Heiðraður fyrir leik ekki framkomu

Leikarinn Alain Delon.
Leikarinn Alain Delon. AFP

Heiðra á franska leikarann Alain Delon á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem hefst í dag. Ákvörðunin er harðlega gagnrýnd en hann hefur verið sakaður um ofbeldi gagnvart konum.

Baráttusamtök fyrir kynjajafnrétti og fjölbreytni í Hollywood, Women and Hollywood, hafa meðal annars gagnrýnt þetta harðlega og segja ömurlegt að hann hljóti heiðursverðlaun hátíðarinnar í ár.  

Í fyrra hétu stjórnendur Cannes-hátíðarinnar að kynferðislegri áreitni yrði úthýst og misnotkun af hvaða tagi sem er en líkt og frægt er stóðu yfir áttatíu Hollwood-stjörnur og leikstjórar fyrir mótmælum á rauða dreglinum í fyrra. 

Á netinu fer fram söfnun undirskrifta um að hætt verði við að veita Delon verðlaunin og þar segir um leikarann sem er orðinn 83 ára gamall að hann sé rasisti sem sé kvenhatari og um leið hatist hann við samkynhneigða.

En ákvörðun um að heiðra Delon er ekki eina álitamálið því svipað var uppi á teningnum þegar dómnefndin valdi nýja mynd fransk-túníska leikstjórans, Abdellatif Kechiche, í keppnina um Gullpálmann þrátt fyrir að lögreglan rannsaki nú hvort hann hafi beitt unga leikkonu kynferðislegu ofbeldi. Kechiche neitar sök.

Stofnandi Women and Hollywood, Melissa Silverstein, skrifar á Twitter að henni sé ofboðið yfir ákvörðun hátíðarinnar um að heiðra Delon sem hefur opinberlega viðurkennt að slá konur utan undir og samkynhneigð brjóti gegn lögmálum náttúrunnar.

Hún segir að Delon hafi skipað sér við hlið rasista og gyðingahatara innan vébanda Front National en stofandi stjórnmálaflokksins, Jean-Marie Le Pen, hefur verið vinur Delon alla ævi. 

Delon viðurkenndi í nóvember þegar hann var í viðtali í franska sjónvarpinu að hafa slegið konur. Í þættinum var hann spurður út í ummæli sonar hans, Alain-Fabien Delon, sem sakar föður sinn um heimilisofbeldi. „Ef löðrungur telst karlremba þá er ég karlrema,“ og bætti við að konur hafi slegið hann og hann hafi aldrei beinbrotið konu.

Að sögn Alain-Fabien Delon beitti Delon móður hans ofbeldi á heimilinu og meðal annars hafi hann í tvígang nefbrotið hana og brotið í henni átta rifbein.

Annar sonur hans, Anthony Delon, greindi frá því á Instagram fyrr í mánuðinum að hann hafi verið lokaður inni í búri með hundum þegar hann var barn. Ástæðan var sú að faðir hans vildi herða hann.

En framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, Thierry Fremaux, kom Delon til varnar í gærkvöldi með því að segja að Delon væri heiðraður fyrir feril sinn í kvikmyndum ekki hugmyndir hans. „Alain Delon má hugsa það sem honum sýnist,“ sagði Fremaux í samtali við AFP.

„Ég tel rétt að við stígum eitt skref aftur á bak. Þegar hann segir eitt og annað hér og þar þá hættir okkur til að alhæfa og rugla saman,“ bætti hann við.

Viðhorf fólks hafi breyst í gegnum tíðina og það sé allt annað sem þótti sjálfsagt hér áður en í dag. „Við erum ekki að veita honum Nóbelsverðlaunin,“ segir Fremaux. Tekur hann þar svipað til orða og formaður dómnefndarinnar  gerði í fyrra: 

Dóm­nefnd­in í Cann­es lét­ það ekki trufla starf sitt að rússnesk yfirvöld heimiluðu ekki rússneskum leikstjóra að fara á hátíðina og aðspurð sagði Kate Blanchett að mynd­irn­ar verði dæmd­ar út frá list­rænu sjón­ar­horni ekki póli­tísk­um upp­runa. „Þetta eru ekki friðar­verðlaun Nó­bels. Þetta er Palme d'Or," sagði hún í viðtali við AFP. 

Um 18 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að veita Delon ekki verðlaunin á vefnum Care2. Delon fær verðlaunin afhent á sunnudag og hefur stórri mynd af honum úr myndinni Plein Soleil frá árinu 1960 verið komið upp fyrir ofan við rauða dregilinn. Í myndinni lék Delon ótrúlega myndarlegan fjöldamorðingja.

Abdellatif Kechiche.
Abdellatif Kechiche. AFP

Fremaux neitaði að ræða mál Kechiche, sem hlaut Gullpálmann árið 2013 fyrir myndina Blue Is the Warmest Colour við fréttamann AFP en heimildir fréttastofunnar herma að lögreglan rannsaki enn ásakanir á hendur honum af hálfu 29 ára gamallar leikkonu. Hún kærði leikstjórann í október en hún segist hafa vaknað upp við að hann væri að nauðga henni eftir kvöldverðarboð í París í júní í fyrra. Kechiche hefur ekki verið yfirheyrður í tengslum við málið en lögmenn hans segja ekkert hæft í ásökunum konunnar. 

Fjögurra klukkutíma löng mynd Kechiche, Mektoub, My Love: Intermezzo, er ein 21 mynda sem keppa um Gullpálmann í ár. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem konur kvarta undan framkomu hans en tvær aðalstjörnur myndarinnar Blue Is the Warmest Colour, Lea Seydoux og Adele Exarchopoulos, kvörtuðu undan hegðun Kechiche's í þeirra garð.

Síðar sagðist Seydoux vera stolt af myndinni og hún hafi kunnað virkilega vel við hann sem leikstjóra. Engu skipti hvernig hann kom fram við þau sem unnu að gerð myndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant