Búðin opnuð — „smá spenna í loftinu“

Starfsfólk í Ed Sheeran-búðinni tekur á móti fólki með bros …
Starfsfólk í Ed Sheeran-búðinni tekur á móti fólki með bros á vör. mbl.is/Hari

Þegar rétt rúmar þrjár vikur eru í stórtónleika Eds Sheerans á Laugardalsvelli hefur Ed Sheeran-búðin opnað í Kringlunni. Þar getur fólk nálgast miðana sína á tónleikana sem fara fram 10. og 11. ágúst en tónleikahaldari býst við „svaðalegum“ tónleikum.

Upp­selt er á fyrri tón­leik­ana, 30 þúsund miðar ruku út sem frægt varð, en fáir miðar eru lausir í einhver svæði á þá seinni.

Búðin er staðsett á annarri hæð Kringlunnar og þar verður, auk þess að ná í miða, hægt að kaupa sér ýmsan varning tengdan tónlistarmanninum rauðhærða. Þar má meðal annars nefna stuttermaboli, peysur og einhvers konar hatta sem eflaust munu nýtast vel í vetur.

Það kemur í ljós 10. og 11. ágúst hvort tónleikarnir …
Það kemur í ljós 10. og 11. ágúst hvort tónleikarnir verði fullkomnir, líkt og lagið Perfect. mbl.is/Hari

Ísleif­ur B. Þór­halls­son, tón­leika­hald­ari hjá Senu Live, segir að gestir þurfi að hafa pappírsmiða til að komast á Laugardalsvöll. Miðalausir geta ekki barið stórstjörnuna augum.

„Það er hægt að sækja miða í búðinni. Einnig verður hægt að sækja miða í Fan Zone klukkan 12 á tónleikadag og líka klukkan 16 á vellinum. Þetta er hægt en við mælum eindregið með því að fólk klári þetta áður en það kemur á svæðið,“ segir Ísleifur.

Hann segir að það sé til gamans gert að opna búðina á annarri hæð Kringlunnar og vonast til að það skapi ákveðna stemningu. „Varningur tengdur Ed Sheeran er kominn til landsins og er til sölu. Yfirleitt er þetta eitthvað sem er eingöngu til sölu á tónleikunum,“ segir Ísleifur.

Auk þess að nálgast miða og kaupa varning geta væntanlegir tónleikagestir fengið svör við öllum spurningum varðandi tónleikana. 

Hvar er búðin? Hún er á annarri hæð Kringlunnar.
Hvar er búðin? Hún er á annarri hæð Kringlunnar. mbl.is/Hari

Ljóst er að allt að 60 þúsund aðdáendur Ed Sheeran verða í Laugardalnum aðra helgina í ágúst en Ísleifur segist ekki finna fyrir stressi þrátt fyrir að mikil ábyrgð sé á hans herðum. Hann hlakkar bara til.

„Það er komin smá spenna í loftið, það er ekki hægt að neita því,“ segir Ísleifur og hlær.

„Við erum ekki stressuð og erum með stóran hóp af fólki sem kann vel til verka. Aðdragandinn hefur verið langur en ég hef unnið í þessum tónleikum í tvö til þrjú ár,“ bætir Ísleifur við.

Hann segir að þeir sem sjái um tónleikaferðalag Ed Sheeran séu með allt á hreinu og komi með „margreyndan pakka“ í Laugardalinn. „Það er ekki stress en spenna í loftinu. Þetta verður svaðalegt þegar allt brestur á,“ segir Ísleifur.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.