Vonin og reiðin skullu saman

Vigdís Hafliðadóttir sést hér ræða við konu í minningarathöfninni.
Vigdís Hafliðadóttir sést hér ræða við konu í minningarathöfninni. Skjáskot/Youtube

„Maður fann alltaf inn á milli hvað þetta var fallegt,“ segir Vigdís Hafliðadóttir, fjölmiðlakona Iceland Music News, í samtali við mbl.is, um það þegar hópurinn sótti sameiginlega minningarathöfn fallinna Ísraela og Palestínumanna í Tel Aviv 7. maí.

Iceland Music News fylgdi Hatara eftir í kringum Eurovision, auk þess sem þau reyndu að kynna sér aðstæður Ísraela og Palestínumanna. Athöfnin var haldin í garði rétt við Expo-höllina, þar sem Eurovision-keppnin var haldin, en viðburðurinn hefur verið haldinn frá árinu 2006.

Vigdís segir að Iceland Music News hafi frétt af athöfninni þar sem þau undirbjuggu sig fyrir förina til Tel Aviv. Þau hlustuðu á hlaðvarpsþátt þar sem rætt var við ísraelska konu, sem hafði misst son sinn, og palestínskan mann, sem hafði misst bróður sinn. Fólkið hafði síðan unnið saman að því að gera öðrum ljóst að fórnarlömbin eru í báðum fylkingum.

Fjallað er um för Vigdísar og félaga á minningarathöfnina í myndskeiði. Talið er að um níu þúsund hafi mætt í ár, þar af um hundrað Palestínumenn. Um 80 Palestínumenn höfðu boðað komu sína á mótmælin en fengu ekki leyfi til að koma yfir landamærin.

Á leiðinni á viðburðinn hittum við stelpu og fundum strax fyrir sterkri vonartilfinningu. Það var frábært að sjá svona unga stelpu sem sagði að viðburðurinn væri mjög einstakur og það væri mjög gott að mæta,“ segir Vigdís.

Flestir mótmælendur ungir karlmenn

Hins vegar hafi vonleysið skollið á þeim þegar þau mættu hópi mótmælenda. „Í myndbandinu sést maður sem kemur að okkur og segir okkur að drepa okkur. Stelpan sem við erum að tala við er slegin út af laginu. Þarna fannst mér þetta skella saman vonin og reiðin,“ segir Vigdís en hún telur að flestir mótmælenda hafi verið ungir karlmenn.

Hún segir að togstreitan á staðnum hafi verið mikil. Ræðuhöld og tónlistaratriði hafi verið falleg en ákveðin spenna verið í loftinu. Ungur maður sem stöðvaði Vigdísi áður en hún fór í öryggisleit sagði henni að það væri ekki við hæfi að halda þennan viðburð á þessum degi; þetta væri dagur fallinna hermanna.

Ekki fyrir „þau“

„Hann sagði að þetta ætti að ekki að vera fyrir þau, þau væru hryðjuverkamenn og að hans fólk hefði dáið út af þeim,“ segir Vigdís og augljóst er að „þau“ eru Palestínumenn. 

Vigdís segir að þrátt fyrir reiði mótmælenda hafi þau ekki óttast um öryggi sitt inni á viðburðinum sjálfum. „Undir lokin var þetta farið að leysast upp og þá kom fólk meira upp að okkur. Gæslan var líka farin og þá hugsuðum við með okkur að það væri best að hóa í leigubíl.“

Hún sagðist hafa séð fulltrúa ólíkra hliða á viðburðinum. Ísraela sem segist vilja frið en hafna því að hernám sé í gangi. Ísraela sem geri sér grein fyrir ástandinu og sjái Palestínumenn sem fólk, ekki þennan hræðilega óvin. Ekki eigi þó að gera of mikið úr hlut mótmælenda. Þeir hafi kannski verið um 150 en níu þúsund manns hafi verið á staðnum í þeim tilgangi að rétta fram sáttahönd.

Aðgerðir á úrslitakvöldinu komu ekki á óvart

Það er ekki hægt að sleppa Vigdísi úr símanum án þess að spyrja hana út í ferðina til Ramallah þar sem Iceland Music News keypti borðana sem liðsmenn Hatara veifuðu í atkvæðagreiðslu Eurovision á úrslitakvöldinu.

Hún vill ekki tjá sig um það þegar borðarnir voru keyptir en segir aðgerðir Hatara á úrslitakvöldinu ekki óvæntar. „Þetta kom ekki á óvart eftir að hafa fylgst með því hvert þau fóru og hvernig orðræða þeirra hefur verið. Ég held að ekkert þeirra hefði verið sátt við sjálft sig ef þau hefðu ekkert gert.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson