„Það er ógeðslegt veður, reyndar“

Berglind Festival er stödd á LungA á Seyðisfirði. Hér er …
Berglind Festival er stödd á LungA á Seyðisfirði. Hér er hún framan við Sirkus skemmtistað, þann sem lokaði í Reykjavík árið 2007, opnaði aftur í Færeyjum 2009, og svo enn og aftur, og til viðbótar við útibúið í Færeyjum, á Seyðisfirði nú í júní 2019. Berglind hefur Ými Grönvold listamann á hægri hönd en Ólaf Stefánsson heimspeking og handboltamann á vinstri. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk er að spyrja mig… á ég að koma? Er rigning? Og ég segi við það, ertu að grínast? Drullaðu þér upp eftir,“ segir Berglind Pétursdóttir, festival. Hún var mætt á Seyðisfjörð fyrir helgi. LungA er að skella á eða er raunar þegar skollið á. Með rigningu.

Þessi [L]istahátíð [ung]a fólksins á [A]usturlandi, sem sumt að vísu er að verða eldra, var sett um helgina. Hún stendur svo alla vikuna, með tilheyrandi listasmiðjum og viðburðum. Hún er svo sögð ná hámarki nú um helgina, þegar listasmiðjumenn sýna afrakstur erfiðis síns og halda svo tónlistarhátíð. 

Það er fyrst og fremst á tónlistarhátíðina sjálfa sem almennir borgarar leggja leið sína. „Þetta er enn þá frekar rólegt. Það er að bætast í hópinn, já, almennu borgararnir eru farnir að sjást í auknum mæli núna,“ segir Berglind, sem sjálf hefur verið á staðnum frá því í síðustu viku.

„Eitt stærsta partý hátíðarinnar er á morgun,“ segir hún. Fólk hlýtur að leita í það. 

Berglind fer ekki varhluta af listasmiðjulífinu á LungA. Að vísu …
Berglind fer ekki varhluta af listasmiðjulífinu á LungA. Að vísu er hún hér að störfum fyrir stórfyrirtæki, Símann, og af fyrri störfum Berglindar er ekki annars að vænta en að Þrennubásinn verði völundarsmíð. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ógeðslegt veður, reyndar. Rakastigið í tjöldunum er sums staðar orðið svolítið mikið. Ég er á hóteli og sumir hafa verið að leita til mín, þeir vilja gista á gólfinu. Þeim er það velkomið,“ segir Berglind. Hún er listrænt sinnuð sjálf en er einnig á staðnum til að halda utan um Þrennubás Símans. Hún vinnur fyrir þá.

Listræn víma og ekki

Fólk lætur regnið ekkert á sig fá, frekar en það gerir það nokkurn tímann á svona útihátíðum. „Fólk er bara hér í listrænni vímu og bræðralagsmóki,“ segir Berglind.

En er það að nota eiturlyf?

„Þeir sem eru í því fela það mjög vel,“ segir hún. 

Einu óeirðirnar sem Berglind hefur orðið vitni að, en rétt er að árétta að meginþungi hátíðarhaldanna er ekki skollinn á enn, eru deilur á milli tveggja ítalskra listamanna. „Þeim kom ekki saman um í hvaða litum þeir vildu mála pallettu,“ segir Berglind. 

Berglind hefur oft áður farið á LungA og er ekki á öðru en að hátíðin í ár verði alveg jafn „feit“ ef ekki „enn feitari“ en síðustu ár. Hátíðin á sér sögu í einhverri mynd aftur til aldamóta.

Blautt og svalt

Berglind talaði um veðrið og þeir sem nú eru að keyra austur eiga samkvæmt vakthafandi veðurfræðingi á Veðurstofunni ekki sérstaklega gott í vændum. „Stundum er bara gott að skemmta sér í bleytu,“ sagði hann. „Það er ekki til vont veður, bara vitlaus klæðnaður,“ sagði hann.

Það verður „vel blautt“ á fimmtudaginn og föstudaginn sérstaklega, síður blautt á laugardag og sunnudag en „samt ekkert til að hrópa húrra fyrir.“ Hitinn fer varla yfir 10 gráður en það verður ekki mikill vindur. Blautt og svalt, sem sé.

LungA árið 2016. Það var þá og nú er nú.
LungA árið 2016. Það var þá og nú er nú. Pétur Kristjánsson
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Taktu hlutunum eins og þeir eru sagðir og reyndu ekki að kryfja þá til mergjar. Gakktu samt varlega fram því sígandi lukka er best og tryggir heill og hamingu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Taktu hlutunum eins og þeir eru sagðir og reyndu ekki að kryfja þá til mergjar. Gakktu samt varlega fram því sígandi lukka er best og tryggir heill og hamingu.