Fékk tvo slagæðagúlpa á tveimur árum

Clarke hefur fengið tvo lífshættulega slagæðagúlpa.
Clarke hefur fengið tvo lífshættulega slagæðagúlpa. AFP

Breska leikkonan Emilia Clarke greindi frá því í grein á The New Yorker í gær að hún hefur greinst tvisvar sinnum með slagæðagúlp í heila. Clarke er best þekkt fyrir hlutverk sitt í þáttunum Game of Thrones. 

Clarke hefur því tvisvar sinnum undirgengist heilaskurðaðgerðir á síðustu árum. Fyrri slagæðagúlpinn fékk hún árið 2011, sama ár og fyrsta serían af Game of Thrones fór í loftið. Í kjölfarið undirgekkst hún aðgerð en eftir aðgerðina tók strangt endurhæfingarferli við. Hún náði heilsu nógu snemma til að leika í seríu tvö af Game of Thrones. 

Hún segir í greininni að hún hafi þurft að berjast fyrir lífi sínu en slagæðagúlpar í heila geta verið skæðir. Eftir fyrstu aðgerðina átti hún erfitt með að tjá sig, og var hrædd um framtíð sína sem leikkona. 

Seinni slagæðagúlpinn greindist hún með árið 2013 og undirgekkst hún þá enn stærri aðgerð en í fyrra skiptið. Hún hefur haldið heilsu síðan. Þetta er í fyrsta skipti sem fregnir af veikindum Clarke berast. 

Grein Clarke má lesa í heild sinni á The New Yorker.

mbl.is