Marvel kynnir kvenkyns Þór

Natalie Portman mun munda hamarinn í næstu kvikmynd um þrumuguðinn.
Natalie Portman mun munda hamarinn í næstu kvikmynd um þrumuguðinn. AFP

Forseti Marvel studios, Kevin Feige, tilkynnti tíu væntanlegar ofuhetjukvikmyndir úr smiðju Marvel á Comic Con í San Diego í Bandaríkjunum í gær.

Fjöldi aðdáenda Marvel hafði, samkvæmt frétt BBC, sett upp tjaldbúðir í röðinni á viðburðinn, enda hafði frétta af áframhaldandi ofurhetjuævintýri verið beðið með mikilli eftirvæntingu eftir síðustu kvikmyndina í Avengers-bálkinum, End Game.

Það sem mun hafa komið mest á óvart á kynningu Marvel var tilkynning þess efnis að Mahershala Ali myndi taka að sé hlutverk Blade vampíruveiðimanns, sem Wesley Snipes lék svo eftirminnilega í útgáfu kvikmyndarinnar árið 1998.

Þá var útgáfa fjórðu kvikmyndarinnar um þrumuguðinn Þór staðfest á viðburði Marvel í gær, en í henni mun Natalie Portman, áfram í hlutverki Jane Foster, munda hamarinn mikla, þar sem Þór sjálfur verður þess ekki lengur sæmandi.

„Þetta er góð tilfinning. Ég hef alltaf verið haldinn svolítilli hamarsöfund,“ sagði Portman áhorfendum.

Nánar má lesa um tilkynningar Marvel í frétt BBC.

mbl.is