„Þýðir ekkert að kvarta og kveina“

Már Gunnarsson er einn af þeim sem stefnir á Ólympíuleika …
Már Gunnarsson er einn af þeim sem stefnir á Ólympíuleika fatlaðra í Tokýó árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Már Gunnarsson lítur ekki á sig sem fatlaðan einstakling, enda eru allir að fást við eitthvað að hans mati og ekki gott að dvelja of lengi við að kvarta og kveina því tengt. Hann stefnir á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó árið 2020.  Eins og staðan er í dag er hann þriðji hraðasti blindi baksundsmaður í heimi í 100 m baksundi.

Íslendingar eiga mögulega fjóra sendiherra á Ólympíuleika fatlaðra í Tókýó árið 2020. Þessir sendiherrar „stefna að hinu ómögulega“. Þau æfa nú öll af miklu kappi hvert í sinni grein. Þrátt fyrir að vera með verkefni sem snýr að fötlun þeirra eru þau öll búin að ná tökum á lífi sínu þannig að þau geta skilið mörg okkar hinna eftir á sundbrautinni, á hlaupabrautinni, í hjólreiðum eða langstökki. En að sjálfsögðu vinna fjölmargir fleiri aðilar að því að komast á Ólympíuleikana; hér á landi og víðar. 

En hvernig fara fatlaðir að því að sigrast á fötlun sinni og keppa á meðal hinna bestu á sínu sviði í heiminum? Hvaða hugarfar eru þau með og hvert sækja þau lífsgleðina? Hvað gera þau öðruvísi? 

Fólkið á mbl.is ætlar að reyna að finna út úr því. Þetta viðtal er fyrsta viðtalið af fjórum í sumar. Hæfileikabúntið Már Gunnarsson er eins og viðtalið sýnir engum öðrum líkur. 

Þótt sjónin fari minnkandi er jákvæðnin mikil

Már býr í Reykjanesbæ ásamt fjölskyldu sinni. Móðir hans er Lína Rut Wilberg listakona og faðir hans er Gunnar Már Másson flugmaður sem hefur lagt flugið á hilluna og styður nú við son sinn að ná markmiðum sínum. 

Már er með 0,5% sjón en er fæddur með 7-8% sjón sem er að minnka með aldrinum. Orsökin er sjúkdómur í augnbotnum, Leber Congenital Amaurosis, LCA. 

Már hefur alltaf haft áhuga á íþróttum. Nýjustu met Más eru einstök og koma honum í fremstu röð í sinni grein í heiminum.

-Hvernig verða æfingarnar í júlí og ágúst?

„Til að reyna að ná toppárangri fyrir heimsmeistaramótið í sundi í London sem haldið verður í september, mun ég æfa tvisvar á dag í júlí og ágúst. Ég verð á sundæfingum hjá Steindóri Gunnarssyni og Davíð Hildeberg. Í kraftþjálfun hjá pabba og síðan æfi ég snerpu og liðleika hjá landsliðsþjálfaranum Helga í tae kwon-do.“

-Samband þitt við foreldra þinna er einstakt. Hvað getur þú sagt okkur um það?

„Sambandið mitt við foreldra minna er mjög gott. Pabbi er með mér á öllum æfingum nema þegar ég æfi með Helga og síðan er mamma einnig alltaf til staðar fyrir mig.“

-Hvernig er mataræðið þitt?

„Ég borða tvær heitar máltíðir á dag, stundum heima og stundum á Soho eða Malai Thai sem eru mínir uppáhaldsstaðir í Reykjanesbæ.“

Verkefnin halda Má við efnið

-Skiptir jákvæðni miklu máli og hvernig heldur þú þér jákvæðum?

„Varðandi jákvæðnina, þá erum við öll mannleg og hver dagur með sín verkefni og ekki eins. Ég verð að segja að skemmtileg verkefni halda mér við efnið og gera mig jákvæðan.

Í september er ég að fara að keppa á heimsmeistaramótinu í sundi. Til að ná góðum árangri þar sem ég vil auðvitað gera, þarf maður að æfa vel og undirbúa sig.

Eftir það í lok september fer ég til Póllands að halda stórtónleika með vinum mínum þar og það er náttúrulega bara æðislegt. 

Eftir það er ég að fara aftur út til Póllands í nóvember að keppa í Lions World Song Festival for the Blind, sem er söngvakeppni fyrir blinda. Síðan eru mörg önnur verkefni sem erfitt að útskýra núna.

Á næsta ári eru síðan Evrópumeistaramótið í Madeira og síðan Ólympíuleikarnir í Tókýó sem verður áhugavert að vita hvort ég komist á. Það fer að styttast í að maður sjái hvort maður komist þangað eða ekki. Núna lítur þetta vel út, ég er þriðji hraðasti blindi baksundsmaður í heimi í 100 m baksundi.“

Sundið er einungis tímabundið

-Ertu fyrst afreksmaður í íþróttum og síðan listamaður?

