Miklu, miklu meira en bara kvikmynd

Ingvar E. Sig­urðsson fer með aðal­hlut­verk í Hvít­um, hvít­um degi …
Ingvar E. Sig­urðsson fer með aðal­hlut­verk í Hvít­um, hvít­um degi ásamt Ídu Mekkín Hlyns­dótt­ur ljósmynd/Pierre Caudevelle

„Að fá verðlaun hér er stórkostlegur heiður,“ segir Ingvar E. Sigurðsson við mbl.is. Hann hlaut í dag verðlaun sem besti leik­ar­inn á Critics‘ Week, einni af hliðardag­skrám Cann­es kvik­mynda­hátíðar­inn­ar, sem fram fer þessa dag­ana.

Kvik­mynd­in Hvít­ur, hvít­ur dag­ur, nýj­asta kvik­mynd leik­stjór­ans og hand­rits­höf­und­ar­ins Hlyns Pálm­ars­son­ar, var heims­frum­sýnd á Critics‘ Week og er hún ein af sjö mynd­un­um sem valda voru í keppni á hliðarviðburðinum.

Ingvar bendir á að Cannes hátíðin sé stærsta kvikmyndahátíð í heimi og það sé rosalegt afrek að komast inn á dagskrá þar, þó um sé að ræða hliðardagskrá. Ingvar segir það mikinn heiður fyrir Íslendinga að vinna til verðlauna í Cannes annað árið í röð en í fyrra vann Kona fer í stríð til verðlauna á Critics‘ Week.

Ingvar túlkar lög­reglu­stjór­ann Ingi­mund sem hef­ur verið í starfs­leyfi frá því að eig­in­kona hans lést óvænt af slys­för­um. Í sorg­inni ein­beit­ir hann sér að því að byggja hús fyr­ir dótt­ur sína og afa­st­elpu, þar til at­hygli hans bein­ist að manni sem hann grun­ar að hafi átt í ást­ar­sam­bandi við konu sína. Fljót­lega breyt­ist grun­ur Ingi­mund­ar í þrá­hyggju og leiðir hann til rót­tækra gjörða sem óhjá­kvæmi­lega bitn­ar einnig á þeim sem standa hon­um næst. 

Hlynur risastórt kvikmyndaskáld

„Ég er búinn að fá karakterinn inn í hjartað í fimm ár en Hlynur skrifaði þetta með mig í huga. Karakterinn er búinn að lifa með mér lengi,“ segir Ingvar.

„Ég vann með Hlyni í útskriftarverkefninu hans úr Kvikmyndaskólanum og þá áttaði ég mig fljótlega á því að ég var að vinna með manni sem er ekki bara kvikmyndagerðarmaður, hann er meira. Hann er risastórt kvikmyndaskáld,“ segir Ingvar og bætir við að það komi berlega í ljós því myndin sé einstök:

„Þetta er ekki bara kvikmynd, þetta er miklu, miklu meira en það.“

Spurður hverju íslenskir áhorfendur megi búast við þegar myndin verður frumsýnd hér á landi 5. september segir Ingvar að myndin sé á alveg sérstökum stað. „Ekki bara á íslensku vísu heldur, finnst mér, á heimsvísu. Margir hafa talað um það hérna og viðbrögðin við myndinni eru svo sterk.“

Er í raun og veru atvinnulaus

Ingvar mun fylgja myndinni eftir á næstunni en segir að öðru leyti sé framtíðin opin. „Það mætti segja að ég sé atvinnulaus. Það er í raun þannig að ég veit ekki hvað er framundan en ég treysti þvi að það komi eitthvað.“

Blaðamaður getur ekki sleppt Ingvari án þess að spyrja hann hvað verði um Ásgeir; lögreglumanninn geðþekka úr Ófærð:

„Elsku kallinn hann Ásgeir. Ég bara veit það ekki. Hann er dáinn. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni, það er ekki hægt að lífga hann beint við en það væri hægt að segja sögur af honum áður en hann dó og gera eitthvað úr því. Við höfðum aðeins verið að ræða þetta en ég veit ekki hvað verður.“

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur á þér að eitthvað er í uppsiglingu milli þín og ástvinar þíns. Samúð og varúð, eru við hæfi.