Hatari er árið 2027

William Lee Adams í blaðamannahöllinni í Tel Aviv.
William Lee Adams í blaðamannahöllinni í Tel Aviv. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Íslenska atriðið er líklega mitt uppáhalds í ár,“ segir William Lee Adams, stofnandi og ritstjóri vefjarins Wiwibloggs, í samtali við mbl.is. Vefurinn fjallar um Eurovision en Adams telur að nokkur lög geti unnið keppnina í ár.

Adams skiptir lögunum í tvo hópa. Annars vegar eru það lögin sem hann telur líklegt að vinni og hins vegar lög, eða lag, sem hann vill að vinni en er ekki viss um að geti það.

„Holland á bestan möguleika eins og staðan er núna. Lagið er mjög útvarpsvænt og rödd Duncan Laurence hljómar eins og hann sé bandarísk poppstjarna,“ segir Adams en veðbankar telja framlag Hollendinga, „Arcade“, sigurstranglegast í ár.

Adams nefnir einnig Frakkland og Rússland sem sigurstrangleg í keppninni. 

Rússneskt sjarmatröll

„Sergey Lazarev er sjarmatröll,“ segir Adams en Lazarev er að taka þátt í annað sinn á fjórum árum fyrir Rússland. Laginu „Scream“ er spáð góðu gengi og Adams telur atriðið frábært á sviði.

„Þeir sem greiða atkvæði í austurhluta Evrópu er hrifnir af drama eins og hann býður upp á. Það má heldur ekki gleyma því að hann er stjórnstjarna hjá rússneskumælandi og það fólk mun kjósa Rússland.“

Klemens Hannigan, annar söngvara Hatara, á blaðamannafundi eftir undanriðilinn á ...
Klemens Hannigan, annar söngvara Hatara, á blaðamannafundi eftir undanriðilinn á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ísland myndi halda frábæra keppni“

Þegar Adams er beðinn um að nefna lög sem hann er hrifinn af en telur ólíklegri sigurvegara nefnir hann sitt uppáhalds atriði; Hatara. „Þeir eru svo einstakir og öðruvísi. Vandamálið fyrir þá er að þeir eru ef til vill á undan sinni samtíð. Hatari er árið 2027 en árið er 2019,“ segir Adams og heldur áfram:

„Ég elska þá og held að Ísland myndi halda frábæra keppni. Margir Eurovision-aðdáendur vilja að Ísland vinni. Þið hafið verið nálægt því áður, eins og þegar Jóhanna Guðrún og Selma lentu í öðru sæti. Við erum öll að bíða. Ég vil að Hatari vinni. Ég held að Hatari kveiki í mörgum en ég held líka að margir hrífist ekki með.“

Adams bendir á að einhverjir hafi líkt Hatara við Lordi frá Finnlandi sem vann Eurovision árið 2006. „Þeir voru hræðileg skrímsli en allir vissu að það voru grímur og gervi. Liðsmenn Hatara leika hlutverk sitt hins vegar svo vel að maður trúir því að þetta sé í alvöru. Ef þú áttar þig ekki á brandaranum gætirðu orðið smeykur,“ segir Adams og bætir því við að lag Hatara krefjist þess að fólk hugsi.

Falleg skilaboð, skreytt í leður

Hann segir að margir átti sig ekki á því að lagið sé um hvað gæti gerst ef við erum ekki vakandi. „Það er synd því þetta eru falleg skilaboð, skreytt í leður. Ég er ánægður að þeir syngja á íslensku og það gerir það líka sérstakt því fólk hugsar með sér: „hvað eru þeir að segja?““ segir Adams og hlær.

Adams er fljótur að slá áhyggjur blaðamanns af borðinu þess efnis að veðurfar á Íslandi um miðjan maí henti ekki Eurovision-keppni. „Við viljum fara til landsins hennar Bjarkar. Fólk heyrir mikið um Ísland en veit lítið,“ segir Adams og bætir við að margir viti bara um hrunið og Eyjafjallajökul.

„Við þurfum að sjá meira af landinu.“

mbl.is