Hver hlýtur Gullpálmann í ár?

AFP

Kvikmyndahátíðin í Cannes verður sett á morgun og verður margt um dýrðir. Mikil áhersla er lögð á að sýna að hún sé í takt við tímann. Til að mynda er áhersla á börn og fjölskyldur og hlut kvenna. En samt sem áður eru aðeins 3 myndir í keppninni sem er leikstýrt af konum.

Konurnar eru þrjár í ár: Jessica Hausner, Céline Sciamma og Justine Triet, alveg eins og í fyrra og fyrir tveimur árum einnig. Aðeins ein kona hefur fengið Gullpálmann í Cannes í meira en 70 ára sögu hátíðarinnar en það var Jane Campion sem hlaut þau árið 1993 fyrir myndina The Piano. 

Í fyrra var #MeToo-hreyfingin áberandi í umræðunni í kringum Cannes, ekki síst vegna þess að ítalska leikkonan Asia Argento hafði áður greint frá því að bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hafi nauðgað henni á hátíðinni. 

Í ár er það fjölskyldan sem virðist eiga að vera í fyrirrúmi. Boðið er upp á svæði þar sem hægt er að gefa brjóst í næði og eins að skipta á börnum. Sérstakur skáli er fyrir börn og síðan fá bæði barnfóstrur og börn aðgang að atburðum á hátíðinni ásamt þeim sem eru þátttakendur. Foreldrar með börn fá forgang á biðraðir og eins verður boðið upp á kerrur og þjónustu barnfóstra á kvöldin.

Stjórn kvikmyndahátíðarinnar hefur sætt talsverðri gagnrýni fyrir valið á heiðurslistamanni hátíðarinnar í ár, Alain Delon, en franski leikarinn hefur meðal annars lýst því yfir að hann sé á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Þau eigi ekki rétt á sér þar sem samband fólks af sama kyni sé óeðli. Hann hefur líka viðurkennt að hafa slegið konur utan undir en hefur aldrei verið kærður fyrir neitt slíkt.

Sjá nánar hér

En það sem þetta snýst allt um - myndirnar sem taka þátt í keppninni um Gullpálmann í ár

Once Upon a Time in Hollywood í leikstjórn Quentin Tarantino. Sjónvarpsleikari, sem má muna sinn fífil fegurri, og staðgengill hans reyna að öðlast frægð í kvikmyndaborginni, á síðustu árum gullaldarinnar í Hollywood, árið 1969 í Los Angeles. Brad Pitt og Leonardo Di Caprio fara með aðalhlutverkin en myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. ágúst. 

The Dead Don't Die í leikstjórn Jim Jarmusch er grínmynd um uppvakninga. Bill Murray, Adam Driver, Tilda Swinton, Steve Buscemi, Danny Glover og Selena Gomez fara með helstu hlutverk.

Sorry We Missed You í leikstjórn Ken Loach en hann hlaut Gullpálmann fyrir tveimur árum fyrir myndina I, Daniel Blake. Myndin segir sögu fjölskyldu í Newcastle sem er skuldum vafin eftir fjármálakreppuna árið 2008. Fjölskyldan vonast til þess að gengi hennar batni þegar faðirinn fer að starfa sjálfstætt sem sendill með vörur.

A Hidden Life í leikstjórn Terrence Malick en þetta er hans fyrsta mynd í Cannes frá því hann hlaut Gullpálmanna fyrir The Tree of Life árið 2011. Í nýju myndinni snýr hann aftur til seinni heimsstyrjaldarinnar en í myndinni er sögð saga Austurríkismannsins Franz Jägerstätter sem neitaði að berjast fyrir þriðja ríkið og var tekinn af lífi 1943. Myndin er sú síðasta sem bæði Michael Nyqvist og Bruno Ganz léku í.

Parasite í leikstjórn Suður-Kóreumannsins Bong Joon-ho sem gerði bæði Okja og Snowpiercer. Í þessari nýju mynd segir hann sögu fátækrar fjölskyldu og hvernig líf hennar breytist eftir að sonurinn fer að kenna dóttur auðugs iðnjöfurs.

Matthias & Maxime sem skrifuð er, leikstýrt og leikin af Xavier Dolan. Í myndinni er fjallað um líf ungs fólks í Quebec. 

The Traitor í leikstjórn Marco Bellocchio, myndin er sögð saga Tommaso Buscetta, en hann var lyk­il­vitni í einu stærsta sakamáli gegn sikileysku mafíunni en það tengdist guðföðurnum Tota Ri­ina. Brasilíska leikkonan og fyrirsætan Maria Fernanda Candido fer með hlutverk þriðju eiginkonu Tommaso Buscetta sem fékk hann til þess að ljóstra upp um mafíuna og glæpi hennar. 

Young Ahmed í leikstjórn belgísku bræðranna Jean-Pierre og Luc Dardenne sem hafa í þrígang hampað Gullpálmanum. Í myndinni er fjallað um ungling sem er heillaður af öfgaheimi íslamista. 

Dolor y gloria (Pain & Glory) í leikstjórn Pedro Almodóvar sem fékk undanþágu frá reglunni um heimsfrumsýningu í Cannes en um er að ræða persónulegustu mynd spænska leikstjórans. Myndin var frumsýnd á Spáni og Mexíkó í mars. Í myndinni fer Antonio Banderas með hlutverk rithöfundar og Penelope Cruz leikur móður hans. Myndin hefur slegið öll aðsóknarmet á Spáni. 

Nighthawk í leikstjórn Kleber Mendonça Filho og Juliano Dornelles.  Í myndinni er fjallað um undarlega atburði sem eiga sér stað í þorpinu Bacurau í Brasilíu. 

Mektoub, My Love: Intermezzo í leikstjórn Abdellatif Kechiche sem er önnur myndin í þríleik hans sem gerist í heimabæ leikstjórans Séte. Kechiche er meðal annars þekktur fyrir mynd sína Blue is the Warmest Colour.

Portrait de la jeune fille en feu (Portrait of a Young Lady on Fire) í leikstjórn Céline Sciamm fjallar um myndlistarkonu sem er að mála mynd af ungri konu á átjándu öld sem er að fara að ganga í hjónaband. Adèle Haenel, Noémie Merlant og Valeria Golino fara með helstu hlutverk.

The Wild Goose Lake í leikstjórn Diao Yinan sem hlaut Gullbjörninn í Berlín 2014 fyrir myndina Black Coal, Thin Ice. Þessi mynd er líkt og sú mynd spennumynd og eina kínverska myndin í keppninni í ár. 

Oh Mercy! er í leikstjórn Frakkans Arnaud Desplechin en myndin gerist í heimabæ hans Roubaix. Helstu hlutverk eru í höndum Roschdy Zem, Lea Seydoux og Sara Forestier.

Little Joe í leikstjórn Jessica Hausner gerist í framtíðinni og fjallar um áhrif erfðabreytinga. Ben Whishaw og Emily Beecham fara með helstu hlutverk í myndinni.

Les Misérables í leikstjórn Ladj Ly en þetta er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Myndin byggir á stuttmynd sem hann gerði í uppþotunum í París árið 2005.

It Must Be Heaven í leikstjórn Elia Suleiman en hann ferðaðist víða til þess að finna fólk sem býr í útlegð frá heimalandinu, Palestínu.

Frankie í leikstjórn Ira Sachs með Isabelle Huppert, Brendan Gleeson og Marisa Tomei í helstu hlutverkum. Myndin fjallar um þrjár kynslóðir í flókinni fjölskyldu.

The Whistlers í leikstjórn Corneliu Porumboiu segir frá rannsóknarlögreglumanni að elta glæpamann á flótta. 

Atlantics í leikstjórn Mati Diop, sem er leikkona í Frakklandi, en myndin er tekin í fæðingarlandi foreldra hennar, Senegal. 

Sibyl sem Justine Triet leikstýrir. Þar er fjallað um útbrunninn geðlækni sem vinnur með taugaveiklaðri ungri leikkonu. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant