Simon Le Bon sagði nafnið mitt!

Simon Le Bon, söngvari Duran Duran.
Simon Le Bon, söngvari Duran Duran.

Áratugalangur draumur blaðakonu Morgunblaðsins rættist þegar hún tók viðtal við Simon Le Bon, söngvara Duran Duran. Le Bon er fullur tilhlökkunar yfir fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar hér á landi í júní og í viðtalinu sem birt verður í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræðir hann um tónlistina, vináttuna, gleðina, ferilinn og ótal margt annað.

Umræddur Duran Duran aðdáandi á fyrri hluta 9. áratugarins þegar …
Umræddur Duran Duran aðdáandi á fyrri hluta 9. áratugarins þegar samtal við Simon Le Bon var fjarlægur draumur. Þetta var glaðlegasta myndin í myndaalbúminu!

Árið er 1983. Ólánlegt unglingsgrey liggur í fleti og nennir fáu. Í kassettutækinu snýst snælda með upptökum úr Lögum unga fólksins. Það eina sem letipúkinn í rúminu nennir að gera er að teygja höndina að kassettutækinu til að ýta á takkann til að spóla til baka þegar laginu lýkur. Að hlusta á sama lagið aftur og aftur er best í heimi. Já, og fletta nýjasta Bravo-blaðinu þar sem hljómsveit, skipuð fimm Bretum frá Birmingham, prýðir allflestar síðurnar.

Á nánast hverjum degi birtust lesendabréf í Morgunblaðinu frá aðdáendum …
Á nánast hverjum degi birtust lesendabréf í Morgunblaðinu frá aðdáendum Duran Duran sem skoruðu á stjórnendur Listahátíðar að fá sveitina á hátíðina

Hljómsveitin heitir Duran Duran og lagið er Hungry Like the Wolf. Veggina prýða plaköt og myndir sem hafa verið klipptar út úr Bravo-blöðum, á einu plakatinu stendur Simon Le Bon söngvari sveitarinnar fremstur í hópi félaga sinna, hvítklæddur, í bláröndóttum bol. Gleiður með krosslagða arma, með blásið hár, sítt að aftan og rautt ennisband horfir hann tregafullum augum beint inn í unglingaherbergið í Norðurbænum í Hafnarfirði.

Um hugann reika djúpar hugsanir: Hvað getur maður spólað svona snældu oft til baka þangað til hún slitnar? Hvað ætli Simon Le Bon sé að gera núna? Hvað myndi ég segja við hann ef ég myndi einhverntímann fá tækifæri til þess að tala við hann? Hvar endar alheimurinn? (Síðasta setningin er sett hér inn til að fegra hlut viðkomandi ungmennis sem á þessu stigi lífsins leiddi aldrei hugann að stóru spurningunum í lífinu).

36 árum síðar

Árið er 2019. Viltu taka símaviðtal við Simon Le Bon?  spyr Orri Páll Ormarsson vinnufélagi minn á Morgunblaðinu. Ehhhh.. voru fyrstu viðbrögð. Síðan: Ertu að djóka í mér? Eftir að hafa fengið fullvissu frá Orra um að ekki væri um spott og spé að ræða, heldur væri þetta tilboð borið fram í fullri alvöru, Sunnudagsblaði Morgunblaðsins hefði verið boðið að taka einkaviðtal við Le Bon og hann vissi að ég hefði talsvert dálæti á Duran Duran, þáði ég boðið með þökkum.

En ekki hvað.

Duran Duran. Hljómsveitin hefur starfað frá árinu 1978. Simon Le …
Duran Duran. Hljómsveitin hefur starfað frá árinu 1978. Simon Le Bon gekk til liðs við sveitina árið 1980.

Því að þegar tækifæri gefast til að láta draumana rætast þá grípur maður þau. Með báðum höndum. Og fyrir nokkrum dögum rættist áratugalangur draumur minn sem var að tala við einhvern í Duran Duran, helst Simon Le Bon. (Að tala við einhvern sem hefði talað við einhvern í Duran Duran hefði svosem verið nóg).

Viðtalið var tekið í tilefni þess að Duran Duran mun halda tónleika í Laugardalshöll 25. júní næstkomandi. Það verður í annað sinn sem sveitin heldur tónleika hér á landi, það fyrra var í Egilshöll árið 2005.

Reynslubolti í bransanum

Simon Le Bon er eldri en tvívetur í bransanum. Hann gekk til liðs við Duran Duran árið 1980 en sveitin hafði þá verið starfandi í tvö ár. Fyrsta platan kom út ári síðar og skaut sveitinni samstundis upp á stjörnuhimininn þar sem hún hefur haft aðsetur síðan, reyndar mishátt á himinskautinu. Gera má því skóna að hann hafi veitt tugþúsundir viðtala á þessum tæplega 40 ára langa ferli og því átti blaðamaður frekar von á því að viðtalið yrði í fremur föstum skorðum og að svör stjörnunnar yrðu stöðluð og æfð.

... Að lokum viljum við senda öllum Duran Duran aðdáendum …
... Að lokum viljum við senda öllum Duran Duran aðdáendum frábærar Duran Duran kveðjur..... Úr lesendabréfi í Morgunblaðinu 6. mars 1984.

En annað kom á daginn. Ég byrjaði á því að kynna mig og spyrja hvort ég væri að tala við herra Le Bon. „Já, svo sannarlega ertu að því,“ svaraði fjörleg rödd á hinum enda línunnar.

„Og hvernig hefurðu það svo í dag?“ var næsta spurning blaðamanns sem reyndi af alefli að muna helstu kurteisisreglur um leið og hjartað barðist ótt og títt. 

Er ég í alvörunni að tala við hann? Getur þetta verið?

„Ég hef það alveg frábært,“ svaraði Simon. „Mikið er gaman að tala við þig á svona fallegum degi Anna.“

Simon Le Bon sagði nafnið mitt!

Heldurðu með Duran Duran eða Wham?

Samtalið hélt síðan áfram og í nokkuð lengri tíma en ég hafði fengið úthlutað frá almannatengslafyrirtæki Duran Duran. Við töluðum um feril hans, um stemninguna á 9. áratugnum þegar Duran Duran raðaði lögum sínum í efstu sæti vinsældalista um allan heim, við töluðum um tónleikana sem til stendur að halda á Íslandi og hvort hann hyggi á að dveljast á landinu í tengslum við þá.

Við töluðum um hvernig Simon hefur tekist að viðhalda gleðinni og áhuganum á tónlistinni í gegnum öll þessi ár, við töluðum um líf rokkstjörnunnar og vinskapinn og virðinguna sem einkennir samstarf hans og félaga hans í Duran Duran; þeirra John Taylor, Nick Rhodes og Roger Taylor.

Einu sinni var... Duran Duran snemma á 9. áratugnum. Einn …
Einu sinni var... Duran Duran snemma á 9. áratugnum. Einn þeirra sem sést á myndinni er hættur í sveitinni, Andy Taylor.

Og svo sagði ég honum frá því þegar íslenskir unglingar skiptust í tvær fylkingar og voru annaðhvort Duran Duran aðdáendur eða Wham. Það þótti honum stórmerkilegt. Honum þótti ekki síður merkilegt þegar ég sagði honum að sumir skilgreini sig ennþá á þennan hátt, áratugum síðar.

Aðdáendur Duran Duran blésu til hátíðar á unglingaskemmtistaðnum Traffic í …
Aðdáendur Duran Duran blésu til hátíðar á unglingaskemmtistaðnum Traffic í janúar 1985.
Aðdáendur Wham létu sitt ekki eftir liggja og boðuðu til …
Aðdáendur Wham létu sitt ekki eftir liggja og boðuðu til Wham hátíðar skömmu eftir Duran Duran hátíðina.

„Hvorri hljómsveitinni fylgdir þú?“ spurði hann spenntur.

Lesendur mega giska á svarið. 

Stórskemmtilegt einkaviðtal við Simon Le Bon verður í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.