„Sundið er tímabundið. Á meðan maður er í sundinu gerir maður það vel og síðan bara tekur tónlistin við.

Ég er reyndar að vinna í tveimur skáldsögum núna líka, svo ég er spenntur að sjá hvernig það kemur út.“

Þar sem Már er með litla sjón sér hann ekki línurnar í sundlauginni eða bakkann þegar hann nálgast. Af þeim sökum er hann með aðila sem bankar í höfuð hans rétt áður en hann kemur að bakkanum.  Þessi aðili er vanalega kallaður bankari. Það er forvitnilegt að vita hvað Má finnst um bankið og hvernig hann fær traustið til að setja vitneskjuna um fjarlægðina í bakkann á einhvern annan?

„Það er rosalega margt sem viðkemur bankinu sem skiptir máli. Hætturnar við það að synda með litla sjón eru bakkarnir en síðan eru línurnar einnig stórhættulegar líka. 

Bankið skiptir miklu máli. Sá sem er langbestur í því er pabbi minn. Hann bankar mig á hverri einustu æfingu og í hverju einasta móti. Ef hann væri ekki í bankinu, þá væri ég ekki að synda eða í þessari íþrótt. Það er bara algjörlega klárt mál.

Það eru nokkrir einstaklingar sem eru að banka mig og ég treysti yfirleitt bara þeim sem eru að banka mig mest og ég er bara bankaður af vönum einstaklingum og þess vegna treysti ég þeim. En það er alltaf áhætta í þessu. Núna í síðustu viku, lenti góður vinur minn í slysi í Hollandi, þar sem hann sneri of seint og fór með höfuðið í bakkann og það hefði getað endað mjög illa.“

Þetta er í raun og veru ekkert mál

-Hvað með sjónina þína? Fer hún minnkandi?

„Varðandi sjónina þá er ég með ólæknandi hrörnunarsjúkdóm í augnbotnum, LCA, þegar ég fæddist var ég með 7% sjón, sem er kannski ekki svo mikið en hver komma skiptir máli.  Núna er sjónin komin niður í 0,5% og er staðan þannig að enginn veit almennilega hvernig þetta mun þróast eða halda áfram.“

-Hvaða tilfinningar fylgja því að vera með þennan sjúkdóm?

„Þegar ég var yngri og bjó í Lúxemborg og gekk í skóla með krökkum sem voru sem dæmi ekki með skerta sjón þá spurði ég mig oft að því af hverju ég þyrfti að fæðast með þennan sjúkdóm. Af öllum þeim milljónum sem til eru í heiminum, af hverju ég? 

Innst inni vissi ég samt alveg að þetta væri ekkert mál. Ég hef alltaf þekkt þetta og líður ekki illa með þetta. Ég er ánægður með mig eins og ég er. Ég lít ekki á mig sem fatlaðan einstakling. Vegna þess að við erum öll mennsk og ekki allir með allt.

Það að vera sjónskertur er að mörgu leyti auðvelt. Það eru svo rosalega margir sem eru í svo miklu verri stöðu en ég. Þannig vil ég bara beina þeim skilaboðum til þeirra sem eru að greinast með augnsjúkdóma að þetta er í rauninni ekkert mál.“

Ekki með keppnisskap heldur gerir hlutina vel

-Hvaðan kemur keppnisskapið?

„Ég verð að viðurkenna að ég er í raun og veru ekki með svo mikið keppnisskap. Ég er með mikið jafnaðargeð og hef alltaf bara gert hlutina eins vel og ég get og það nægir mér.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem langar að ná langt í lífinu en vita ekki hvernig þeir eiga að gera það eða hvernig þeir eiga að mæta mótlæti í lífinu?

„Það skiptir mestu máli að mínu mati að vera á þeim stað sem hentar manni best. Að vera í kringum fólk sem þér líkar við og að því líki við þig. Að ræða það ef vandamál koma upp, síðan er það þannig að það er ekki allt endilega fullkomið við íþróttir en þá er bara að líta á það skemmtilega og það nær alltaf yfirhöndinni.

Síðan er það þannig að það þýðir ekki að kvarta, kveina og væla yfir hlutum sem skipta ekki máli.“

Að lokum hvetur Már alla að hlusta á tónlistina sem hann er að gera um þessar mundir. Lagið Alive kom nýverið út og er til þess gert að koma fólki í gott skap og smita þeirri hugsun yfir til fólks að við eigum öll skilið að vera lifandi. Til þess er jú lífið. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant