Var farin að ímynda mér það versta

Dansararnir Sólbjört Sigurðardóttir og Ástrós Guðjónsdóttir.
Dansararnir Sólbjört Sigurðardóttir og Ástrós Guðjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það ríkti aldrei nein óeining innan Hatara. Við vorum öll á sömu blaðsíðu, jafnvel þó ég hafi verið hrædd eftir þetta,“ segir Sólbjört Sigurðardóttir, dansari Hatara. Greint var frá óeiningu innan hópsins og sagt að ekki hafi allir vitað af því að ætlunin væri að veifa palestínska fánanum á Eurovision en Sólbjört segir það af og frá.

Sólbjört lýsir því að allir í hópnum hafi vitað að klútarnir yrðu teknir með í höllina á úrslitakvöldið. „Við vorum aðeins búin að ræða hvað við myndum gera en vissum ekkert hversu langt við myndum ná,“ segir Sólbjört.

Eins og Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara Hatara, lýsti í Kastljósi í gær var hljómsveitinni ljóst að hún myndi ekki vinna keppnina eftir atkvæði dómnefndar. Hins vegar sá hópurinn að tökumenn stilltu sér upp hjá þeim sem fengu mun fleiri stig úr atkvæðagreiðslu almennings en þau höfðu fengið frá dómurum.

Tökumaður kom til þeirra, benti á myndavélina og klútarnir voru dregnir upp. „Þegar við fórum úr mynd komu ógnandi öryggisverðir sem kröfðust þess að við myndum láta þá fá klútana. Þá varð ég frekar hrædd. Einar gaf ekki sinn klút til baka og var farinn að taka upp. Ég sá alveg í hvað stefndi og var orðin mjög hrædd og farin að ímynda mér það versta,“ segir Sólbjört.

Hatari á sviðinu í Tel Aviv.
Hatari á sviðinu í Tel Aviv. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hótað öllu illu

Eftir það sagði Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, að þau skyldu drífa sig í búningsherbergið. Þeim var neitað um inngöngu öðru megin í búningsherbergið og sagt að fara inn á öðrum stað. „Þá fór ég að sjá fyrir mér enn verri hluti og hugsaði að við kæmumst aldrei inn í búningsherbergi og yrðum líklega handtekin,“ segir Sólbjört og bætir við að viðbrögð fólks á þessum tímapunkti hafi verið misjöfn:

„Fólk öskraði á eftir okkur í bland við aðra sem hrósuðu okkur. Þegar við komum í búningsherbergið voru aðrir keppendur mjög jákvæðir í okkar garð. Ég var í mjög miklu uppnámi, kveikti á símanum og sá að það komu inn skilaboð á Whats app hjá mér. Þar voru skilaboð með skjáskotum af dóttur minni, mér hótað öllu illu og fólk að óska þess að ég myndi deyja á Gaza.“

Inni í búningsherberginu fann Einar ekki veskið sitt, sem innihélt meðal annars vegabréf, og Sólbjört hélt áfram að stressast upp. „Ég fékk kannski eitthvert smá taugaáfall eða eitthvað. Það hafði auðvitað mikið gengið á og allt magnaðist upp.“

Hatari á rauða dreglinum fyrir Eurovision.
Hatari á rauða dreglinum fyrir Eurovision. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ánægð að þau hafi látið verða af þessu

Við komuna til baka á hótelið hitti Sólbjört föður sinn og tengdaforeldra. Hún var í miklu uppnámi en fjölmiðlafólk heyrði hana segja að hún hefði ekki samþykkt þetta.

„Þegar maður er í uppnámi segir maður hluti sem maður meinar ekki,“ segir Sólbjört og ítrekar að það hafi aldrei verið nein óeining innan Hatara. 

„Ég sagði bara „ég er mjög hrædd, mig langar upp á hótel.“ Ég vissi af þessu og er ótrúlega ánægð að við höfum haft hugrekki til að gera þetta,“ segir Sólbjört sem er ánægð með að vera komin heim eftir viðburðaríka ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson