„Númer tvö“ er fimmtugur í dag

Í fullum skrúða. Jóakim er ofursti í danska hernum.
Í fullum skrúða. Jóakim er ofursti í danska hernum. Kongehuset.dk/Kamilla Bryndum

„Ég var rúmlega þriggja ára þegar ég áttaði mig á því að við vorum ekki eins og venjuleg fjölskylda. En lítil börn geta aðlagast hverju sem er.“ Svona rifjar Jóakim Danaprins, yngri sonur Margrétar Danadrottningar, sem fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag það upp þegar það rann upp fyrir honum að hann væri prins og að líf hans myndi alla tíð markast af því.

Ummælin lét prinsinn, sem Danir kalla gjarnan Jokke, falla í veglegu afmælisviðtali í nýjasta tölublaði danska tímaritsins Billedbladet undir fyrirsögninni „Joachim taler ud“ eða Jóakim leysir frá skjóðunni. Allflestir danskir fjölmiðlar birta í dag viðtöl við prinsinn eða umfjallanir um hann í tilefni afmælisins, en veisluhöld eru fremur lágstemmd; prinsinn býður fjölskyldu og nánum vinum til veislu í höll Kristjáns 7. í  Amalíuborgarhöll í kvöld og verður fjölmiðlum meinaður aðgangur.

Jóakim Danaprins, eða Jokke eins og landar hans kalla hann …
Jóakim Danaprins, eða Jokke eins og landar hans kalla hann stundum, er fimmtugur í dag. Kongehuset.dk/Steen Brogaard

Að sjálfsögðu er þó flaggað á opinberum byggingum og á strætisvögnum í Danmörku eins og venjan er á hátíðisdögum í lífi meðlima konungsfjölskyldunnar og í afmælisgjöf fékk hann tónleika sem haldnir voru síðastliðinn þriðjudag þar sem flutt var fjölbreytt tónlist eða allt frá drengjakór til vinsællar popptónlistar. Selt var inn á tónleikana sem voru opnir almenningi og ákvað prinsinn að ágóðinn færi til samtaka sjúkrahústrúða, sem fara á milli sjúkrahúsa í Danmörku og skemmta veikum börnum.

Jóakim og eiginkona hans, Marie.
Jóakim og eiginkona hans, Marie. Kongehuset.dk/Kamilla Bryndum

Í grein, sem birt er í tilefni afmælisins á vef DR - danska ríkissjónvarpsins, í dag segir að það hafi ekki komið neinum á óvart að prinsinn hefði kosið að veik börn nytu ágóðans. „Börn eiga vísan stað í hjarta hans, ekki bara hans eigin börn, heldur öll börn heimsins. Hann er verndari samtakanna Care Danmark og á vegum þeirra hefur hann farið til margra þeirra staða í heiminum þar sem fátækt er mest til að hjálpa börnum í neyð.“

En hver er hann? Maðurinn sem hefur verið kallaður „númer tvö“ síðan hann fæddist, prinsinn sem stundum er stundum sagður hrokafullur og í litlum tengslum við raunveruleikann?  Sjálfur segist hann hafa þurft að setja upp tiltekna framhlið út á við hreinlega til að geta fengist við lífið og tilveruna og að það gæti hafa misskilist sem hroki.

Á góðri stundu. Margrét Danadrottning og Hinrik Danaprins með sonum …
Á góðri stundu. Margrét Danadrottning og Hinrik Danaprins með sonum sínum, tengdadætrum og barnabörnum á gullbrúðkaupsdegi sínum 5. júní 2017. Kongehuset.dk

Hann fæddist 7. júní 1969, sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og Hinriks heitins prins, sem lést í fyrra, og var skírður Joachim Holger Waldemar Christian, prins af Danmörku og greifi af Monpezat.

Eldri bróðir hans er Friðrik krónprins, sem fagnaði 51 árs afmæli sínu í lok maí. Bræðurnir fylgdust að í starfi og leik og byrjuðu t.d. í hinum fína einkaskóla Krebs í Kaupmannahöfn á sama tíma. Á unglingsaldri voru þeir sendir saman í heimavistarskóla í Normandí í Frakklandi og útskrifuðust síðan saman sem stúdentar frá Øregård menntaskólanum í Hellerup í nágrenni Kaupmannahafnar árið 1986 þegar Jóakim var einungis 17 ára.

Stuðningur og staðgengill

Prinsarnir voru samrýmdir og var gjarnan talað um þá sem „plat tvíbura“ en það hugtak er stundum notað um systkini sem eru nálægt hvoru öðru í aldri. Þeir voru ósjaldan eins klæddir, a.m.k. á almannafæri þegar þeir sprönguðu um í matrósarfötum og áþekkum klæðnaði, en þeim var frá upphafi gert ljóst að á þeim væri töluverður munur. „Ég hef alltaf vitað það og ég er alinn upp við að vera númer tvö. Mitt hlutverk var skýrt skilgreint og það var að vera stuðningur og staðgengill,“ segir Jóakim í viðtali við danska dagblaðið Politiken sem birt er í dag í tilefni af afmælinu.

Fjölskyldan. Myndin er tekin árið 2017 þegar Nikolai prins varð …
Fjölskyldan. Myndin er tekin árið 2017 þegar Nikolai prins varð 18 ára. Kongehuset.dk

„Ég hef verið í þessu hlutverki síðan ég man eftir mér. Og hvort sem hægt er að tala um okkur sem plat tvíbura eða ekki; foreldrar okkar og sérstaklega pabbi, sögðu þetta gjarnan við okkur: „Einu verður ekki breytt í ykkar bræðrasambandi og það er jafn mikilvægt fyrir ykkur báða að gera ykkur grein fyrir því. Annar ykkar mun alltaf koma fyrstur og hinn mun standa á hliðarlínunni.“ Og mér líður vel í þessu hlutverki, ég finn æ meir hvað það gefur mér mikið frelsi,“ sagði Jóakim í áðurnefndu viðtali við Billedbladet. „Margir eiga erfitt með að átta sig á sambandi okkar bræðranna. En sá ættbogi fjölskyldunnar sem ég og börnin mín tilheyra er það sem ég einblíni á. Það er mitt verkefni í lífinu.“

Sonurinn er fyrirsæta

Alexandra prinsessa og Jóakim prins. Myndin var tekin árið 1999.
Alexandra prinsessa og Jóakim prins. Myndin var tekin árið 1999. NORDFOTO

Jóakim er tvígiftur. Fyrri eiginkona hans er Alexandra Christina Manley, þau giftust árið 1995. Alexandra er viðskiptafræðingur frá Hong Kong og þar kynntust þau Jóakim árið 1994 þegar hann var þar við störf. Þau eignuðust tvo syni. Sá eldri er Nikolai prins sem verður tvítugur í ár og starfar m.a. sem fyrirsæta fyrir Burberry´s,  Dior og önnur þekkt tískuhús. Sá yngri er Felix prins menntaskólanemi sem er á 17. ári. Jóakim og Alexandra skildu árið 2005, þau hafa deilt forræði með sonunum og eru sögð ágætir vinir.

Marie, sem við giftinguna fékk titilinn prinsessa af Danmörku og …
Marie, sem við giftinguna fékk titilinn prinsessa af Danmörku og greifynja af Monpezat. Kongehuset.dk/​Kamilla Brynd­um

Árið 2008 giftist Jóakim hinni frönsku Marie Agathe Odile Cavallier. Hún er hagfræðingur að mennt og starfaði m.a. hjá Reuters fréttastofunni og alþjóðlegum fjárfestingarfyrirtækjum áður en þau giftust. Þau eiga tvö börn sem eru Hinrik prins, fæddur 2009 og Aþena prinsessa sem er fædd árið 2012.

Kát fjölskylda. Frá vinstri eru Nikolai prins, Marie prinsessa, Aþena …
Kát fjölskylda. Frá vinstri eru Nikolai prins, Marie prinsessa, Aþena prinsessa, Jóakim prins og Felix prins með Hinrik prins í fanginu. Kongehuset.dk/Steen Brogaard

Hermaður og bóndi

Eftir stúdentsprófið gekk Jóakim í herinn og gegndi þar m.a. skyldum í lífvarðarsveit drottningar og er nú ofursti í danska landhernum. Hann er menntaður landbúnaðarhagfræðingur og var um nokkurra ára skeið með lífrænan búskap á setri sínu, Schackenborg, sem er í Møgeltønder á Suður-Jótlandi.

Jóakim Danaprins leggur blómsveig á minnismerki í Kaupmannahöfn í apríl …
Jóakim Danaprins leggur blómsveig á minnismerki í Kaupmannahöfn í apríl til að minnast þess að 70 ár voru liðin frá stofnun NATO. AFP

Í haust hyggur hann á nám í herskólanum École Militaire í París,  en námið er ætlað þeim sem hafa þegar komist til nokkurra metorða innan hersins og mun fjölskyldan flytja til Parísar í sumar. Í viðtalinu við Billedbladet segist prinsinn hlakka til þess að setjast á skólabekk, ekki síst í Frakklandi en hann var alinn upp við franska menningu og talar frönsku reiprennandi þar sem Hinrik heitinn faðir hans var franskur. „Mér finnst ég ekki vera að yfirgefa Danmörku á neinn hátt,“ segir prinsinn. „Ég er allt of danskur til þess.“

Eignaðist vináttu föður síns síðustu árin

Í gegnum tíðina hafa margir velt vöngum yfir sambandi bræðranna Jóakims og Friðriks við föður sinn, Hinrik prins heitinn. Uppeldisaðferðir Hinriks þóttu ekki í samræmi við það sem tíðkaðist í Danmörku, hann sagði t.d. opinberlega frá því að hann flengdi prinsana þegar honum þættu þeir ódælir og fræg eru ummæli hans um að börn ætti að ala upp eins og hunda. Báðir hafa bræðurnir sagt frá því að hafa verið aldir upp af barnfóstrum, þeir hafi umgengist foreldra sína lítið og til marks um það sagt frá því að þeir hafi ekki snætt kvöldverð með foreldrum sínum fyrr en þeir voru komnir á unglingsár.

Bræðurnir Jóakim og Friðrik ásamt foreldrum sínum Margréti Þórhildi Danadrottningu …
Bræðurnir Jóakim og Friðrik ásamt foreldrum sínum Margréti Þórhildi Danadrottningu og Hinriki prins. Myndin var tekin árið 2002, á vínbúgarði Hinriks Chateau de Caix, í Frakklandi. Þangað hafði Hinrik farið eftir að hafa lýst því yfir að hann væri í tilvistarkreppu sem eiginmaður drottningar og sagðist hafa verið auðmýktur af dönsku hirðinni. CALIFAO

Í viðtalinu við Politiken segir Jóakim að hann hafi ræktað djúpa vináttu við föður sinn síðustu árin sem Hinrik lifði. „Síðustu tíu ár hans vorum við vinir,“ segir Jóakim. „Það er mikilvægt, þegar ég lít til baka.“

5,6 milljónir í mánaðarlaun

Jóakim gegnir ýmsum konunglegum skyldum og samkvæmt vefsíðu Politiken tekur hann þátt í 4-5 opinberum viðburðum í hverjum mánuði. Hann kemur fram við ýmis tilefni fyrir hönd fjölskyldunnar og þegar bæði drottningin móðir hans og bróðir hans krónprinsinn eru erlendis, gegnir hann hlutverki þjóðhöfðingja. Hann mun láta af því hlutverki þegar Kristján prins,  elsti sonur Friðriks, verður 18 ára og þar með sjálfráða eftir fimm ár.

Samkvæmt vefsíðu dönsku hirðarinnar fær Jóakim 299.125 danskar krónur mánaðarlega í framfærslu frá danska ríkinu, sem jafngildir um 5,6 milljónum íslenskra króna. Að auki greiðir hann enga skatta, hvorki af tekjum, eignum né þeim gjöfum sem honum kunna að vera gefnar, og það sama gildir um eiginkonu hans.

Hann starfar með hátt í 50 góðgerðarsamtökum og hyggst ekki láta af þeim störfum þrátt fyrir flutninginn til Parísar.

Í viðtalinu í Politiken er hann spurður að því hvað hann sjái fyrir sér að taki við að herskólanáminu loknu og hvernig hann telji að námið nýtist sér. „Til hvers gæti þetta leitt? Það er það, sem er svo spennandi,“ svarar prinsinn.

Í viðtalinu við Billedbladed segist Jóakim ekki eiga von á að dagurinn í dag verði mikið frábrugðinn öðrum stórafmælisdögum sem hann hefur fagnað hingað til og segist síður en svo óttast það að eldast. „Mér finnst þetta ekkert svakalegt og í raun ekkert frábrugðið því þegar ég varð 40 ára,“ segir prinsinn kátur á þessum tímamótum í lífi sínu.



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson