George Clooney og Catch-22

Bandaríski leikarinn og leikstjórinn George Clooney lét sig ekki vanta á frumsýningu þáttaraðarinnar Catch-22 í Róm í gær. 

Clooney framleiðir þáttaröðina, leikstýrir fyrstu tveimur þáttunum og leikur einnig hlutverk í þáttaröðinni sem byggir á bókinni þekktu eftir Joseph Heller. Alls eru þættirnir sex talsins. 

Vísindavefurinn segir svo um Catch-22:

„Catch-22” er orðatiltæki sem merkir ástand sem er ómögulegt að vinna sig út úr, hve mikið sem maður reynir; svipað íslenska orðinu 'sjálfhelda'. Orðatiltækið dregur nafn sitt af samnefndri bók, eftir bandaríska rithöfundinn Joseph Heller (1923-1999). Bókin vakti athygli hjá ungu fólki sem dýrkaði umdeilt og undarlegt innihald bókarinnar. Auk þess bættist þetta gagnlega orðtak við mörg tungumál. Bókin naut vinsælda þegar hún var gefin út árið 1961, þótt gagnrýnendur bæði lofuðu og löstuðu hana. Árið 1970 var gerð kvikmynd um efnið.

Bókin er fjarstæðukennd og háðsk skáldsaga um síðari heimsstyrjöldina. Fjölmörg spaugileg atriði og fáránlegar ýkjur einkenna hana og sýna fram á brjálsemi stríðsins. Einnig kemur aðalefnið í ljós; það hvernig stríðið gerir manninn tilfinningalausan. Sumir vilja líka meina að bókin fjalli um þjóðfélag samtímans eða bandaríska þjóðfélagið um miðja þessa öld, og óbærilegt skrifstofuveldi þess.“

Svo segir: „Atburðirnir í bókinni gerast á eyju í Miðjarðarhafinu þar sem flugvélasveit frá bandaríska hernum er staðsett. Aðalpersóna sögunnar er flugmaðurinn Yossarian, sem er fullur af ótta við að deyja í martraðarheimi stríðsins. Hann sér brjálsemi, ósannindi og blekkingar í skrifstofuveldi stríðsins sem flestir kjósa að leiða hjá sér. Niðurstaða hans er að allir vilji í raun og veru drepa hann, ekki bara óvinurinn. Yfirmenn hans eru alveg eins fúsir að senda hann í dauðann og hinir.

Sjálfum sér til vegsauka fjölgar Cathcart ofursti stöðugt þeim flugferðum sem mennirnir þurfa að fara í áður en þeir geta farið heim. Yossarian læst vera veikur á líkama eða sál (geðveikur) og vonast til þess að hann verður settur í flugbann. Og það er hér sem Catch-22 kemur inn og flækir málið fyrir Yossarian.

Catch-22 er dularfull regla þess efnis að litið er á þá sem halda áfram að fljúga hættuleg árásarflug eins og þeir séu orðnir geðveikir. En fari menn að biðja um lausn frá störfum telst það sanna, að þeir eru nógu skynsamir til að geta haldið áfram að berjast. „Þeir sem vilja hætta að berjast eru í rauninni ekki geðveikir,” segir læknirinn hans. Svo tilraunir Yossarians eru vonlausar. Til að komast undan þessum reglum reynir Yossarian loks að flýja til Svíþjóðar þar sem ríkti friður og frelsi á þessum tíma.“

mbl.is