsins í gærkvöldi.
Hatari sigraði í Söngvakeppni sjónvarpsins í gærkvöldi. Eggert Jóhannesson

„Ég held það segi sig sjálft að auðvitað er alltaf skemmtilegra þegar atriði vinnur sem fær athygli. Við erum strax komin í fjórða sæti í veðbönkum,“ segir Flosi Jón Ófeigsson, formaður FÁSES (Félags áhugamanna um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva), inntur eftir viðbrögðum við sigri Hatara í Söngvakeppni sjónvarpsins í gærkvöldi. Hann er bjartsýnn á gengi Íslands í lokakeppni Eurovision í Tel Aviv í Ísrael sem fram fer í maí. 

Flosi Jón segir að það hafi hjálpað Hatara að hafa sýnt á sér aðra hlið fyrir úrslitakvöldið í gær. Í kynningarmyndbandi brugðu þeir á leik með grunnskólabörnum og bökuðu köku að hætti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Á leið inn á svið í Laugardalshöllinni þar sem úrslitakvöld …
Á leið inn á svið í Laugardalshöllinni þar sem úrslitakvöld söngvakeppninnar var haldið. Eggert Jóhannesson

„Það varð viðsnúningur hjá Hatara undir lokin sem ég held að hafi haft áhrif á fólk. Þeir fóru að svara í viðtölum og sýndu á sér mannlega hlið, en héldu samt áfram listrænum gjörningi sínum,“ segir Flosi Jón. Hann telur að með þessu hafi þeir náð til hópa sem höfðu gagnrýnt framgöngu Hatara eftir frammistöðuna á undankvöldi og við önnur tilefni.

„Ég er rosalega stoltur af Íslendingum að þora. Þetta er t.d. ekki tónlist sem ég hlusta á daglega, en ég held þeir hafi opnað sig fyrir fullt af nýjum aðdáendum sem koma úr átt sem þeir hefðu ekki búist við þegar þeir ákváðu að taka þátt,“ segir Flosi Jón. 

Góðar viðtökur í Evrópu

Hatari vakti strax athygli hjá áhugamönnum um Eurovision í Evrópu, áður en lagið var valið sem framlag Íslands. 

„Úti er atriðið að fá mjög góðar viðtökur, en þar er þetta eins og hér. Af því þetta er þessi tegund af tónlist, þá annaðhvort fílar maður lagið eða þolir það ekki,“ segir Flosi, en hann segir að atriðið og hugmyndin að baki grípi fólk, jafnvel þótt það aðhyllist ekki tónlistarstefnu Hatara.

Hópurinn sýndi á sér nýja hlið í aðdraganda úrslitakvöldsins.
Hópurinn sýndi á sér nýja hlið í aðdraganda úrslitakvöldsins. Eggert Jóhannesson

„Ég held að Hatari falli í kramið hjá Evrópu, en spurningin er hvað dómnefndin gerir. Þetta gæti opnað eitthvert listrænt hjarta hjá fólki. Það er frábært að sjá hvað þeir eru skipulagðir líka, hvernig þeir breyttu um stíl í gær. Ég er alveg rólegur með það hvernig þetta verður úti. Þeir eru með listrænan gjörning, ákveðin skilaboð og þeir munu bara halda sig við það. Einhverjir höfðu gagnrýnt hvernig þeir voru í viðtölum og minna hvernig lagið sjálft var. Það skiptir miklu hvernig þeir verða úti,“ segir Flosi Jón.

Veðbankarnir sannspáir um stóru línurnar

Ísland situr ofarlega á listum veðbanka sem spá fyrir um úrslit í Eurovision sem fyrr sagði. Flosi segir að veðbankarnir hafi undanfarin ár verið sannspáir um stóru línurnar og vísar til Eurovision í Stokkhólmi árið 2016 þegar Jamala bar sigur úr býtum fyrir Úkraínu með lagið 1944.

Sviðsframkoma Hatara og framkoma í viðtölum vakti mikla athygli.
Sviðsframkoma Hatara og framkoma í viðtölum vakti mikla athygli. Eggert Jóhannesson

„Yfirleitt enda atriði sem eru efstu sætum hjá veðbönkunum þar. Veðbankarnir eru yfirleitt nokkuð naskir á það. Nú eru í efstu tveimur sætunum Rússland og Svíþjóð og það eru lönd sem eru ekki einu sinni búin að velja atriðin sín. Þetta er byggt á því að nafnið sem Rússar eru með er Sergey Lazarev sem var með sitt fræga lag þegar Úkraína vann í Stokkhólmi. Það héldu flestir að það lag myndi vinna. Jamala var ekki í efsta sæti í veðbönkunum. Þeir hafa haft rétt fyrir sér um það hvaða lög verði í baráttunni,“ segir Flosi.

Mun Hatari sigra Eurovision?

Sú spurning brennur væntanlega á mörgum hverjar sigurlíkur Hatara séu í Ísrael. 

Hversu líklegt er að atriðið sigri í lokakeppninni?

„Það er langt síðan maður hefur upplifað þá tilfinningu sem maður fékk í gær, að framlag Íslands geti farið mjög langt. Ég er ekki mikið fyrir að vera með miklar staðhæfingar, en ég held að þetta lag fari alla vega upp úr riðlinum. Síðan þurfum við að sjá hvað dómnefndinni finnst. Við eigum alla vega fullt af aðdáendum úti í Evópu sem munu kjósa þennan listgjörning í símakosningu,“ segir Flosi Jón. 

Veltur þetta þá mikið til á dómnefndinni?

„Síðast vann Austurríki í dómaravalinu, en varð ekki ofarlega í símakosningunni, þannig að þetta getur haft gríðarlega mikil áhrif; hvað dómnefndinni finnst,“ segir Flosi Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson