Rosaleg orka og vissa

Sigur Rós á tónleikum á Gauknum árið 1999.
Sigur Rós á tónleikum á Gauknum árið 1999. Ljósmynd/Björg Jóna Sveinsdóttir

„Okkur fannst gaman að gera eitthvað vegna þess hvað þessi plata var mikilvæg fyrir okkur,“ segir Kjartan Sveinsson, meðlimur Sigur Rósar til margra ára en hljómsveitin mun halda upp á 20 ára afmæli plötu sinnar Ágætis byrjun með hlustunarpartíi í Gamla bíói á morgun, 12. júní. Viðburðurinn er haldinn nákvæmlega 20 árum eftir að hljómsveitin stóð á sama sviði á útgáfutónleikum Ágætis byrjunar og ætlar hún að halda upp á afmælið með því að spila endurhljóðblandaða upptöku frá útgáfutónleikunum. Húsið opnar kl. 20 og upptakan verður spiluð frá kl. 21. Frítt er inn á afmælisviðburðinn en gestir þurfa að skrá sig á vefsíðu Sigur Rósar á slóðinni sigurros.com/ab20/june12/.

Auk þess verður uppákoma hjá Smekkleysu plötubúð kl. 15 sama dag, götupartí þar sem prufuupptökur og annað sjaldgæft efni af Ágætis byrjun verður leikið. Í kjölfarið verða svo haldnar pallborðsumræður með hljómsveitinni í Mengi kl. 16 og 17.

„Við vorum ungir menn“

„Þetta konsept „ágætis byrjun“ átti eiginlega við fyrstu plötuna, Von. Hún var alveg fín, ágætis byrjun, en nú vildum við gera eitthvað meira og betra,“ segir Kjartan.

Hann rifjar upp ferlið við vinnslu plötunnar: „Upptökuferlið gekk mjög vel. Við tókum upp alla grunnana á tveimur helgum, fjórum dögum, sem þótti nú ekki mikið þá. Svo gáfum við okkur mjög góðan tíma í alla eftirvinnslu. Við mixuðum plötuna til dæmis tvisvar,“ segir hann og heldur áfram: „Við vorum að mixa mikið á nóttunni, þá fengum við ódýrari stúdíótíma. Á þessum tíma varð maður að vinna miklu meira í stúdíói en fólk er að gera í dag. Núna getur fólk gert margt í svefnherberginu hjá sér í fartölvunni. Þetta eru svolítið breyttir tímar“.

Kjartan játar því að þeir félagarnir í Sigur Rós hafi verið fullir af eldmóði á þessum tíma. „Við vorum náttúrulega ungir menn og það var rosalega mikil orka. Við vorum allir í dagvinnu en svo þegar við vorum að klára plötuna vorum við eiginlega allir hættir að vinna. Við helguðum okkur þessu alveg.“

„Það var rosaleg orka og vissa í okkur. Við vorum eiginlega alveg ógeðslega hrokafullir,“ segir Kjartan og hlær. „Við vorum ákveðnir, ekkert endilega í að sigra heiminn en við vissum samt á ákveðnum tímapunkti í ferlinu að þessi plata væri eitthvað sem færi aðeins víðar en upp í Efstaleiti og á X-ið. Þannig að það var mikill spenningur í okkur. Við hugsuðum: „Nú fer eitthvað að gerast.“ Okkur fannst það náttúrulega alveg sjálfsagt. Maður var svolítið með þannig viðhorf. En það er kannski líka bara lykillinn að velgengni að vera svolítið „kreisí“.“

„Þetta var rosa ævintýri“

„Við gerðum hlutina náttúrulega bara á okkar forsendum. Okkur fannst þessi tónlistarbransi svolítið fáránlegur og við ætluðum að breyta því og gera hlutina bara eins og við vildum gera þá. Þetta var voða gaman. Það var svo mikil orka á bakvið þetta allt saman. Við vorum líka bara rosa duglegir.

Platan var tekin upp á SSL mixer. Ég held að við höfum verið fyrstir til að taka upp á þennan mixer sem kom í Sýrland. Það hafði aldrei verið svona græja á Íslandi. Það hafði alltaf verið þessi séríslenski tónn í öllu hér sem var ekkert voðalega spennandi. Þarna fengum við tækifæri til að gera þetta af alvöru. Þetta var rosa ævintýri. Við vorum ekkert hræddir við kostnað, platan var rosa dýr á sínum tíma en það var svo mikil vissa. Smekkleysa bakkaði okkur líka upp. Þegar ég lít til baka þá held ég að við höfum verið mjög heppnir,“ segir Kjartan.

Gefa út afmælisútgáfu

Af tilefni stórafmælisins gefur Sigur Rós út afmælisútgáfu plötunnar. Það er kassi sem inniheldur sjö breiðskífur á vínil og þar á meðal er að finna sjaldgæft efni og áður óútgefin lög og prufuupptökur. Þá mun einnig fylgja vegleg innbundin bók með ljósmyndum, textum og fleira efni sem aðdáendur sveitarinnar og aðrir gætu haft áhuga á.

Auk þessa stóra vínilsafns verður gefinn út fjögurra geisladiska pakki. Á fyrsta diskinum verður sjaldgæft efni, á tveimur upptaka af útgáfutónleikum hljómsveitarinnar árið 1999 sem spiluð verður á afmælisviðburðinum og á þeim þriðja verður svo platan sjálf, Ágætis byrjun.

Viðtalið birtist upphaflega í Morgunblaðinu laugardaginn 8. júní. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þig blóðlangar til að þéna meira af peningum og eyða þeim. Eitthvað gæti fangað athygli þína og skapað hættu. Gæti verið dót, tæki eða óþarfa glys og glingur.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þig blóðlangar til að þéna meira af peningum og eyða þeim. Eitthvað gæti fangað athygli þína og skapað hættu. Gæti verið dót, tæki eða óþarfa glys og glingur.