Gaf marga milljarða og dóttirin komst inn

Dr. Dre er ánægður með dóttur sína, Truly Young.
Dr. Dre er ánægður með dóttur sína, Truly Young. skjáskot/instagram

Rapparinn Dr. Dre gerði grín að stjörnunum Felicity Huffman og Lori Loughlin á dögunum þegar hann greindi frá því á Instagram að dóttir hans hefði komist inn í USC-háskólann á eigin verðleikum. Efast einhverjir um að dóttir hans hafi verið tekin inn án óbeinnar hjálpar.

Sagðist Dr. Dre ekki þurfa að fara í fangelsi, við mynd á Instagram sem nú hefur verið eytt og People greinir frá. Erlendir fjölmiðlar voru fljótir að rifja upp að Dr. Dre hefði gefið skólanum háa peningaupphæð árið 2013. 

Dr. Dre sem heitir réttu nafni Andre Young gaf skólanum 70 milljónir Bandaríkjadala ásamt tónlistarmógúlnum Jimmy Iovine. Á gengi dagsins í dag eru þetta um átta og hálfur milljarður íslenskra króna. Fóru peningarnir í að setja á fót nýja deild sem ber nafnið Jimmy Iovine and Andre Young Academy for Arts, Technology and the Business of Innovation.

mbl.is